Fórnarlambsvæðingin

Það er ekki að spyrja að Íslendingum.  Eitt vanhugsað orð og vælubíllinn spólar af stað. En yfir hverju er verið að væla? Skammast fólk sín virkilega fyrir að eiga börn með Downs heilkenni?  Við vitum að þeir sem láta eyða fóstrum með þennan genagalla skammast sín en hinir eiga að vera stoltir. Einstaklingur með Downs er með sín persónueinkenni eins og allir aðrir og það er persónuleikinn sem ræður en ekki einhver greindarvísitala. 

Ég ólst upp með móðurbróður sem var ekki bara korter í Downs, hann var rúmlega Downs. Og þegar ég lít til baka þá er ég þakklátur þeirri reynslu. Björn Líndal frændi minn, Bassi, var sérstakur maður , mjög trúaður og gat tekið reiðiköst ef honum líkaði ekki eitthvað í útvarpinu sínu sem hann hafði á sér alla daga.  Öðrum stundum var hann blíður sem lamb. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Bassi messaði yfir kúnum úti í fjósi , klæddur skrautlegu rúmteppi sem prestskikkju , haldandi á útvarpinu sínu undir hökunni og tónandi í takt við prestinn í útvarpinu.  Ég minnist þess líka, að séra Bjarni Jónsson víxlubiskup, var í sérstöku uppáhaldi hjá honum en sveitapresturinn sem þá var séra Jón Bjarman, átti ekki uppá pallborðið.  Gekk það svo langt, að Bassi tók til sinna eigin ráða einn sunnudag, þegar messað var í Svalbarðskirkju. Án þess að við vissum, læddist hann niður í kirkju með hvellhettubyssuna sína og "skaut" prestinn í miðri guðsþjónustu. Auðvitað varð engum meint af en Bassi var bannfærður í kjölfarið og passað að hann gerði þetta ekki aftur.  Seinna átti hann eftir að heimsækja mig vestur til Ísafjarðar þar sem ég fór með honum í kirkju hjá presti sem hann kunni vel að meta.

Svo mín ráðlegging til forráðamanna þroskaheftra er að láta umræðuna ekki setja sig úr jafnvægi. Þið eruð ekki fórnarlömb. Þið eruð sigurvegarar lítilmennskunnar. Þið þorðuð á meðan aðrir völdu auðveldari leiðir. Ef einhverjir eru með fordóma gagnvart fólki með downs , þá stafar það af þekkingarleysi og hver er þá meiri heimskinginn?  Ég myndi til dæmis aldrei kalla Sigurjón Kjartansson þroskaheftan af virðingu fyrir þroskaheftum.


mbl.is Biðst afsökunar á orðfæri í Ófærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arnarlax vill Þ-H leið og sendir fótgöngulið

Arnarlax er orðinn risi í atvinnulífi Vestfjarða. Undir hótunum um uppsagnir og samdrátt í rekstri hafa þeir náð ótrúlegum völdum. Og allt gerðist þetta fyrir opnum tjöldum þegar Einari Guðfinnssyni var mútað til að gerast opinber lobbyisti fiskeldis á Vestfjörðum. Því ráðning hans var þaulskipulögð að hætti útrásardólga. Enda einn aðaleigandi Arnarlax, Einar nokkur Ólafsson, fyrrum starfsmaður Glitnisbanka og gripdeildarmaður sama þrotabús.  Einar þekkti formúluna hans Jóns Ásgeirs, sem fólst í því að kaupa sér áhrif í gegnum pólitík og með Bjarna Benediktsson að vini var auðvelt að fá Einar Guðfinnsson til fylgis og enn auðveldara að ná til ráðherra sjávarútvegsmála, sem fer með málefni fiskeldis.  Og eftir velheppnaðan snúning á þinginu síðasta haust, þar sem ráðherranum var beitt til að afturkalla rekstrarstöðvun, þá vita forsvarsmenn Arnarlax að þeir geta gert næstum hvað sem er og komist upp með það.

Með atvinnukúgun að vopni láta þeir sveitastjórnir og héraðsfréttamiðla þrýsta á almenning og sveigja almenningsálit sér í hag og nú er komið að samgöngum. Arnarlax hefur mestra hagsmuna að gæta þegar kemur að lagningu Vestfjarðarvegar og svokallaðrar Þ-H leiðar.  Þeir eru með vaxandi flota þyngstu trukka, sem keyra þessa leið sex sinnum á dag og þeim ferðum mun fjölga.  Það er Arnarlax sem heldur uppi taugastríðinu gegn sveitastjórn Reykhóla. Þ-H leiðin er 15 km styttri en R leiðin og það þýðir að lágmarki 6 þúsund kílómetra minni akstur á ári fyrir þetta fyrirtæki. Þeim er andskotans sama um hagsmuni skólabarna á Reykhólum og nærsveitum. Þeim er líka skítsama um öryggi þeirra sem þurfa að aka verri vegi svo fremi að þeir geti sparað nokkrar milljónir.

Um þetta snýst málið. Moldviðrið sem Vegagerðin og aðrir hagsmunaaðilar á svæðinu hafa þyrlað upp er til að fela þennan raunverulega tilgang.  Vonandi stendur sveitastjórn í ístaðinu þegar kemur að ákvörðun um hvorn kostinn eigi að taka. Þ-H leið Arnarlax eða R-Leið öryggis íbúa og náttúrufriðunar á svæðinu.


mbl.is Mótmæla R-leiðinni um Reykhólahrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband