Fósturdráp Svandísar

Þungunarrof er nýyrði til að breiða yfir það sem raunverulega felst í fóstureyðingu.
Vísan er óundirbúin fyrirspurn til Svandísar Svavarsdóttur í tilefni af þungunarrofsfrumvarpinu hennar

Hvers vegna mega hér mæðurnar deyða
"meinvörp" sem eru ekki fædd?
Heilbrigðisráðherra gerði mér greiða
ef gengist við drápunum alveg óhrædd.


Þar sem mávarnir skíta

Kristján Þór Júlíusson keppist nú við, að klára skítverkin, sem flokkurinn faldi honum.  Greinilegt er, að ráðherrann telur að farið sé að styttast í veru hans á ráðherrastóli, því hann afrekaði tvennt í sömu vikunni. Í fyrsta lagi að breyta reglugerð fyrir Kristján Loftsson og svo í öðru lagi að láta að vilja kaupmannaklíkunnar í flokknum og leyfa innflutning á ferskum kjötvörum frá Evrópusambandinu.

En Kristján Þór er ráðherra, sem skilur ekki alveg vald sitt. Hann heldur að sérhagsmunir eigi að ráða, þegar almannahagsmunir krefjast þess, að stjórnvöld taki af skarið. Þess vegna er svar hans að skipa samráðshópa hagsmunaaðila. Hagsmunaaðila sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta.  Ekki hagsmunaaðila sem eru að tala fyrir matvælaöryggi eða lýðheilsu eða umhverfisvernd.

Þess vegna finnst Kristjáni algert aukaatriði hvort hvalskurður fari fram í lokuðu rými eða undir opnum himni, þar sem mávarnir skíta í nýskorin hvalrengin í kappi við hvalskurðarmennina, sem eru að koma kjötinu í skjól. Kristján Loftsson vill gera hlutina með sínum hætti. Að vísu hefur hann kvartað undan ágengni fólks sem kemur í Hvalfjörðinn til að fylgjast með starfsstöðinni þar.  En hann vill ekki byggja yfir planið heldur vill hann reka forvitið fólk langt útfyrir sitt umráðasvæði.  Slík er frekjan í þessum fyrrum máttarstólpa þjóðfélagsins. Því það var hann svo sannarlega.  En því miður fyrir Kristján Loftsson, þá breyttist þjóðfélagið.  Nú eru hvalveiðar á svörtum lista umhverfissinna og aðeins tímaspursmál hvenær Ísland bannar þær alfarið.

Varðandi hina umdeildu ákvörðun ráðherrans um að leyfa innflutning á ferskum afurðum þá finnst mér rök vísindamanna vega þyngra en buddan í þessu máli og hefði kosið að ráðherrann hefði dregið lappirnar eins og hann gerði allan tímann sem hann var heilbrigðisráðherra.


Bjarni skrifar bréf

Bréf fjármálaráðherra til Bankasýslunnar var óvænt útspil. En algerlega tilgangslaust á þessum tímapunkti málsins. Efni bréfsins varða ákvarðanir bankaráða ríkisbankanna, sem teknar voru fyrir meira en ári síðan og hafa verið á allra vitorði síðan. Það sem við vissum hins vegar ekki var, að Benedikt Jóhannessen frændi Bjarna, hafði sýnt þann manndóm og kjark, að senda tilmæli til undirstofnana ráðuneytisins, sem hann stýrði á þeim tíma og farið fram á, að menn stilltu sig í græðginni.  Á það var ekki hlustað, hvorki af stjórnum bankanna eða á fundum djúpríkisins.  Þegar Benedikt svo upplýsir um þetta bréf sem Bjarni er búinn að vita af allan tímann, þá sjá pr ráðgjafar Sjálfstæðisflokksins að þetta lítur ekkert sérstaklega vel út fyrir Bjarna og ríkisstjórnina. Það er þá sem hugmyndin að bréfinu til Bankasýslunnar fæðist.

Bréfið er ómerkilegt PR stunt. Og alls ekki til þess fallið að koma á samtali við verkalýðsforystuna.  Ekki frekar en viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna gagnrýni á Kjararáð. Það er alveg sama hve oft Katrín Jakobsdóttir endur tekur þvæluna sína um að;

stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hjá hinu opinbera, til dæmis með því að leggja niður kjararáð. Tryggja þurfi að launaákvarðanir stjórnenda hjá hinu opinbera séu teknar með gegnsæjum og fyrirsjáanlegum hætti.

Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hins opinbera til lækkunar á óábyrgum úrskurðum Kjararáðs, sem voru líka í andstöðu við heimildir Kjararáðs í lögum?  Þessa möntru sína endurtekur Katrín trekk í trekk og aldrei gera fjölmiðlamenn athugasemdir. Hverju breytir að leggja Kjararáð niður ef ekki er meiningin að endurskoða ákvarðanir þess?

Úrskurðir Kjararáðs voru birtir í samráði við Bjarna Ben. Bæði efni þeirra og tímasetning birtinga. Formaðurinn er sérstakur vinur fjármálaráðherra og auðvitað ræddi Jónas við Bjarna um þessa úrskurði. En hvers vegna er ekki hægt að birta fundargerðir Kjararáðs?  Er þar eitthvað sem almenningur má ekki vita um....

Launaruðningur hins opinbera kallar á að hér verði settur á 80% hátekjuskattur á laun yfir 2 milljónir. Einnig verði sett í lög að laun á vinnumarkaði megi aðeins hækka um sömu krónutölu og semst um til hækkunar á lægsta mögulega taxta.

Ójöfnuðinn sem felst í prósentuhækkunum verður að stoppa með lögum. Það er ekki hægt öðruvísi. Kannski að Bjarni skrifi nýtt bréf og stíli það á forseta ASÍ, þar sem hann felst á kröfur Verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á skattaumhverfinu.  Það er bréfið sem beðið er eftir.  Hitt bréfið hefði alveg mátt týnast í póstinum enda þarf hann ekkert að senda djúpríkinu opinber bréf. Þeir eru alltaf að hittast hvort sem er.


Bloggfærslur 1. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband