Stóri glæpurinn gegn þjóðinni

 

  • Ég skil vel reiði manna yfir afskriftum bankanna hjá útrásardólgunum og kvótagreifunum
  • Ég skil alveg reiði manna yfir stökkbreyttum höfuðstól lána
  • Ég skil líka vel reiði manna vegna atvinnumissis og skertrar þjónustu ríkisins

 EN ég skil ekki heigulshátt stjórnmálastéttarinnar að hafa ekki sinnu á að laga þetta sjúka þjóðfélag og koma hér á réttlátri skiptingu auðs og valda, réttlátri skiptingu tekna og gjalda og jöfnuði í atvinnu og aukinni velferð aldraðra og sjúkra. Það er þannig þjóðfélag sem við viljum skapa hér og getum svo auðveldlega skapað ef við nýtum þann auð sem við eigum og nýtum þá reiði sem hér ríkir til uppbyggingar en ekki eilífs niðurrifs. Við eigum ekki að eyða allri okkar orku í að hneykslast á Jóni Ásgeir eða Davíð eða ráðningunni á Árna Magnússyni eða hverju því daglega hneyksli sem pólitískir skítkastarar nota til að dreifa athygli almennings og beina athyglinni frá þeim sjálfum.  Afskriftir bankanna eru jafnmiklar reikningskúnstir núna eins og upphleypti efnahagsreikningurinn var hjá þeim áður. Það kemur okkur ekkert við.  Ef okkur mislíkar þá getum við bara hætt viðskiptum! Það þolir enginn banki. En þessar hræsnisfullu áróðursræður stjórnmálamanna eru innistæðulausar. Alveg á sama hátt og orðagjálfur verkalýðsforystunnar.

Almenningur þarf að opna augun fyrir því sem er að gerast og hefur verið að gerast. Hætta að trúa lygum sérfræðinga sem ganga erinda sérhagsmunanna. Við urðum fyrir áfalli en það var meira svona huglægt en efnislægt þótt sumir hafi reyndar misst eitthvað sem þeir aldrei áttu þá er það ekki nema gott. Það kemur mönnum niður á jörðina. Stóri glæpurinn sem verið er að fremja gegn okkur felst í kvótakerfinu og þeim hundruðum milljarða sem íslenskt þjóðarbú verður af árlega vegna þess. Þetta er ekki fullyrðing heldur staðreynd sem allir sem kunna prósentureikning geta reiknað út. Við þurfum ekki reikningskúnstir hagfræðinganna sem bjuggu til blöðruhagkerfið sem sprakk, með allskonar afleiðum og flóknum fjármálagerningum.  

Afskriftir Arionbanka hjá einum útrásardólg er jafnhá upphæð og sem nemur hallarekstri Ríkisins á þessu ári og sem nemur áætlaðri skuldalækkun allra sveitarfélaga á landinu næstu 10 árin. Við verðum að fara að setja þessar gígantísku upphæðir sem verið er að möndla með í samhengi sem við skiljum. Ekki rífast yfir 50 milljóna niðurskurði hér eða 10 milljóna hagræðingu þar.  Ríkið þurfti að taka til í rekstrinum. Um það þarf ekki að deila. En það þarf ekki og þurfti aldrei að bitna á almenningi.  Í stað þess að gerast hér ánauðugir þrælar erlendra lánadrottna þá áttum við ónotaða auðlind sem synti framhjá í sjónum. Það er stóri glæpurinn sem allir eru að hylma yfir

Því enn erum við að vannýta fiskimiðin. Við sem gætum hæglega aukið gjaldeyristekjur um 100 milljarða og samfara því aukið neyzlu innanlands og fjárfestingu í veiðum og vinnslu sem jafngilti 3-4 % í auknum hagvexti bara ef stjórnmálamenn þyrðu að afnema þetta sjúka kvótakerfi sem gerði Ólafi Ólafssyni kleyft að semja við Arion! Þetta væri svo einfalt ef þið hættuð að láta blekkja ykkur með auðlindarentu bulli hagfræðinganna. Ekkert helvítis auðlindagjaldskjaftæði. Bara miklu betri nýtingu á fiskimiðunum og svo eðlilegt hráefnisgjald á landaðan afla. Til dæmis 20% af söluverði. Alls ekki fasta krónutölu heldur % hlutfall, þannig að ef verð er hátt á mörkuðum þá hækki gjaldið. Þannig reiknað hráefnisgjald gæti skilað ríkissjóði tekjum uppá 60 milljarða á ári miðað við að verðmæti útflutts sjávarafla aukist bara um 30% þrátt fyrir 100 þúsund tonna meiri bolfiskafla. Við eigum allan þennan auð í hendi til að auka velsæld allra en þess í stað er haldið verndarhendi yfir fámennum hópi útgerðaaðila sem hafa sölsað undir sig 95% af veiðiheimildunum og hanga á þeim eins og grimmir rakkar á roði. Í hvert  sinn sem einhver hefur gert sig líklegan til að taka þetta úr kjafti þeirra hafa þeir urrað og gelt og orðið svó ógnandi að stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar lyppast niður og leggjast á bakið eins og huglausra hunda er siður í nálægð við þá hunda sem ráða hópnum.  Ég hef áður líkt Þorsteini Má, Samherjaforstjóra við hund og sveitastjórnamönnum og pólitíkusum sem rófunni á þessujm hundi. Allir sjá hversu þessi samlíking lýsir vel afleiðingum kvótaúthlutunarinnar. Kvótinn er roðið í kjafti hundsins sem við verðum að taka af honum. Hversu hættulegt sem það kann að reynast stjórnmálalega fyrir þessar skræfur sem nú sitja á þingi.

Þetta er stóri glæpurinn gagnvart þjóðinni. Ekki bankakreppan, eða gjaldeyriskreppan, Þær kreppur voru í raun blessun en ekki bölvun. Nauðsynlegar til að leiðrétta þjóðfélag græðginnar og auðsöfnunarinnar.  Það sem mér finnst sárast að horfa upp á er, að huglaus stjórnmálastétt skuli ekki sjá það eina rétta í stöðunni, til að leiðrétta þetta sjúka þjóðfélag. En það er að afnema kvótakerfið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur ertu Jóhannes!

Aðalsteinn Agnarsson, 15.10.2011 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband