Byggðastefna sunnanmanna

Það var skynsamlegt að fækka lögsagnarumdæmum og þar með sýslumönnum.  En þar með var skynsemin á enda því menn að sunnan skilja ekki þær takmarkanir, sem vestfirsku fjöllin setja íbúum sínum. Allir sem einhvern tíma hafa búið á Vestfjörðum vita að Suðurfirðirnir, þ.e byggðin við Arnarfjörð og Barðastrandarsýslurnar eru ekki í vegasambandi við Norður-Ísafjarðarsýslu nema 7-8 mánuði á ári. Þess vegna er óskiljanlegt af embættismönnum fyrir sunnan að staðsetja þjónustustofnanir á sviði löggæslu og heilbrigðismála á suður svæðinu.  Þetta þýðir í raun mikinn kostnað og óþægindi fyrir meirihluta íbúa svæðisins sem búa á norður svæðinu. 

Ef takast á að halda Vestfjörðum í byggð þá má ekki skerða þjónustuna eins og nú eru áform uppi varðandi sameiningu heilsugæslu og löggæslu og staðsetja stofnanirnar á fámennara svæðinu.

Suðursvæði Vestfjarða ætti frekar að tilheyra þéttbýlinu við Breiðafjörð heldur en Vestfjörðum sem sérstökum landshluta. Enda eru samgöngur um Breiðafjörð tiltölulega öruggar með nýrri og fullkomnari Breiðafjarðarferju. 

Því ættu lánlausir ráðherrar í ríkisstjórn hinna ríku, að hlusta nú einu sinni á heimamenn og gera ekki kerfisbreytingar sem gætu haft óafturkræfar búsetubreytingar í för með sér.

Til að fólk vilji búa út á landi þarf gott aðgengi að grunnþjónustu. Læknis og löggæsla falla undir þá þjónustu.  Svo og skólar sem því miður er verið að rústa af þriðja ráðherra þessa ömurlega stjórnmálaafls sem Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn í skugga Davíðs og Hannesar Hólmsteins.

Hefði þetta verið gert ef Elliði Vignisson væri bæjarstjóri á Ísafirði?

 


mbl.is Óskynsamleg ákvörðun innanríkisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Grandi að bræða síldina?

Bloggfærsla Faxagengisins vakti athygli mína vegna þess að ég fæ ekki betur séð en verið sé að fara illa með afla.  Faxinn og Lundey eru bæði gömul skip og ekki útbúin fullkomnum kælitönkum eins og nýju skipin.  Samt eru þau látin moka upp miklum afla sem síðan er siglt með austur á Vopnafjörð þar sem Grandi er með bræðsluverksmiðju og fullvinnslulínu.  Hvað mikið af afla þessara skipa fer í bræðslu?

Þetta er birtingarmynd þeirrar "hagræðingar" sem svo mikið er dásömuð af eigendum kvótans og leigupennum þeirra. Fá og stór skip veiða 95% af takmörkuðum kvóta og vegna fjarlægðar verksmiðjanna frá veiðisvæðinu þá næst ekki besta nýting á hráefninu. Mest af síldinni er nú unnin fyrir austan en veidd útaf Breiðafirði. Sigling austur á Vopnafjörð, Norðfjörð og Hornafjörð tekur sennilega 30-40 klst og síðan getur bætzt við löndunarbið.  Þetta finnst sjávarútvegsráðherra ekkert tiltökumál.

Og sjómenn þegja þunnu hljóði!  Hvers vegna er ekki búið að breyta kerfinu þannig að útvegurinn veiti fleirum atvinnu og við náum að hámarka verðmæti aflans?  Auðvitað á að byggja verksmiðju við Breiðafjörð og láta heimamenn veiða til manneldis.  Með réttum útbúnaði geta smábátar vel komið með úrvalshráefni í land.  Það hefur tekist að tæknivæða makrílveiðar smábáta og á sama hátt verður hægt að tæknivæða síldveiðar þeirra en forsendan er náttúrulega að þeir fái að veiða!

En kannski er of seint í rassinn gripið.  Síðustu ár hefur obbinn af síldarstofninum nefnilega annað hvort orðið sjálfdauður í síldargildru Vegagerðarinnar í Kollafirði eða étinn upp af hvölum inná Breiðafirði. En með það er farið eins og mannsmorð.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband