19.2.2011 | 14:58
Hér ber að veiða umtalsvert meira af makríl
Af hverju þarf alltaf einhvern stimpil á það sem liggur í augum uppi? Íslenskir sjómenn hafa öðlast meiri þekkingu á lífríki sjávar með áralangri sambúð við hafið en fiskifræðingar geta nokkru sinni öðlast með nokkurra ára setu á skólabekk. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á þekkingu per se. En þegar háskólamaðurinn setur sjálfan sig skör ofar en alla aðra þá ber að endurmeta menntunina. G. Bernard Shaw ofmetnaðist aldrei þótt hann væri snillingur. Fiskifræðingana munar ekkert um að ofmetnast og eru þeir þó langt í frá að vera andleg ofurmenni. Hér þarf skýra verkaskiptingu. Fiskifræðingarnir eiga að afla þekkingar á vistkerfum hafsins og spá fyrir um breytingar. Sjómenn eiga að stunda sjávarbúskap á ábyrgan hátt og stjórnmálamenn eiga að sjá um að þarna á milli sé samræmi. Við þurfum nefnilega að fara að líta á hafið sem part af landinu. Landgrunnið er ekkert frábrugðið þeim hluta landsins sem upp úr stendur. Samt lokum við augunum og búum okkur til línu þar sem land og haf mætast og segjum, að allt sem gerist á landi kemur okkur við, en allt sem gerist í sjónum kemur okkur ekki við. Af hverju leyfum við mjög fámennum hópi manna að ráða öllu á landi sem er margfalt flatarmál Íslands? Makríll sem er á beit í okkar lögsögu er að éta frá okkar bústofni. Það liggur í augum uppi. Eins er með hvali og seli. Okkur ber að nýta alla þessa stofna til þess að viðhalda jafnvægi. Ef við göngum í ESB, þá afsölum við okkur þessum rétti og sjávarbúskapurinn mun bera skaða af. Í gær benti ég á að ESB vildi ekki úthluta makríl kvóta til Íslendinga í fyrra. þeir buðu okkur 2000 tonn en við tókum okkur 130.000 og seldum fyrir 12 milljarða. Ef allur sá afli hefði farið til manneldis þá hefði útflutningsverðmætið hæglega getað náð 20 milljörðum. Sjálfstætt Ísland getur aukið afla í öllum tegundum og aukið útflutningsverðmæti í gjaldeyri um lágmark 50 milljarða, Ef við göngum í ESB, þá missum við ákvörðunarvaldið um leyfilegt aflamagn til Brussel og það er öruggt að okkar hlutur í sameiginlegum flökkustofnum mun minnka og einnig eru líkur á að þorskveiðar muni ekki verða auknar. Þetta mun leiða til samdráttar í þjóðartekjum án þess að fá það nokkru sinni bætt. Þeir sem vilja skoða í pakkann og horfa helst til evru og lægri vaxta og lægra matvöruverðs, þurfa að sjá heildarmyndina. Maður á bótum getur lifað ágætis lífi en hann er samt í fátæktargildru og getur ekki hrist af sér hlekkina, án þess að skaðast fjárhagslega. Sama mun verða ef við göngum í ESB.
![]() |
Meiri sardínur - minni þorsk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2011 | 12:10
Að troða heilli þjóð í handfarangur
Íslendingar eru ekki vanir frelsi. Sérstaklega ekki ferðafrelsi. Fyrstu 900 árin eða svo vorum við fangar úti á miðju Atlantshafi og urðum að sæta árstíðum til að komast frá landinu. Þá varð til hinn frægi frasi: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur ráða" Í dag geta allir siglt. Byr ræður engu. Mönnum er frjálst að velja sér búsetu þar sem menn vilja. þetta hafa margir notfært sér án þess að nokkur hafi skipt sér af. Þess vegna skil ég ekki það fólk sem vill núna troða allri þjóðinni ofan í tösku og taka með sér til Evrópu!
Ég hef engan áhuga á að búa annars staðar en á Íslandi. Ef ég vildi búa á Spáni eða í Danmörku, þá mundi ég flytja þangað og ekki reyna að fá alla aðra með. Af hverju geta ekki ESB sinnar virt svona einfalda reglu sem snýr að persónulegu frelsi hvers Íslendings til að ráða sínum örlögum sjálfur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.2.2011 | 10:20
Undirskriftasöfnun er ekki kosning
Þessi umræða um undirskriftasöfnunina á kjósum.is er fáránleg en jafnframt einkennandi fyrir móðursýkina sem hér veður uppi. Af hverju vilja menn ekki að þjóðin kjósi? 33 þingmenn vildu ekki að þjóðin fengi að kjósa og margir bloggarar vilja ekki heldur að þjóðin fái að kjósa. En það sem meira er, þeir vilja ekki heldur að fólk fái að setja nöfn sín á lista til stuðnings sinni kröfu! Hvers lags fasískt skoðana kúgunar ræði vilja menn innleiða hér? Því þetta er fasismi og ekkert annað. Minnihlutinn vill ráða. Minnihlutinn hræðist, að icesave lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna berjast þeir um á hæl og hnakka. En hvaðan kemur mönnum eins og Jónasi Kristjánssyni þessi sannfæring um að bara hann viti hvað öllum er fyrir bestu? Ég hafna því. Ég vil sjálfur hafa eitthvað um það að segja. Ég vil beint lýðræði og mér er alveg nákvæmlega sama um allar undirskriftasafnanir. Þær eru bara yfirlýsing. Jafn marklausar og skoðanakannanir.
Aðeins með þjóðaratkvæðagreiðslu kemur hinn raunverulegi þjóðarvilji í ljós.
Allir munu sætta sig við niðurstöðu kosninga, á hvorn veginn sem hún fer.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2011 | 09:47
Það ber að draga umsóknina til baka!
ESB umræðan hefur klofið þjóðina í andstæðar fylkingar. Og samt er hún varla byrjuð af ráði! Á því er bara ein skýring og hún er sú þjóðfélags kollsteypa, sem hér varð. Margir hafa misst traust á íslenskum stjórnmálamönnum og íslenskri stjórnsýslu og telja að allt annað sé betra en íslensk embættismannaklíka sem hefur hreiðrað um sig í kerfinu og hindrar hér allt gegnsæi og opnar ákvarðanir. Þetta er skiljanlegt en þetta vonleysi er bara tímabilsástand. Þess vegna er þessi tími sem Samfylkingin valdi til að sækja um aðild að ESB svo rangur.
Hér er verið að spila með tilfinningar fólks sem nýgengið er í gegnum stærstu áföll sem geta hent. Og ekki bara eitt stóráfall, heldur röð áfalla. Þegar tilverunni er kippt undan fólki fjárhagslega, þá hefur það áhrif á alla tilveruna. Óöryggið varðandi framtíðina getur sundrað fjölskyldum og heilum þjóðum. Þetta gerðist hér í kjölfar hrunsins. Sérfræðingar segja að sá sem verður fyrir áfalli á ekki að taka mikilvægar ákvarðanir fyrr en hann hefur unnið úr áfallinu. En hér ræðst heil stjórnmálafylking á þjóðina meðan hún er í sárum og vill þröngva henni til að taka mikilvægustu ákvörðun sem þjóð getur tekið!! Sjá menn ekki hvað þetta er siðferðilega rangt? Eru engir félagsfræðingar eða sálfræðingar eða geðlæknar eftir í Samfylkingunni sem geta komið vitinu fyrir þetta vitfirrta lið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2011 | 09:09
Brottkastið í ESB landinu
Við sem gagnrýnt höfum kvótakerfið allt frá upphafi höfum alltaf bent á hið innbyggða brottkast sem aðalrökin gegn kerfinu. Í 30 ár hafa hagsmunaaðilar og fiskifræðingar og ónýtt eftirlitskerfi alltaf reynt að fela þennan ágalla kerfisins og gert lítið úr honum. Á Íslandi hafa engar alvöru rannsóknir farið fram á umfangi brottkasts. Ég er sannfærður um að þeir sem ábyrgð bera kæra sig ekki um að vita hið sanna. Hins vegar bárust af því fréttir síðast liðið sumar að gerð hefði verið könnun á brottkasti í Norðursjó og var talið að allt að einni milljón tonna af fiski sé þar hent árlega vegna kvótakerfisins. Vegna þess að bannað er að koma með smáfisk að landi og vegna takmarkana á því sem má veiða þá henda sjómenn verðminnsta fiskinum. Og þeir sem bara eiga kvóta á einni tegund , henda öllum meðafla. Þannig virka þessi kvóta og aflamarkskerfi í praxis. Það er nefnilega munur á að hanna kerfi á teikniborði eða í reiknilíkani eða hvernig það virkar í raunveruleikanum.
Fyrir 30-40 árum þegar ég var á togurum sem sigldu með aflann til Englands og Þýzkalands, þá vakti það sérstaka athygli okkar, allur sá smáfiskur sem seldur var á markaðinum og kom úr Norðursjó. Þetta voru allt niður í 25 cm pöddur eða lítið meira en hausinn. Þennan afla hirtu menn þá og gerðu sér fé úr. Núna sézt ekki smáfiskur á mörkuðum í ESB löndum, þökk sé kvótakerfinu þeirra. Milljón tonna árlegt brottkast eru margir fiskar. Það er nefnilega svo blekkjandi að tala um tonn. Það á að tala um stykki. Í 1 tonni af meðalstórum fiski eru kannski 150-200 fiskar en í 1 tonni af brottkasti eru 500 til 2000 fiskar, allt eftir tegund veiðafæris.
Brottkastið er innbyggt. Það er eingöngu hægt að koma í veg fyrir svona umfangsmikið brottkast með því að afnema kerfið. Þar er rót vandans. Fyrir utan beina fjárhagslega hagsmuni af að koma ekki með verðlítinn smáfisk að landi þá er það ekki síður vegna plássleysis um borð í skipunum sem smáfiski er hent. Þegar afla er landað á markað, þá fæst alltaf hæst verð ef fiskur er flokkaður um borð í veiðiskipinu. Til þess að flokka almennilega þá þarf kannski að hafa 10 kör undir í einu. Allir sem hafa verið á sjó vita að hönnun lestarrýmis í íslenskum veiðiskipum býður ekki upp á slíkt. Þess vegna gera menn bara það sem best er í stöðunni og henda smáfiski og meðafla. Þannig verður vinnan þolanleg og menn hámarka sín laun til skamms tíma litið. Og þetta plássleysi sem hvetur til brottkasts á ísfiskveiðiskipum og dagabátum á jafnt við um vinnsluskipin. Þar er afskurði, hryggjum og hausum hent
Þetta verða reglustikufræðingarnir og stjórnmálamennirnir að skilja til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Kvótakerfið hefur verið varið með því að vísa til vísindalegra raka fiskifræðinga. En á þessu er bara sá stóri hængur að vísindin gera sjaldan ráð fyrir mannlega þættinum. Enda væru það varla vísindi eða hvað!!
Fiskveiðar eru 90% mannlegur þáttur og 10% vísindi.
Þess vegna verðum við að hafa kerfi sem tekur mið af því.
Við inngöngu í ESB þá mun brottkastið verða viðvarandi vandamál því engar líkur eru á að ESB afnemi kvótastýringu fiskveiða
Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2011 | 12:14
Hómer Simpson bloggar á DV
18.2.2011 | 11:13
Kostnaður þjóðarinnar við ESB aðild
Sá mikli fjöldi þjóðarinnar, sem enn trúir á jólasveininn og bíður eftir að sjá hvað ESB jólasveinninn setur í skóinn, mun verða fyrir vonbrigðum. Við höfum verið óþekk og jólasveinninn mun setja ódýra hollenska ESB kartöflu í skóinn. Þetta mun hafa þær afleiðingar að kartöflurækt leggst af hér á landi með tilheyrandi fækkun starfa í landbúnaði. Og vegna þess að hér eru allar forsendur fyrir góðum lífskjörum þá mun íslenska þjóðin þurfa að greiða meira til sambandsins heldur en við eigum rétt á að fá frá ESB. En síðast en ekki síst Þá verður beinn skaði þjóðarinnar ekki minni en 20 milljarðar á ári næstu árin í minni gjaldeyristekjum vegna þess að okkur verður bannað að veiða sanngjarnan skerf úr makrílstofninum. Hvað þessi hafbeit makrílsins mun svo kosta í óbeinum kostnaði mun aldrei fást svar við. En eitt er víst og það er, að baráttan um ætið í hafinu er hörð. Og það sem aðrar fisktegundir og sjávarspendýr éta kemur beint niður á vexti og viðgangi okkar helstu nytjastofna eins og Þorsks, ýsu og síldar. Viljum við leggja það undir í þeim póker sem Samfylkingin er að spila með framtíð Íslands?
Hvernig geta menn með góðri samvisku og í góðri trú mælt með aðild?
Eru menn virkilega svo naive að trúa því að við munum njóta sérkjara? þegar á allt er litið þá ríkir einfalt meirihlutaræði í ESB og áhrif okkar eru ljós og þau eru ekki umsemjanleg. Þau eru innan við 1 %
![]() |
Slæmt fyrir Ísland ef evran hrynur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2011 kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.2.2011 | 10:15
Bull og blekkingar!
Stofnun regnhlífasamtakanna Já Ísland, var mikið óheillaspor fyrir frjálst Ísland. Nú munu landsmenn fá að kynnast því hvernig áróðri, lygum, blekkingum og hálfsannleik verður látið rigna á okkur næstu mánuði. Fyrir þessu erum við varnarlaus. Það verður ekki séns að malda í móinn því mútufé frá Brussel verður dælt í áróðursherferðina og sérhver tilraun til andmæla verður ofurliði borin. Fyrsta auglýsingin í þessari herferð hefur birst okkur þar sem fullyrt er að innganga í ESB lækki matarverð og auki kaupmátt. Þetta er hálfsannleikur. Stjórnvöldum er og hefur alltaf verið í sjálfs vald sett að lækka eða afnema skatta á matvöru. Það getum við vel gert án inngöngu í ESB. ESB aðild er áhugamál embættismanna og stjórnmálamanna sem treysta ekki íslenskri stjórnsýslu. En stjórnsýsluna má bæta og þarf að bæta. Um það er ekki ágreiningur en við ættum aldrei að stíga það óheillaspor að afsala okkur fullveldinu.
Smæð landsins og fæð íbúanna eru sterkustu rökin fyrir að ganga aldrei í ESB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2011 | 09:34
Aumkunarverð ríkisstjórn og ESB dindlarnir
Ríkisstjórn sem er hrædd við þjóðina grípur oft til óyndisúrræða. Afgreiðsla þingsins á icesave frumvarpinu var hlægileg og óskiljanleg miðað við hve málið er viðamikið og afleiðingar þess alvarlegar ef efnahagslegar forsendur breytast. Eina skýringin á hraðferð málsins í gegnum þingið er söfnun undirskrifta á kjósum.is, sem hleypt var af stokkunum um síðustu helgi. Upphaflega var gert ráð fyrir að lögin yrðu samþykkt fyrir áramót en þegar það dróst og samningar náðust við Sjálfstæðismenn þá taldi ríkisstjórnin greinilega sigurinn vísan. Þess vegna kom undirskriftasöfnunin þeim á óvart og þau panikkeruðu. Í fyrsta lagi með því að kippa frumvarpinu út úr fjárlaganefnd í trássi við nefndarmenn, í öðru lagi með því að flýta atkvæðagreiðslunni í ósamkomulagi við þingflokka Hreyfingar og Framsóknar og í þriðja lagi með því að senda lögin með hraði til Bessastaða. Þessi viðbrögð lýsa ríkisstjórn sem er í mikilli tilvistarkreppu.
En enn og aftur skynjar ríkisstjórnin ekki þjóðarviljann. Það gengur ekki. Ríkisstjórnin situr í umboði lítils hluta þjóðarinnar og hún vill neyða upp á okkur aðild að ESB og hún er tilbúin að skrifa upp á skuldabréf að fjárhæð 600 milljarða, til að af aðild geti orðið. Þetta er glórulaust. Og það er ómögulegt annað en að forsetinn vísi þessum lögum til þjóðarinnar eins og hinum fyrri. Steingrímur og Jóhanna eru umboðslaus í þessu mál. Og ef hér hefði ríkt venjulegt ástand með heilbrigðri stjórnarandstöðu og sjálfstæðu Alþingi, þá hefði þessi stjórn sagt af sér strax og ljóst var að þjóðin hafnaði icesave II. En þetta er ekkert venjulegt stjórnmála ástand. Hér ríkir stjórnmálakreppa og dómstólar útdeila hér því litla réttlæti sem enn nær fram að ganga. Ekki kjörnir fulltrúar sem flestir þvælast bara fyrir. Við eigum betra skilið. Og við eigum það inni hjá útrásarforsetanum að hann standi með þjóðinni og vísi þessum hneykslanlegu lögum icesave-ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá geta vitleysingar eins og Teitur Atlason og ESB dindlarnir í Samfylkingunni fengið að kjósa , en þá munu þeir bara hafa eitt atkvæði eins og allir aðrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2011 | 18:18
Hvað þarf að skipa margar nefndir eða vinnuhópa?
Þessi tillaga virðist hafa sofnað í nefnd. Síðan er skipuð nefnd á vegum Samgönguráðuneytis um hagkvæmni strandsiglinga sem skilaði niðurstöðum 9. júní 2010. Niðurstaðan var að verkefnið væri hagkvæmt. Þetta ætti að vera nóg til að hefjast handa myndi maður ætla en ekkert hefur ennþá gerst og þingmenn virðast ekkert vita í sinn haus því enn á ný er lögð fram ályktum á þingi í dag um skipan vinnuhóps um vöruflutninga. Þessi nýja ályktun er flutt af Sjálfstæðismönnum og Framsókn en líka tveim Samfylkingarmönnum. Sigmundur Ernir og Helgi Hjörvar ættu ekki að þurfa að vera með þessa sýndarmennsku þar sem þeir eru aðilar að ríkisstjórn sem hefur allar upplýsingar og ekkert eftir nema framkvæma. En það er þetta með framkvæmdir sem virðist skelfa þessa ólánsstjórn. Henni virðist erfitt að hrinda málum í framkvæmd af einhverjum ástæðum. Og þessi nýjasta þingsályktun er arfavitlaus þar sem hún gerir ráð fyrir að hagsmunaaðilar ráði fyrirkomulaginu. Það á semsagt að spyrja Ólaf í Samskipum hvort hann sé ekki til í að minnka fraktflutninga á landi og nota frekar skip til þeirra flutninga. Auðvitað segir Ólafur nei, honum kemur ekkert við vegaslit og umferðaröryggi. Hann vill bara græða á flutningum. Alþingi þarf að fara að taka ákvarðanir með almannahagsmuni í fyrirrúmi og hætta að þjóna sérhagsmunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)