Auðlindarentan og hlutaskiptakerfið

Nú er að renna upp fyrir mörgum sem starfa í sjávarútvegi hversu hættulegt það er að afhenda stjórnmálamönnum alræðisvald yfir heilli atvinnugrein.  Kvótakerfið er haftakerfi og felur í sér ógagnsæi, gífurlega sóun verðmæta, markaðsmisneitingu , lögbrot og alls konar spillingu.  Nákvæmlega á sama hátt og gjaldeyrishöftin og öll önnur haftakerfi sem pólitíkusar hafa smíðað.

Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á þessu alónýta kerfi eru ekki til bóta nema síður sé. Veiðigjöldin eru skattlagning en ekki gjald.  Og kvótakerfið er búið að ganga sér til húðar fyrir áratug eða svo.  Það gengur ekki að hefta aðgengi að veiðum og vinnslu eins og nú er gert.  Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir slíku og þaðan af síður hagræn rök.

Við þurfum nýja hugsun og nýja nálgun. Fiskurinn í sjónum er ekki auðlind.  Í mínum huga er auðlind fasti sem hægt er að mæla og minnkar sem nemur því sem tekið er af.  Námur eru auðlind og olíulindir eru líka auðlind. Fiskstofnar geta því ekki fallið undir þessa skilgreiningu.  Enda hafa veiðar alltaf fallið undir hlunnindi.  Allt frá fyrstu lagasetningu sem skilgreindi eignarrétt sjávarjarða á fiskveiðilögsögu, þá hefur löggjafinn litið á veiðirétt sem hlunnindi. Alveg á sama hátt og eggjatöku og dúntekju.  Síðar var sama regla yfirfærð á lax og silungsveiði. Þessi tilhögun er sanngjörn, einföld og brýtur ekki rétt á neinum.

Það gengur ekki að ríkisvæða heila atvinnugrein undir því yfirskyni að verið sé að tryggja þjóðinni sanngjarna rentu af auðlindinni.  Bara þessi 2 nýju hugtök, auðlind og renta, sem engir 2 skilja á sama veg, ætti að vera nægileg ástæða fyrir okkur til að staldra við og spyrja hvort verið sé að gera rétt.  Ég hef löngu svarað þeirri spurningu fyrir mig og svarið er nei. 

En auðvitað eiga útgerðarmenn að greiða fyrir þann fisk sem þeir veiða. En þetta gjald á ekki að vera í formi skatta eins og nú er búið að lögfesta. Þetta gjald á að vera hlutfall af því markaðsverði sem fæst fyrir aflann á þeim degi sem hann er seldur yfir borðstokkinn. Þetta gjald á einfaldlega að kalla sínu rétta nafni sem er hráefnisgjald.  Í gær var þorskur seldur á 278 kr/kg á mörkuðum.  Tekjur ríkisins af 25% hráefnisgjaldi hefðu getað orðið 2.7 milljónir af þessum 40 tonnum af óslægðum þorski. Tekjur sem hefðu runnið beint og milliliðalaust í ríkissjóð samdægurs.  Einfaldara og réttlátara gerist þetta ekki.  Engin inngrip í rekstur.  Engin flókin eftirálagning skatta og engin pólitísk afskipti af ráðstöfun þessara tekna.  Og þessi leið myndar engan nýtingarréttTakið eftir því.  Innköllun aflaheimilda og sala veiðileyfa getur hins vegar gert það og því hef ég alltaf verið á móti þeirri leið.

Með þessu móti eru heldur engin inngrip í hlutaskiptakerfi sjómanna.  Auðvitað fær útgerðin minna fyrir aflann en það er eðlilegt. Og auðvitað minnka tekjur sjómanna en það er líka eðlilegt.  Fiskverð og þar af leiðandi tekjur sjómanna og útgerða hefur hækkað óeðlilega mikið á undanförnum árum.  Ekki síst vegna hrunsins en líka vegna hins takmarkaða framboðs.  Sjómenn eiga ekki að taka þátt í útgerðarkostnaði.  En sjómenn eiga ekki heldur að stinga hluta af auðlindarentunni í eigin vasa eins og núverandi kerfi bíður uppá og styrinn á milli útgerðar og sjómanna stendur um.

Með því að taka upp svona hráefnisgjald er stigið mikilvægt skref til afnáms lénsgreifafyrirkomulagi kvótakerfisins. Og þjóðin fær sitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband