Stjórnlagaþing I

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er lítið plagg. Hún kemst fyrir á 4 A4 blaðsíðum.  Það er gott. Stjórnarskráin á að vera stuttorð og gagnorð, auðlesin og auðskiljanleg, sem þessi er aftur á móti ekki. Þess vegna er nú komið að því verkefni að þjóðin smíði sína fyrstu eigin stjórnarskrá, sem tekur mið af stjórnskipun og réttindum þegnanna eins og þegnarnir vilja hafa hana, ekki eins og embættismanna og stjórnmálaklíkan á íslandi vill hafa hana. Því er brýnt að vanda vel valið á fulltrúum á stjórnlagaþing.

Ég ætla ekki að bjóða mig fram. Hins vegar hef ég skoðanir sem ég mun setja upp á skýran hátt og senda væntanlegum þingfulltrúum þegar þar að kemur. Ennfremur er öllum frjálst að nýta sér mínar hugmyndir. Þessi blogg pistill er sá fyrsti í röð nokkurra um uppkast að nýrri stjórnarskrá.

Núgildandi stjórnarskrá skiptist í 7 kafla.

1. kaflinn,  fjallar um stjórnskipunina
2. kaflinn,  fjallar um forseta lýðveldisins, kjörgengi, kosningu, starfsskyldur og kjörtíma.
3. kaflinn,  fjallar um kjördæmaskipun, kjörgengi og kosningar
4. kaflinn,  fjallar um Alþingi
5. kaflinn,  fjallar um skipan dómsstóla
6. kaflinn,  fjallar um ríkiskirkjuna
7. kaflinn,  fjallar um mannréttindi þegnanna

Þetta er stjórnarskráin eins og hún kom frá Kristjáni X. Danakonungi, með síðari tíma breytingum
Þetta er ekki góð stjórnarskrá. Og þeir sem hana lesa sjá að stjórnvöld fara ekki eftir henni í veigamiklum atriðum. Samt segja stjórnmálamenn að engu þurfi að breyta og standa gegn nauðsynlegum endurbótum. Nýjasta dæmið um ófullkomleika stjórnarskrárinnar birtist okkur í lok sumarþings þegar tekist var á um ráðherraábyrgðina og Landsdóminn. 

Í lögum um stjórnlagaþing eru viðfangsefnin tiltekin:

  1. Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
  2. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
  3. Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
  4. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
  5. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
  6. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnskipunarlaga.
  7. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
  8. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti ef það kýs svo.

Þetta er ágætt, nema það síðasta. Ég tel þvert á móti að forðast beri eins og heitan eldinn að setja inn í stjórnarskrána slagorð og innihaldslausa frasa um þjóðareign á auðlindum, sjálfbæra nýtingu eða herlaust Ísland. Ég tel að stjórnarskráin eigi aðeins að fjalla um stjórnskipunina og réttindi og skyldur þegnanna. Allt annað mun aðeins vekja upp úlfúð og deilur. Það verður að tryggja yfirráð þegnanna yfir auðlindunum með öðrum hætti. Það má ekki drekkja skilgreiningum í einhverri lagatæknilegri þvælu. Í fiskveiðilögunum stendur að fiskurinn sé eign þjóðarinnar. Það er nógu skýrt fyrir alla skynsama menn. Eyðum þessari lagatækni þvælu úr þjóðmálaumræðunni í eitt skipti fyrir öll.

Í næstu pistlum mun ég svo fjalla um endurskoðun á stjórnskipuninni. Endurskoðun á hlutverki forsetans. Endurskoðun á dómstólum, alþingi, kjördæmaskipun, kosningum til Alþingis, aðskilnað ríkis og kirkju, mannréttindi og þegnréttindi, ráðherra ábyrgð og landsdóm, landráð og framsal valds. Og síðast en ekki síst lýðræðisumbæturnar. Það má ýmislegt betur fara að mínu mati

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband