Eru Stjórnlagaráðsliðar sáttir?

Undanfarið hefur verið uppi mikill harmagrátur á blogginu meðal rétttrúaðra.  Þar hefur hver stór kanónan á fætur annarri lýst yfir frati á Árna Pál og tilraunir hans til að setja stjórnlagaráðsfrumvarpið í ferli  eins og það er kallað.  En af hverju eru menn svona reiðir?  Hafa menn ekki kynnt sér útvötnunina á frumvarpi Stjórnlagaráðs?  Er Illugi sáttur við þær breytingar? Er Þorvaldur sáttur? Eða Lýður eða Gísli Tryggvason?  Hvað um Þorkel Helgason og Pétur Gunnlaugsson?  Ég trúi því ekki að menn séu sáttir við hvernig vinna þeirra hefur verið vanvirt.  Ég er búinn að þaullesa nýjustu útgáfuna og bera hana saman við upprunalegu tillögur Stjórnlagaráðs og ég er ekki sáttur. Enda er alls ekki lengur um það að ræða að þær tillögur séu lagðar til grundvallar.

Eins og frumvarpið er núna þá held ég að best sé að það verði svæft.  En eina breytingu má gera á þessu þingi og hún er sú að framvegis verði allar breytingar á stjórnarskránni unnar af þjóðkjörnu Stjórnlagaþingi. Alþingi er um megn að fjalla um stjórnarskrána enda hafa þeir beinna hagsmuna að gæta og eru því vanhæfir.  Þetta hljóta menn að viðurkenna!

Ég hef lýst því áður hvernig ég tel skynsamlegt að standa að kosningum á Stjórnlagaþing.  En þær tel ég að eigi að fara fram samhliða alþingiskosningum og kjörgengir séu allir nema Forseti Íslands, Hæstaréttardómarar og þeir sem eru á listum stjórnmálaflokkanna við Alþingiskosningar eða á launum hjá stjórnmálaflokkum.  Kosnir verði 30 menn og konur til að sitja á Stjórnlagaþingi og fjalla um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.  Til þess að kostnaður fari ekki úr böndum þá verði ekki um launað starf að ræða fyrir þá sem þegar sinna störfum í opinbera geiranum. Og Stjórnlagaþing nýti sér aðstöðu Alþingis og starfi bara þegar þinghlé er á sumrin.  Ég held að almennt sjái menn að vinna við stjórnarskrárbreytingar er ekki bezt fyrir komið í einni lotu.  Betra er að vinna þær með hléum.  Þannig væri hugsanlegt að vinna að breytingum á 2 sumrum og senda þær síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara sveitastjórnarkosningum til samþykktar eða synjunar.

Ef engar kröfur koma fram um breytingar á stjórnarskránni þá þarf náttúrulega ekki að kalla saman Stjórnlagaþing en kosning fari þó alltaf fram.  Setja mætti ákvæði um að Forsetinn kallaði þingið saman þegar á þyrfti að halda.

Þetta er eina leiðin til að vinna að einhverju viti að breytingum á stjórnarskránni.  Alþingi ræður ekki við verkið og verður að sleppa því úr þeirri gíslingu sem það hefur verið í, í tæp 70 ár.  Ef Árni Páll myndi vinna að þessari sáttatillögu þá væri hann maður að meiri.  En í guðanna bænum verið ekki að hræra í stjórnarskránni með marklausum málamiðlunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband