Hin nýja ofurlaunastétt

Lögfræðingar maka nú krókinn sem aldrei fyrr. Þeir ganga sjálfala í rústum hrunsins og eru ósnertanlegir. Þessir menn sem ásamt endurskoðendum,  báru höfuðábyrgð á að klæða svikagerningana í lagalegan búning. Þeir hinir sömu hagnast mest á hruninu.  Í kjölfar hrunsins átti Alþingi að hafa  það sem  forgangsverkefni að stoppa upp í  smugur sem lagatæknar nota til að snuða samfélagið. Þar ber hæst einkahlutafélagsformið þar sem mönnum er leyft að stofna félög í kringum sjálfan sig og komast þar með hjá að greiða almennan skatt af sínum launum. Það er enginn lögfræðingur svo aumur í dag að hann eigi ekki eitt eða fleiri félög til að svíkja undan skatti með. Og þótt svíðingunum sjálfum sé farið að blöskra og reyna nú að fela eigin ósóma með kennitöluflakki og nýjum nöfnum þá vitum við hver þeir eru. Lögfræðistofan Lex var mjög stórtæk í að búa til aflandsfélög fyrir bankana í þeirra svikamillum. Þeir létu meira að segja búa til sérstakt tölvuforrit til að stofna reikninga og flytja fé á milli reikninga. Lex tengist alþingismönnunum Bjarna Ben og Sigurði Kára og fyrrverandi alþingismanninum Sturlu Böðvarssyni. Fyrrum eigendur Lex eru nú að slíta öll tengsl við þetta auma fyrirtæki en enginn flýr sína fortíð á tölvuöld.  Þetta er samt skýringin á viljaleysi þingsins til að breyta hér nokkru. Nepótisminn heldur hér öllu þjóðfélaginu í heljargreipum og núverandi Alþingismenn eru óhæfir til að taka á þeim raunverulega vanda sem þjóðfélagið er í.

Í nýlegu viðtali við Skúla Eggert Þórðarson vekur hann athygli á heimild yfirvalda til að slíta félögum sem ekki uppfylla lagaskyldur um skil á ársreikningum. Ef þessari heimild ráðherra væri beitt þá myndu eigendur þessara félaga verða persónulega ábyrgir fyrir rekstri þessara félaga, og þar með skuldum . Hvers vegna er þessari heimild ekki beitt?  Hvers lags spilling og yfirhylming er í gangi? Afhverju fá sumir að sleppa við skuldir en ekki aðrir?

Eitt af því sem bíður Alþingis er að endurskoða lög um einkahlutafélög. það eru ekki almannahagsmunir að leyfa mönnum að svíkja undan skatti og fela fé og komast hjá því að greiða skuldir sínar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband