Algjört andvaraleysi og vanræksla á rannsóknarskyldu

Fyrir það fyrsta þá er Breiðafjörður friðaður með lögum frá 1995 ef ég man rétt. Þessi friðun nær til eyjanna en líka til strandlengjunnar fjörunnar og leiranna. Samt var ráðist í þverun Kolgrafarfjarðar árið 2004 án nokkurrar rannsóknar á umhverfisáhrifum þeirrar þverunar á lífríkið innan fyrirhugaðrar þrengingar. Hafrannsóknarstofnunin hafði umsagnarskyldu en sinnti henni ekki. Gerði engar rannsóknir og bar við að þær séu svo dýrar!  En hvað skyldi síldardauðinn kosta í beinhörðum gjaldeyri? þessi 60-70 þúsund sem hafa drepist og það magn sem Höfrungar og þorskur hefur étið úr þessari manngerðu síldargildru í Kolgrafarfirði?

Allt þetta má lesa í skýrslu um þverun fjarða sem Vegagerðin hefur tekið saman. Þar segir um þátt Hafró:

Við gerð þessa verkefnis var leitað til Hafrannsóknastofnunar um möguleg áhrif þverana á lífríki í sjó. Í svari frá stofnuninni í tölvupósti dags. 12. október 2011 kemur m.a. fram að Hafrannsóknastofnunin hafi umsagnarskyldu vegna framkvæmda í sjó og við strendur. Oft valdi erfiðleikum við gerð umsagna hve litlar rannsóknir s.s. straummælingar hafa verið gerðar. Einnig bendir stofnunin á að aðkoma Hafrannsóknastofnunarinnar að rannsóknum vegna þverunar hafi verið mjög takmörkuð. Að lokum vísar stofnunin til eigin svars við fyrirspurn á Alþingi frá árinu 2008 um það hvort breytingar á lífríki og botngróðri innfjarða hafi verið rannsakaðar eftir þverun fjarða vegna vegagerðar? Ef svo er, hverjar væru helstu niðurstöður þeirra rannsókna? Svar stofnunarinnar var eftirfarandi:
„Hafrannsóknstofnunin hefur ekki komið að rannsóknum eins og þeim sem hér er spurt um. Starfsmenn Líffræðistofnunar Háskóla Íslands hafa hins vegar töluvert unnið að rannsóknum á lífríki fjarða í tengslum við vegagerð. Oftast hafa rannsóknirnar farið fram sem lífríkiskönnun á undirbúningsstigi framkvæmda en aðeins í fáum tilfellum hafa verið gerðar samanburðarrannsóknir til þess að fylgjast með langtíma áhrifum framkvæmda á lífríkið. Í flestum tilfellum hafa þessar vegalagnir verið þannig að vegirnir hafa ekki haft áhrif á sjávarföll (langar brýr verið byggðar samfara vegalagningu) og því ekki talið að framkvæmdir séu líklegar til þess að hafa áhrif á lífríkið innan vegarstæðisins.
Vegurinn um Gilsfjörð er einn af fáum vegum hér á landi sem lagður hefur verið þvert yfir fjörð þannig að fallaskipti hafa verið hömluð og þar með minnka fjörusvæði ofan vegarins. Við vegalagninguna minnkaði fjörubeltið og þar með flatarmál leira í firðinum og einnig lækkaði selta ofan vegarins en þó hefur hún haldist nægjanlega há til þess að nauðsynlegum skilyrðum margra lífvera hefur ekki verið raskað. Nú lifa þessar tegundir hins vegar alfarið á kafi. Fjörufuglar hafa hætt fæðuöflun ofan vegar enda nánast engar fjörur þar lengur.
Aðrir firðir sem hafa verið þveraðir vegna vegagerðar eru Grafarvogur við Reykjavík, Borgarfjörður og ytri hluti Hraunsfjarðar og Kolgrafarfjörður á Vesturlandi, Dýrafjörður og Önundarfjörður á Norðvesturlandi, innsti hluti Eyjafjarðar og Lón í Kelduhverfi á Norðurlandi og Breiðdalsvík á Austurlandi. Vegirnir á þessum slóðum hafa ekki haft áhrif á sjávarföll og því er talið mjög ólíklegt að þeir hafi haft áhrif á lífríkið þó að það hafi ekki verið kannað."

 

Takið sérstaklega eftir þessu sem ég feitletraði. Þetta er sagt 2011. Þrátt fyrir að verkfræðistofan Mannvit hafi gert straummælingar og komist að því að vegurinn yfir Kolgrafarfjörð heftir sjóskipti og þarafleiðandi endurnýjast súrefni ekki.

Er þetta ekki makalaust þegar haft er í huga að þetta hefur verið vetrardvalarstaður síldar undanfarin ár!  Heitir ekki stofnunin Hafrannsóknarstofun?  Er þetta ekki einmitt það sem hún á að einbeita sér að?  En ekki heimskulegar stofnstærðarmælingar og uppsetning reiknilíkana sem eru bara til innanhússkemmtunar en eru ekki vísindaleg gögn.


mbl.is Enn drepst síld í Kolgrafafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Jóhannes

Þetta er auðvitað alveg borðliggjandi. Þverun fjarðarins er auðvitað hrein og bein gildra. Það er verst að aflanum skuli ekki vera ekið í vinnslu eða bræðslu samstundis. Það væri þá líka hægt að leggja síldveiðiflotanum á meðan og láta sjómennina hreinsa aflan úr fjörunni. Í alvöru sagt: Verður ekki að loka dauðagildrunni með rist eða neti a.m.s.k. þar til samið hefur verið við sjómenn um nýja vinnutilhögun?

Jónatan Karlsson, 3.2.2013 kl. 23:25

2 identicon

Bændurnir ættu að hreinsa aflann úr fjörunni. Síldin flokkast klárlega undir hlunnindi líkt og laxveiði, silungsveiði, hrognkelsaveiði, selveiði og reki.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 08:39

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Jónatan, ég held ekki að það sé góð hugmynd að loka gildrunni. Í fyrsta lagi má ekki varna þeim fiski sem er núna inni í gildrunni að komast út og í öðru lagi þá myndi öll svona lokun draga enn meir úr sjávarskiptum fyrir innan þverunina. Ég held að það verði að fjarlægja uppfyllinguna sem vegurinn er gerður úr og byggja síðan heila brú yfir fjörðinn ef vilji stendur til þess. En allt er þetta spurning um kostnað. 

Elín, eru menn ekki að keppast við að bjarga því sem hægt er núna?  En svo er það spurning um það sem liggur dautt á botninum. Þeir minnast ekkert á það þessir fræðingar. Sennilega er þetta umhverfisslys miklu stærra í sniðum en talað er um. En það er lenska að ljúga og halda upplýsingum frá almenningi. það er ekkert að breytast.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2013 kl. 12:13

4 identicon

Róbert Arnar Stefánsson líffræðingur minnist á dauða síld á botninum í fréttinni. Get engan veginn tekið undir það að maðurinn ljúgi eða haldi upplýsingum frá almenningi:

Róbert Arnar Stefánsson líffræðingur gekk um 2,5 kílómetra í fjörunni í gær. „Við mátum að þarna væru um sjö þúsund tonn í fjörunni. En svo sáum við að botninn var alveg hvítur og því má gera ráð fyrir að mun meira sé dautt en þessi sjö þúsund tonn.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 12:40

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hlustaði ekki á þessa frétt Elín.  Ég var að vísa til frétta af síldardauðanum í desember.  Þær voru vægast sagt misvísandi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2013 kl. 12:43

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þegar ég gagnrýni Hafró þá er ég að gagnrýna Forstjórann og stjórnina sem bera ábyrgð á því sem gert er og hvað er sett í forgang. Einstakir líffræðingar eru eflaust vammlausir og eru að gera sitt besta en þeim eru settar takmarkanir.  Gæti trúað að þeir séu beðnir að draga úr skaða frekar en að leggja raunhæft mat á umfangið.  En þetta er bara mitt prívat álit

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2013 kl. 12:48

7 identicon

Ég held að allir klóri sér í höfðinu yfir þessu. Ég get ómögulega álasað mönnum fyrir að sjá ekki við sjóuðum háhyrningum.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband