Sunna Ósk Logadóttir

Sunna Ósk Logadóttir á þakkir skildar fyrir greinaskrifin um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir  á Ófeigsfjarðarheiði, kenndar við Hvalá sem birst hafa á mbl.is í dag.  Það er greinilegt að blaðamaðurinn hefur lagt mikla vinnu í þetta mál og er óhrædd að taka afstöðu.  Vonandi að fleiri taki upplýsta afstöðu eftir að hafa kynnt sér þessi áform rækilega.  Það má bara ekki gerast að ósnortin náttúra þessa afskekkta landshluta verði græðgivæðingunni að bráð.  Nóg er nú samt á ábyrgð virkjunarsinna sem þeir hafa eyðilagt sem annars væri hægt að njóta um ókomin árhundruð.


mbl.is Marga þyrstir í heiðarvötnin blá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrædda kynslóðin

Hrædda kynslóðin er ennþá hrædd vegna þess að hér var og er enn stunduð kerfisbundin hræðslupólitík. Hræðslupólitík um að allt fari hér til fjandans ef andstæðir flokkar komast til valda. Við þekkjum öll þessi slagorð sem notuð eru, Stöðugleiki vs.sundurlyndi, Skattpíning vs. kaupmáttaraukningu og núna síðast, spilling vs. gagnsæi. Hrædda kynslóðin ólst líka upp við takmarkað fjölmiðlafrelsi. Hér var rekin hatrömm flokkspólitík og í skjóli allskonar takmarkana og valdníðslu var alþýðan miskunnarlaust lamin til hlýðni við valdastéttirnar. Æ síðan skilur hrædda kynslóðin ekki hugtök eins og beint lýðræði eða lárétt lýðræði.  Hrædda kynslóðin vill áfram píramídalagaðan valdastrúktúr þar sem einn foringi mótar stefnuna og allir hinir fylgja hlýðnir með.

Hrædda kynslóðin skilur ekki nýju pólitíkina.  Skilur ekki láréttan valdastrúktúr Pírata, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar. Hrædda kynslóðin situr uppi með Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð. Hrædda kynslóðin vaknar snemma á hverjum kjördegi, fer í sparifötin og kýs áfram sinn kvalara. Þess vegna breytist allt svo hægt. Hrædda kynslóðin er svo hrædd að hún mætir alltaf og kýs.  Við þurfum að taka upp rafrænar kosningar til að breyta þessu ójafnvægi.  Það gerist aðeins með breytingum á stjórnarskránni. Ný stjórnarskrá mun bæta geðheilsu landsmanna og draga úr hræðslu og kvíða eldri kynslóðanna og auka ábyrgðarkennd yngri kynslóðanna.  Ný stjórnarskrá er þjóðarnauðsyn.


Íslenskir nýnasistar og hatursorðræðan

Sem betur fer er ekki hljómgrunnur fyrir pólitískri hugmyndafræði nýnasista á Íslandi sem ætluðu að seilast til áhrifa með útlendingafóbíu að vopni. Verst að óþverrinn Magnús Hafsteinsson skuli hafa stokkið frá borði og verið veitt pólitískt hæli af Ingu Sæland.

Það að Yfirkjörstjórnir í 3 stærstu kjördæmunum skuli hafa beitt samskonar aðferðum við skoðun á kjörgögnum leiðir í ljós að allt talið um hatursorðræðuna hefur skilað árangri og menn ætla að spyrna við fótum. Það er ágætt. En hins vegar er miklu betra að það skuli ekki hafa fundist nægilega margir meðmælendur til að bakka þessi óþverrasamtök upp sem íslenska þjóðfylkingin er. Vonandi þýðir þetta endalok þessara haturssamtaka íslenskra nýnasista


mbl.is Íslenska þjóðfylkingin býður ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishallinn í stjórnarskránni

Það sem kosningar fela en kannanir leiða í ljós er hvernig fólk kýs eftir búsetu, aldri og kyni og hvernig þessi atkvæði af landsbyggðunum annars vegar og þéttbýlinu á suðvesturhorninu hinsvegar, skiptast á gömlu valdaflokkana, gamla fjórflokkinn. Fylgi nýrra flokka er venjulega meira í þéttbýli sem skýrir hvers vegna þessar hindranir  eru í stjórnarskránni og hvers vegna henni er haldið í herkví gömlu valdaflokkanna, sem byggja fylgi sitt á eldri kjósendum af landsbyggðunum. (Líta verður á Miðflokkinn sem klofning úr Framsókn í þessu sambandi)

Miðað við síðustu alþingiskosningar þá kusu rétt tæp 190.000 manns. Þar af voru 125000 sem kusu í þéttbýlustu kjördæmunum 3 á móti 65000 í dreifbýlustu kjördæmunum 3.  Miðað við skiptingu þingsæta þá þýðir þetta 55% misvægi atkvæða. Það eru einungis 65 þúsund atkvæði á bakvið 28 þingmenn dreifbýlis en 125 þúsund þurfti til að velja hina 35.  Þetta misvægi hlýtur að þurfa að jafna og það gerist ekki nema með breytingum á stjórnarskránni.

Stjórnarskráin á að tryggja jafnan rétt allra. Líka atkvæðaréttinn.


mbl.is X-S er hástökkvari vikunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband