13.2.2011 | 10:58
Vér reisum því níðstöng
þann sannleika skilur hver þjóðhollur þegn.
Níðstöng því reisum og rekum úr landi
það ræningjahyski, sem vinnur oss gegn
13.2.2011 | 09:06
Margar spurningar - færri svör
Hvaða hagsmunir eru æðri hagsmunum þjóðarinnar? Af hverju eru alþingismenn tilbúnir að skuldsetja þjóðina um milljarða að ástæðulausu? Og af hverju þarf að ná sáttum við ræningja? Af hverju er fáeinum fjölskyldum leyft að braska með óveiddan fisk í sjó? Og af hverju eru menn að tala um sættir? Hvað ræður afstöðu þingmanna? Eru það þeir sem mest borga til stjórnmálaflokka sem mestu ráða? Hvers vegna hefur enginn stjórnmálaflokkur sem nú situr á þingi sett fram tillögur að afnámi kvótakerfisins? Hafa menn ekki skoðun á því eða er búið að múta mönnum?
Það verður engin sátt á meðan hagsmunaaðilar ráða sáttinni. Þótt þeir fjármagni flokkana að stærstu leyti. Alþingismenn verða að axla sína ábyrgð og breyta hér um fiskveiðistjórnarkerfi. Það eru öll rök sem mæla með því. En hugmyndum um auðlindagjald í sjávarútvegi ber að hafna. Sú umræða hefur afvegaleitt þjóðina og skipt henni í þessar fylkingar sem engu fær þokað. Þjóðhagslegur ávinningur af meira frelsi og meiri afla og meiri vinnu er langtum stærri en einhverjir milljarðar sem stjórnmálamenn fá að útdeila. Auðlindasjóður undir stjórn pólitíkusa er ávísun á áframhaldandi og enn meiri spillingu. Varðandi rentu af öðrum auðlindum þá ber að festa í lögum hvernig með skuli farið. Til dæmis að byggja hér upp innviði þjóðfélagsins. Vegi og jarðgöng. Ef við náum þeim áfanga að skipta út jarðefnaeldsneyti á bílaflotanum þá verður ekki lengur hægt að fjármagna vegaframkvæmdir með sköttum. Hvað væri þá betra en hafa fastan tekjustofn í formi auðlindaskatts til að standa straum af þeim framkvæmdum? Tekjustofn sem pólitíkusar gætu ekki ráðstafað að eigin vild. Arðrán þriðja heimsins felst einmitt í því að auðhringar múta stjórnmálamönnum sem nota féð ekki í þágu þjóðanna sem arðrændar eru. Sama er uppi hér. Álfyrirtæki græða óhemju á ódýru rafmagni en engu er varið til uppbyggingar innanlands af þeim gjöldum sem þessi fyrirtæki borga. Það hverfur allt í hítina.
13.2.2011 | 07:01
"Vísindaleg" veiðiráðgjöf
Veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar er af mörgum sjómönnum, líffræðingum og öðrum fiskifræðingum talin vera röng. Á Íslandi er engin fræðileg skoðanaskipti eða gagnrýni leyfð. Þótt margoft hafi verið sýnt fram á ranga veiðiráðgjöf þá hafa stjórnvöld engu breytt varðandi þessa vísindalegu ráðgjöf. Hvernig skyldi standa á því? Þora íslenskir stjórnmálamenn ekki að gagnrýna fiskateljarana af því þeir eiga sér bandamenn hjá ICES? Eða er virkilega búið að framselja fiskveiðistjórnunina, í raun undir Alþjóðahafrannsóknarráðið? Ef það er svo, þá þarf að skýra það fyrir þjóðinni, hvers vegna það var gert og hver ber ábyrgð á því. Í samfélagi þjóða er mikilvægt að virða alþjóðlega samninga og skuldbindingar og einmitt þess vegna þurfa að gilda um það strangar reglur hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að skuldbinda þjóðina. Brýnasta hagsmunamál okkar sem þjóðar er nýtingin á fiskstofnunum. Núverandi kerfi gengur ekki upp og því þarf að bylta í sátt við alla. Sérstaklega útgerðamenn. Fyrsta skrefið til sátta væri að Hafrannsóknarstofnun viðurkenndi að hugsanlega hafi þeim skjátlast í grundvallaratriðum og það megi alveg endurskoða aðferðafræði þeirra.
Menn hafa bent á Barentshafið og þá reynslu sem hefur fengist þar af auknum veiðum í trássi við veiðiráðgjöf ICES. Af hverju ekki að fara eftir reynslu annarra þegar hún hefur sannað gildi sitt?
Sjávarútvegsmál | Breytt 16.2.2011 kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2011 | 22:06
Útrásarlimrur
Nú samúð ei sínum þeim svínum
sem snusuðu af kókaín línum
Þeir sjóðina tæmdu
og þjóðina dæmdu
til greiðslu á lifnaði fínum
Þótt sá sérstaki sýnist oft blunda
til saka brátt sækir þá hunda
sem borgað ei gátu
en gullið samt átu
við aðdáun hala og sprunda
Tækifærisvísur | Breytt 13.2.2011 kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2011 | 12:20
Tími harðstjóra liðinn
er berst úr austri bænakvak
en hvort sagði Bogi
að Kairó nú logi
eða hvorfinn sé Mubarak?
12.2.2011 | 10:27
Kvótakettlingarnir og 5. herdeildin
Erfingjar kvótaauðsins, eru réttnefndir kvótakettlingar. Þeir vinna ekki við greinina, heldur bíða eftir að næsti ættliður á undan þeim deyi svo þeir geti innleyst þennan gífurlega auð, sem nemur 10 milljörðum að meðaltali á hverja af þeim 50 fjölskyldum sem eiga hér 83.90% af kvótanum. Um þetta snýst deilan um fiskinn í sjónum. Kvótakerfið er til þess eins að tryggja eins og kostur er yfirráðarétt þessara kvótagreifa (550 samtals) Uppbygging eða vernd skiptir þá engu.
50 fjölskyldur á Íslandi eiga 83.90% af aflamarki í bolfiski, sem úthlutað er árlega.
16.10% er í eigu allra hinna. 2011 var úthlutað aflamarki til 644 skipa. Ekki er fjarri lagi að álykta að einyrkjar í hópi 16.10% séu um 500 talsins. Allir aðrir sem róa til fiskjar eru því leiguliðar 83.90% hópsins. Nú skulum við reikna, Heildaraflamark í bolfiski umreiknað í þorskígildi var 1. sept 2010 272.406.000 kíló. Segjum að verð á varanlegu þorskígildistonni sé 2.500 krónur kílóið þá er verðmæti alls aflamarks í bolfiski á Íslandsmiðum fyrir árið 2011, 681 milljarður og þar af leiðir þá eiga 50 fjölskyldur kvóta að verðmæti 571 milljarð eða 11.4 milljarðar á hverja fjölskyldu.
Þetta eru hinar nöktu staðreyndir um kvótakerfið og hvers vegna andstaðan er svona mikil við hverri einustu tilraun til að brjóta það niður. Það er hægt að halda uppi gífurlega sterkri andstöðu fyrir brot af þessu verðmæti sem um er að tefla. Og þótt skuldir útgerðarinnar séu kannski 400 milljarðar þá eru þessir menn að verja 281 milljarð sem búið er að færa til eignar eða er framtíðarvirði erfingjanna.
Það eru þessir erfingjar sem ég uppnefni hér sem kvótakettlinga. Þeir dúkka allstaðar upp í umræðum á netinu og halda uppi öflugum hræðsluáróðri gegn öllum hugmyndum um innköllun kvóta. Til aðstoðar hafa svo þessir kvótakettlingar, her launaðra aðstoðarmanna, svokallaða 5. herdeild, til að tala sínu máli á síðum blaða , í útvarpi og á ráðstefnum innanlands og utan. 5. herdeildin er sundurleitur hópur. Þar er að finna hagfræðinga, lögfræðinga, stjórnmálamenn sveitarstjóra, bæjarstjóra, verkalýðsrekendur, sjómenn og húsmæður. Flestir á launum en alls ekki allir. En hættulegastir eru fiskifræðingarnir sem keyptir voru til að verja þjófnaðinn á fiskveiðiauðlindinni á sínum tíma. Þeir voru flæktir í net blekkinga svo núna snýst þeirra afstaða um að verja heiður sinn sem vísindamanna sem vilja láta taka sig alvarlega.. Það er sennilega mest þeim að þakka að þessi lögverndaði þjófnaður gat átt sér stað og staðist allar atlögur í svona langan tíma. Á 20 árum er búið að heilaþvo stærstan hluta þjóðarinnar. Síendurtekinn áróður virkar þótt rangur sé. það er bara staðreynd.
Nú skal segja þessum ræningjum stríð á hendur. Rangt er rangt og löngu kominn tími til að hætta þessu rugli. Afnemum kvótakerfið og komum á skynsamlegri og sjálfbærri sóknarstýringu. Hættum að falsa bókhald útgerðanna með ímynduðum verðmætum. Veiðum fyrst og vinnum aflann áður en við færum andvirðið til bókar.
Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2011 | 07:21
Össur vill en þjóðin ræður
Þótt icesave frumvarpið verði samþykkt af Alþingi í lok næstu viku þá er ekki þar með sagt að það verði nokkurn tíma að lögum. Þjóðin vill hafa með það að gera milliliðalaust og refjalaust. Óvíst er svo að þeir sem samþykktu icesave II og ætla líka að samþykkja icesave III verði nokkurn tíma kjörnir á þing aftur. Það er í raun merkilegt að við skulum enn vera að rífast um þessa ríkisábyrgð eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í fyrravetur. Ef hér væri virkt lýðræði eins og í Túnis og Egyptalandi, þá hefðum við flæmt ríkisstjórnina frá völdum í kjölfar þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sýnum nú aftur hug okkar í verki og kjósum gegn icesave. Málið er fullrætt og við þurfum ekki að bíða boðanna
![]() |
Ekki raunhæft mat Össurar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2011 | 05:35
Kjósum gegn Icesave
Ég skora á Alþingi að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Ég heiti jafnframt á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja því lagafrumvarpi staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi. Ég vil að þjóðin fái að úrskurða um þetta mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 22:48
Mikilvægar upplýsingar varðandi banka og sparisjóði
Eftirfarandi færsla er athugasemd Valgeirs Einars Ásbjörnssonar hér á þessum vef. Mér fannst þessi athugasemd eiga fullt erindi sem sjálfstæð færzla svo ég fékk leyfi höfundar til að birta hana hér. Takið sérstaklega eftir því sem höfundur segir um Byr og sparisjóðina
11.2.2011 | 22:07
Vafningur Arion banka með Haga
Móðurfélag Haga, 1998 ehf. skuldaði Kaupþingi 48 milljarða eftir bankahrunið. Með því að sameina 1998 ehf. og Kaupþing var hægt að afskrifa 35 milljarða af skuldum 1998 og þar með dótturfélagsins Haga. Þannig var farið að því og látið líta svo út að engar skuldir þyrfti að afskrifa vegna Haga. Öll munum við hversu mikil áherzla var lögð á það af hendi bankans að um engar afskriftir yrði að ræða fyrir Haga.
Núna er fléttan fullkomnuð. Búið að selja lífeyrissjóðum og bröskurum 34% hlut Arion banka í Högum. Og Jón Ásgeir og fjölskylda laus allra mála vegna 12 milljarða skulda 1998. Ekki slæmt það. En hinir nýju eigendur skyldu nú ekki treysta um of á hagkvæmni þessarar fjárfestingar. Högum hefur gengið vel í skjóli markaðsyfirráða en vörumerkið Bónus er laskað og viðbúið að viðskiptavinir leyti annað strax og tækifæri gefst. Það eru mikil mistök hjá yfirvöldum að leysa ekki Haga strax upp. Heimild til þess var nýlega samþykkt á Alþingi en Samkeppnisstofnun telur kannski meira brýnt að tryggja hagsmuni Pálma í Fons, heldur en standa vörð um hagsmuni íslenskra matvörukaupenda.
![]() |
Arion selur 34% í Högum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2011 kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landsbankinn rúinn trausti í Hofi. Síðastliðið fimmtudagskvöld þá hélt yfirstjórn Landsbankans opinn fund í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Tilefni fundarins var að efla traust manna á Landsbankanum eftir hrun og bar heitið Landsbankinn þinn. Fundurinn var vel sóttur af fólki úr hinum ýmsu áttum úr norðlensku þjóðlífi auk fjölda fjölmiðlamanna bæði blaðamanna og sjónvarpsmanna.Fundurinn var þessi hefðbundna kynning á störfum og væntingum bankans vegna þjóðfélagsástandsins og voru línuritin notuð til stuðnings. Eftir þessa kynningu á ágæti bankans þá var fólki boðið að koma með ábendingar og fyrirspurnir til yfirstjórnarinnar. Yfirstjórn bankans settist á stólaröð fyrir framan fólkið en einkunnarorð fundarins er : Hlustum, lærum, þjónum. Sem þau gerðu þau hlustuðu, lærðu kannski aðeins, og þjónuðu fólki síðan með kaffiveitingum eftir fundinn. Það var talsvert um þarfar ábendingar og fyrirspurnir og var ég einn af mörgum sem kom með þarfar ábendingar. Mínar ábendingar og fyrispurnir voru samt ekki að hefðbundnu gerðinni, en þær fjölluðu um reikniregluverkið Basel 2 og áhættugrunna þess aðallega Tier 1 ogTier 2 en þau málefni hafa stóru bankarnir ráðuneytin, FME, Seðlabankinn og þingmenn aldrei viljað nefna opinberlega. Basel II er staðall um bankaeftirlit og fjallar um eigið fé og áhættustýringu alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Basell 2 er stór partur af útreikning á cad-hlutfalli en ef það er ekki verið að nota réttan áhættugrunn þá er ekkert að marka eiginfjárhlutfall bankans.Hverjir falla undir þessar reglur? Viðskiptabankar,sparisjóðir,lánafyrirtæki,verðbréfafyrirtæki,fjárfestingarbankar,rekstrarfélög verðbréfasjóða.Einnig samstæður þar sem að móðurfyrirtæki er eitthvert þeirra fyrirtækja sem nefnt er hér að ofan??Vestia?? Það er engin lausn fyrir bankana að endurmeta eignir innan dótturfélaga, eins og NBI gerir í gegnum Vestiu.Árið 2008 þá áttu allar banka og verðbréfastofnanir að vera farnar að nota Basel 2. Eiginfjárhlutfall skv. nýju eiginfjárreglunum(Basel 2) er reiknað út frá skilgreindu eigin fé og reiknuðum áhættugrunni. Að vísu höfðu KB, Landsbankinn og Glitnir byrjað 2003 En það var betra fyrir þá að nota Basel 2 en að nota Basel 1 eins og sparisjóðirnir gerðu, þar til 2008. Áhættugrunnarnir eru þrír en það eru; Tier 1 (innramatsaðferðin) innheldur hlutafé, yfirverðsreikning hlutafjár, óráðstafað eigið fé og víkjandi skuldabréf. Eiginfjárhlutfall í Tier 1 á að vera yfir 14%.(Tier 1 er notaður af fjárfestingabönkum).(Arion, Íslandsbanki og Landsbankinn(NBI) nota Tier 1 þótt þeir eigi að vera viðskiptabankar)Tier 2 (staðalaðferðin)inniheldur endurmat, víkjandi lán, breytanleg skuldabréf og almennan afskriftareikning. Eiginfjárhlutfall í Tier 2 á að vera yfir 8%.(Tier 2 er notaður af almennum útlánabönkum þ.e.a.s. viðskiptabönkum) (Byr og hinir sparisjóðirnir nota Tier 2)Tier 3 inniheldur víkjandi lán til skamms tíma. Bankar eins og Hraðpeningar (sms 10-40þúsund)nota Tier 3 en þá geta þeir fengið víkjandi lán til skamms tíma frá Seðlabanka.Það er líka bannað að blanda þessum áhættugrunum saman. En það hefur þvælst mjög mikið fyrir núverandi stjórnvöldum og AGS. En það er ekkert að marka cad- hlutfallstóru bankanna miðað við hvernig þeir eru stöðugt að brjóta á sér. Ef við kryfjum aðeins Tier 1 og Tier 2 frekar þá sést það að núverandi rekstur Arion, Íslandsbanka og NBI er hreinlega ekki að ganga upp.Tier 1 er innramatsaðferð og tekur meira mið af eigin áhættu og er ekki jafn háð eftirliti FME Tier 2 staðalaðferð. Tier 1 inniheldur hlutafé og yfirverðsreikning hlutafjár. Þ.e. hlutafé sem bankinn á í öðrum félögum á opnum markaði (félög í kauphöll) vegna þess að banki sem notar Tier 1 getur ekki endurmetið hlutafé þar sem endurmat og innramat eiga enga samleið og endurmat tilheyrir ekki Tier 1. Hlutafé miðast við gengið 1 en yfirverðsreikningur hlutafjár er allt fyrir ofan það. En ég spyr hvar er virkur hlutabréfamarkaður á landinu í dag ??$? Tier 1 inniheldur líka víkjandi skuldabréf sem að banki getur gefið út með samþykki eftirlitsaðila en víkjandi skuldabréf eru seld út til að auka eiginfé bankans, en ég spyr hver verslar með víkjandi skuldabréf í íslenskum banka í dag nema bara upp á söfnunargildi því að víkjandi skuldabréf eru mjög aftarlega á kröfulista fari bankinn í þrot. Ég líka stórlega efast um eiginfjárstöðu stóru bankanna þar sem þeir eru að endurmeta eignir og vexti sem þeir meiga ekki gera, þeir eru að telja sér upp gengishagnað vegna ólöglegra lána og þeir eru ýmist að fá víkjandi lán sem þeir mega ekki því þeir eru að nota Tier 1 eða ríkisábyrgð á víkjandi skuldabréf Halló og að þeir geti ekki sýnt fram á meiri afskriftareikninga þrátt fyrir að hafa fengið tæknilega afskriftir úr gömlu þrotabúunum. Endurmat er einungis ætluð bönkum sem nota Tier 2. Bankar sem nota Tier 1 verða að hafa það til hliðsjónar að þeir geti hvorki endurmetið vexti á lán né yfirtekið félög og breytt skuldum þess í hlutafé, því það að breyta skuldum yfir í hlutafé er ekkert annað en endurmat á hlutafé og þar að auki getur Tier 1 banki ekki endurmetið vexti á lán hvort sem um er að ræða ólögleg eða lögleg og þess vegna verður Tier 1 banki að halda sig við upphaflega vexti. Það er til skammar að stærstu bankarnir hafa hagnast um yfir 33 milljarða á yfirteknum félögum. En stóru bankarnir hafa hagnast ómælt á gengistengdum lánum og yfirtekið félög með ólögleg lán án þess að keyra þau í þrot og FME gerir ekki neit meðan kröfuhafar kvarta ekki. Það er líka stórundarlegt hvernig stóru bankarnir byggja upp sitt eigin fé og en undarlegra hvernig þeir sýna fram á hagnað. Þeir telja upp hlutafé í sjálfum sér (en eiga það ekki sjálfir heldur eru eigendur bankanna með það bókað sem eign hjá sér en það er ekki æskilegt að tvíbóka svona hluti) og yfirverð þess hlutafé og endurmeta það auk þess í leiðinni, en því meta þeir þá gengið í sjálfum sér ekki það hátt að kröfuhafar fengu allt sitt og vandamál þjóðarinnar leyst ef þetta er svona einfalt, hvernig getur fjárfestingarbanki (Tier 1) banki fengið víkjandi lán til að byggja upp eiginfjárhlutfall sitt, en þau á einungis að nota til þrautvara fyrir viðskiptabanka (Tier2)eða(Tier3). Hvernig geta stóru bankarnir fengið auk víkjandi lána, ríkisábyrgð á víkjandi skuldabréfum sem þeir ætla sér að gefa út vitandi það að afskriftareikningar þeirra standa engan vegin undir afskriftaþörfinni miðað við núverandi þjóðfélagsástand, auk þess stór efa ég að þeir liggi á stórum varasjóðum því að jafnvel þótt stóru bankarnir fengu meira greitt fyrir lánin sem fóru frá gömlu yfir í nýju bankanna, þá flokkaðist það bara sem áætluð afskrift og allt um fram þá afskrift fer yfir til gömlu þrotabúanna, svo að óráðstafað eigin fé eða varasjóður eins og það kallast er ekki heldur til staðar. Auk þess endurmeta stóru bankarnir eignir óspart með ólöglegum hætti auk þess að sýna fram á gengishagnað vegna ólöglegra lána og hagnaðar vegna endurskipulags á félögum sem tóku þessi ólöglegu lán. Það er engin rekstargrundvöllur fyrir stóru bankana að nota Tier 1 í dag og ef að stóru bankarnir ætluðu að nota Tier 2 eins og sparisjóðirnir þá færu stóru bankarnir lóðrétt á höfuðið vegna þess að stóru bankarnir notuðu Tier 1 fyrir hrun það er á meðan megnið af þeirra útlánum áttu sér stað og gætu þess vegna ekki notast við endurmat á þau lán. Stóru bankarnir hafa ekkert erindi inn á þennan markað og því hefði frekar átt að styðja við sparisjóðina og stofna nýjan ríkisbanka og láta alla banka nota Tier2, þá hefðum við traust annara þjóða eins og þjóðverja og gætum hent AGS úr landi. Það geta allir bankar notað Tier 1 eða Tier 2 þetta hefur minnst með það að gera hvort þeir séu sjálfir hlutafélög þar sem áhættan bitnar þá helst á eigin fé eigandanna.Tier 2 er staðalaðferð og er ætluð fyrir viðskiptabanka (almennan inn og útlánabanka) það er að FME fylgist meira með því hvað fram fer innan bankans og fer auk þess yfir liði eins og endurmat sem bankinn þarf stundum að nota. Tier 2 inniheldur endurmat þá er hægt að endurmeta vexti á lán og hlutafé í eigu bankanna t.d. þegar bankar neyðast til að taka yfir hlutafélög með því að breyta skuldum yfir í hlutafé þ.e.a.s. bankar endurmeta hlutafé en endurmat er síðan yfirfarið af FME. Sparisjóðirnir eru að nota Tier 2 Bankastofnanir sem nota Tier 2 eiga rétt á víkjandi lánum en ekki banki sem notar Tier 1 þess vegna er það mjög undarlegt að stóru bankarnir hafi fengið víkjandi lán þegar þeir þurfa á að halda en ekki sparisjóðirnir þótt sparisjóðirnir hafi mun stærri afskriftareikninga en stóru bankarinir. Tap Byrs upp á 29 milljarða 2008 var aðallega bara bókfært, en þar inni er um 26 milljarðar vegna afskrifta reikning en bara 500 milljónir af því endanlega tapað. Víkjandi lán og breytileg skuldabréf eru notuð til að banki geti aflað sér fé til þess að uppfylla eigin fjárskilyrði líkt og þegar banki sem notar Tier 1 notar víkjandi skuldabréf. Breytileg skuldabréf eru gefin út af bankastofnuninni með samþykki eftirlitsaðilla og Seðlabanka og breytast í hlutafé eða stofnfé til þeirra sem að keyptu breytilegu skuldabréfin af bankanum það er nái bankinn ekki að greiða af bréfinu í hlutfalli við það sem upp á vantar. Tier 2 inniheldur almennan afskriftareikning en hann inniheldur áætlað tap en ekki endilega endanlegt, þess vegna er uppgjör Byrs 2008 að miklu leiti byggt upp á áætluðu tapi fram í tíman en ekki endanlegu og þess vegna segi ég að ef að stóru bankarnir væru ekki að brjóta svona mikið af sér þá þyrftu sparisjóðirnir ekki svona mikla afskriftareikninga þ.e.a.s sparisjóðirnir væru ekki gjaldþrota. Ef þið lesið ársskýrslu Byrs 2008 þá sjáið þið að aðeins lítið brot af tapi Byrs telst endanlega tapað. Í raun þá þurfa Tier 1 bankar að hafa afskriftareikning en hann er bara upp á 1.25 % útlána hjá Tier 1 bönkum á meðan Tier 2 bankar eru kannski með jafnvel tugi prósenta inn á afskriftareikningi. Það er ekki heil brú í því hvað stóru bankarnir setji lítið í afskriftareikning þrátt fyrir afskriftir og efnhagsástand en þeir ættu frekar að geta afskrifað ef að þeir hafa fengið svona miklar afskiftir, líkt og stórmarkaðir sem fá magnafslátt. Það er líka mjög vitlaust að Seðlabankinn komi ekki til móts við sparisjóðina með þrautavaralánum. Afskriftareikningar fylgja efnahagsástandi og er alls ekki endanlegt tap og það er heldur ekkert víst að sparisjóðirnir þurfi að nota nema brot af honum og hann komi inn sem hagnaður þegar betur árar og því er stuðst við víkjandi þrautavaralán á meðan, en ég spyr hvað var samráðshópurinn að hugsa, afhverju fengu sparisjóðirnir ekki þrautavaralán. Hvern ætla menn að fá til að lána eða kaupa í íslenskum viðkiptabanka (Tier2) ef hann er yfirtekinn í hvert sinn sem fylla þarf á afskriftareikninginn.Væri ekki nær að stóru bankarnir notuðu Tier 2 eins og efnhagsástandið gefur til kynna, jú maður myndi ætla það en í raun hafa þeir hvorki burði í Tier 1 né Tier 2 þar sem að þeir hafa ekki bolmagn til að standast kröfur Tier 2 og að útlán þeirra fyrir hrun miðuðu öll við Tier 1 og því geta stóru bankarnir heldur ekki endurmetið vexti á útlán frá þeim tíma. Það vantar t.d. örugglega ekki minna en 200 milljarða í NBI svo hann nái 8% innan Tier 2 miðað við að hafa lánað útlán fyrir hrun sem Tier 1 banki. Arion ,NBI og Íslandsbanka verður ekki hægt að bjarga sama hvor leiðin yrði farið. Þess vegna mun ég skora á stjórnvöld að skila sparisjóðunum til fyrri eiganda og gefa þeim færi á málaferlum og reisa síðan nýjan ríkisbanka á nýjum grunni sem uppfyllir Tier 2 Það mátti heyra títtiprjón detta þegar ég benti yfirstjórn Landsbankans á að þau væru að nota rangan áhættugrunn, enda átti ég ekki von á því að þau myndu reyna að svara svona óþægilegum rökum. Jafnvel þau yfirmanneskja áhættustýringar væri á meðal þeirra. Það komu ekki einu sinni andmæli frá þeim. Auk þess benti ég Hjördísi Vilhjálmsdóttur á það að endurreisn stóru bankanna kostaði Byr sparissjóð yfir 65 milljarða en Hjördís var aðstoðarmanneskja Steingríms J Sigfússonar fjármálaráðherra á þeim tíma sem að Byr var yfirtekinn þrátt fyrir að hún hafi sagts hafa verið hætt á fundinum þá man ég eftir því að hafa hringt í fjármálaráðuneytið og rætt við hana morguninn eftir að Byr var yfirtekinn. Hjördís sem sagt laug að fólkinu í salnum. Ég hafði bent Steinþóri Pálssyni bankastjóra á það á fundinum að Byr væri með þrisvar sinnum meiri afskriftareikninga en Landsbankinn en samt er Landsbankinn fimm til sex sinnum stærri. Steinþór svaraði mér með því að hann vissi ekkert um reksturinn á Byr. En eftirá að hyggja þá hefði ég átt að benda honum á á fundinum að það væri undarlegt að menntaður maður eins og hann sem væri búinn að gefa það út í viðskiptablaðinu 30 september 2010 að hann vildi að Byr og Landsbankinn myndu sameinast, en auk þess þá er stjórn Landsbankans búin að eiga viðræður við slitastjórn Byrs um að Landsbankinn tæki yfir Byr hf. Þess vegna stórlega efast ég um hæfni hans sem bankastjóra ef hann annað hvort veit ekkert um félög sem Landsbankinn vill sameinast eða það að hann ljúgi um vitneskju sína fyrir framan fullan sal á opnum fundi, og yfirstjórnin sat bara eins og ég veit ekki hvað alveg út á þekju.Ég vill líka benda á það að N4 var á staðnum með 3 stórar mynbandsupptökuvélar en ég tel að Landsbankinn hafi ætlað sér að sýna allan fundinn ef hann hefði heppnast vel en staðreyndin var sú að þó að Landsbankinn hafi ekki átt kvöldið að þá áttu þeir upptökurnar. Þetta er eitthvað svo siðferðilega rangt vegna þess að það var ekkert sýnt af umræðu fundarins heldur eingöngu viðtöl við yfirmenn bankans. Ef að stóru bankarnir þola ekki að hafa Basel 2 þ.e.a.s. leikreglurnar upp á yfirborðinu þá eru þeir ekki traustsins virði. Auk þess er brjálæði að ríkisstjórnin skrifi undir Icesave á meðan Landsbankinn notar rangan áhættugrunn.