Bölvun arfsins

Hlaupa upp til hand' og fóta
haldandi þeim engin bönd.
Pabba hennar málsókn hóta
og heimta arfinn útí hönd.

Um það sem í vændum var
vissu fleiri en þessi tvö.
Efnt var því til útrásar
árið tvöþúsund og sjö.

Í Bretaveldi stuttur stans
og stefnt að doktorsgráðum.
Þar ala þurfti Anna hans
önn fyrir þeim báðum.

Allt er þetta í annál skráð
eins og þið víst munið
Og uppskeran er eins og sáð
en svo kom blessað hrunið.

Framtíðin var fyrir þeim
frestun náms í Oxfordskóla
Og hvergi sést er koma heim
hvað þau földu á Tortóla.

Þótt hvíslað væri að væru rík
þau virtust bara basla
En völl sér vild' í pólitík
vinasnauður Simmi hasla.

Nú þjóðinni um nös er núið
níðinga að kjósa sér
En erfitt er og sjálfsagt snúið
silfursjóð að eiga hér.

Enda raunin það svo reyndist
og réttað var á Austurvelli
að ráðherranum reiðin beindist
sem rjúfa vildi þing í hvelli.

Endirinn þó yrði annar
en að fórna einu fóli
Er því að kenna að þingrof bannar
þráseti á valdastóli.

-----------------------

Eflaust ríkti einhver sátt
og aflandsmálið aldrei skeð
hefði Bogi bróðir mátt
braska allan arfinn með.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband