Samfylkingin er ónýtt vörumerki

Ef Oddný heldur að Samfylkingin eigi sér viðreisnar von í hugum kjósenda þá er það ein skýringin á þeirri útreið sem flokkurinn hennar fékk í þessum kosningum.  Það virðist öllum ljóst nema forystufólki Samfylkingar og hinum föllnu þingmönnum, að skýringin á óförum þessa flokks liggur í aðkomu hans að ríkisstjórnum tengdum hruninu og sérstaklega frammistöðu þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þótt þeim sjálfum finnist það ranglátt að vera refsað fyrir erfiðar ákvarðanir í eftirmálum hrunsins þá einfaldlega var pólitísk forysta Jóhönnu Sigurðardóttur veik og hvorki skeytt um hag lands né þjóðar. Margir fengu á tilfinninguna að Samfylkingunni væri hreinlega illa við landsmenn og vildi frekar þóknast fyrirfólki í Brussell en íslenskum brotaþolum bankaræningjanna.  Slíkur var málflutningur Össurar Skarphéðinssonar og Árna Páls, sem hlutu loksins þau háðulegu örlög að vera fjarlægðir í krafti valds kjósenda. Því þetta fólk þekkti ekki sinn vitjunartíma.  Ekki frekar en Davíð Oddson,  sem ætíð hefur neitað að viðurkenna sína ábyrgð af hruninu í embætti seðlabankastjóra.

Allt tal um endurskoðun á stefnu Samfylkingar er ótímabært.  Það var ekki stefnan sem brást heldur fólkið sem stýrði flokknum og sem sat á Alþingi í umboði flokksins!  Þess vegna á Oddný að gera eins og Björgvin G, segja af sér embætti og leggja til að Samfylkingin verði tekin til pólitískra gjaldþrotaskipta.  Í kjölfarið væri hægt að endurvekja Alþýðuflokkinn og fá til þess einlægt hugsjónafólk en ekki tungulipra loddara. 

En svo væri líka hægt að lifa án þess að hafa hér sósialískan jafnaðarmannaflokk. ASÍ hefur löngu svikið stefnuna og þess vegna engin réttlæting lengur fyrir pólitísku baklandi vinstri sinnaðs stjórnmálaflokks. Nýja Ísland vill taka afstöðu til málefna sem byggir á upplýstri afstöðu hverju sinni en ekki beygja sig undir flokkaræði gamla Íslands. Það er sá lærdómur sem draga má af pólitískum umhleypingum síðustu ára.  Hvort Oddný skynjar það eða ekki skiptir engu máli í stóra samhenginu. Endalok Samfylkingar eru staðreynd sem ekki verður breytt.

 


mbl.is Kallar á endurskoðun á stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband