Ragnheiður Elín og þráhyggjan

Ragnheiður þvertekur að hún sé með pólitískt inngrip í byggingu Álvers í Helguvík.  Allir sjá að ráðherrann lýgur.  Ef henni tekst að beygja stjórn Landsvirkjunar til að semja um raforku til þessa óskabarns Sjálfstæðisflokksins þá verður sú framganga henni til ævarandi skammar og algerlega á pari við skandalinn þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð.  Núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur lýst því yfir að sú framkvæmd hafi ekki verið byggð á arðsemiskröfum heldur hafi pólitík ráðið úrslitum.

Í því ljósi er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð forstjórans hjá fyrirtækinu sem er núna aftur komið í hendur pólitískra útsendara helmingastjórnaflokkanna.  Eða hvernig á að skilja fyrirhugaða línulögn Landsnets um Suðurnes til Helguvíkur?  Er ekki ljóst að þar er verið að búa í haginn fyrir raforkusölu til álversins?  Ég spái því að álverið muni rísa og að munum niðurgreiða rafmagnið eins og venjulega.  Allt í boði Ragnheiðar Elínar og Árna Sigfússonar.  Segið svo að þráhyggjan sé bara sjúkdómseinkenni!  Hjá Ragnheiði Elínu er þráhyggjan persónuleikaeinkenni.  Hún skilur ekki þegar nei þýðir nei.


Þegar ein beljan mígur..

Nú keppast allir blogghermennirnir, hver um annan þveran að leggja út af skýrslu Hagstofunnar, um góða afkomu sjávarútvegs.  En lásu menn inngang skýrslunnar? 
Hagstofa Íslands tekur árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Við gerð þess er bæði byggt á skattframtölum rekstraraðila og reikningum sem fyrirtæki í sjávarútvegi hafa sent Hagstofunni,
Við þetta er tvennt að athuga.
  • Hvaða áhrif hefur sú staðreynd að stærstu fyrirtækin færa bókhald sitt í evrum?
  • Er hægt að treysta eingöngu skattframtölum fyrirtækjanna?
Ég fullyrði að gróðinn er margfalt meiri.  Og Hagstofan hefur ekki réttar forsendur til að byggja á.  Seðlabankinn hefur lagt hald á bókhald Samherja.  Hvernig væri að Seðlabankinn skrifaði skýrslu um hvernig kaupin gerast á eyrinni í bókhaldsfiffi sjávarútvegsfyrirtækja?

Þegar rétt er rangt

Á Wikipedia má finna síðu sem höfundar kalla
Listi yfir íslenskar stafsetningar- og málfræðivillur

Þar er ýmislegt fróðlegt að finna og meðal annars, að réttara sé að segja og skrifa alkóhólisti en ekki alkahólisti.   Þessu er ég ósammála. Við notum orðið alki og alls konar orðasambönd með forskeytinu alki en ekki alkói, þess vegna er rökrétt að segja alkahól en ekki alkóhól.  Orðið alkahól hefur verið til í málinu í áratugi og engin ástæða til að breyta því.  Ég man meira að segja vísubotn sem Bjössi bróðir Binna í Gröf, orti annað hvort 1965 eða 1966 og hljóðaði svo:

Aflasjóli upp í hól
Alkahólinn skefur.

Þá var ég nýfermdur að byrja sjómennsku sem 2. kokkur á síðutogaranum Úranusi RE 343.  Meðal eftirminnilegra manna þar, var Bjössi kyndari, sem kynnti sjálfan sig aldrei öðruvísi en sem Bjössa bróðir Binna í Gröf.  En Binni í Gröf var landsþekktur aflamaður í Vestmannaeyjum.  Sjálfur var Bjössi hagmæltur með ágætum og synd að ég skuli ekki muna nema þennan eina vísubotn frá samverunni með Bjössa.  En tilefnið var að í þá daga áttu skipstjórar sér leynibleyður sem þeir toguðu aðeins á ef þeir voru einskipa.  Sverrir Erlendsson, skipstjóri á Úranusi átti sér svona bleyðu, sem kallarnir kölluðu Alkahól.  Og er það skýringin á vísubotninum.



Vegamál og landsbyggðastefna

Vegakerfi landsins er að molna niður í orðsins fyllstu merkingu og ástæðan er fyrst og fremst hinir óheftu fiskflutningar sem viðgangast á 40-50 tonna trukkum.  Þetta er dæmi um algert stjórnleysi sem því miður ríkir í stjórn landsins.  Hagsmunaaðilar gera bara það sem þeim sýnist og ríkissjóður borgar.  Nú þarf að grípa til aðgerða til að bjarga illa förnu vegakerfi áður en það eyðileggst alveg.  Ég legg til að tekinn verði upp alvöru þungaskattur á fiskflutninga og vöruflutninga þannig að menn fari í alvöru að skoða hagkvæmni sjóflutninga.  Það gengur ekki að menn hummi þessa ákvörðun fram af sér enn eitt árið vegna þess að það vantar stærsta liðinn í kostnaðarútreikninginn sem er slit vegakerfisins.  Og það gengur ekki sífellt að ræða flutningskostnað sem eitthvað sem ríkið þurfi að jafna.  Þegar ég bjó út á landi þá voru kostirnir í sambandi við atvinnu meiri heldur en ókostirnir við hærri búsetukostnað.  Þetta bónbjargarviðhorf sem nú ríkir í landsbyggðarmálum er óþolandi.  Skilið sjávarbyggðunum aftur kvótanum og hættið að skammta þeim jöfnunarstyrki úr hnefa. 

Landbúnaðarháskóli!!

Illugi er algerlega úti að aka í sambandi við menntamál.  Hann virðist ekki fær um að meta huglægt þörf samfélagsins fyrir menntun eða hvar þörf sé róttækrar uppstokkunar.  Hann horfir greinilega bara 4 ár fram í tímann og kýs að halda sig til hlés. Hvað gengur mönnum til að ætla að sameina búfræðinám á Hvanneyri og háskólanám í Háskóla Íslands?  Af hverju færa menn ekki frekar búfræðinámið til fyrra horfs?  Hvers vegna í ósköpunum er verið að uppfæra nám eins og búfræði, lista og tækninám á háskólastig?  Þessari spurningu á Illugi að krefjast svara við.  Því það er búið að gjaldfella menntun í landinu með allri þessari háskólavæðingu sem þjónar engu nema gera námið og rekstur skólanna margfalt dýrari heldur en þörf er á. 

Auðvitað eru hagsmunir starfsmannanna ekki þeir sömu í venjulegum bændaskóla eða landbúnaðarháskóla.  Þess vegna á ekki að spyrja þá hvað bezt sé að gera. Stefnumótunin verður óhjákvæmilega að koma frá fjárveitingavaldinu.  Og þar sem fjárveitingavaldið er í höndum Alþingis en ekki ráðherra þá á Illugi að snúa sér til þingsins og biðja það að koma með tillögur að nýrri menntastefnu.  Menntamálanefnd þingsins á að móta stefnu í samvinnu við óháða sérfræðinga.  Þannig á að vinna þetta.  Ekki í einhverju samkrulli embættismanna og hagsmunaaðila.


Áhyggjufullt ævikvöld

Áhyggjufullt ævikvöld virðist blasa við mörgum núverandi skjólstæðingum einkarekinna hjúkrunarheimila. Hér er ekki síður þörf að taka til hendinni fyrir stjórnvöld en í málefnum sjálfs Landspítalans.  Þessi stefna að gefa betur stæðum eldri borgurum kost á að tryggja áhyggjulaust ævikvöld hefur snúist upp í martröð og nú blasir við þessu fólki áhyggjufullt ævikvöld.   Hörmungarsaga Eirar virðist nú vera að endurtaka sig í Sunnuhlíð, Kópavogi og mjög sennilega víðar þar sem menn hafa farið offari í einkarekstri af þessu tagi.  Og þótt sveitarfélögin hafi komið að þessum rekstri þá virðast þau enga ábyrgð bera. Og úrræðaleysið virðist algert.  Af hverju stendur ekki ráðherra upp og lýsir því yfir við þetta gamla fólk sem í hlut á, að þetta verði allt í lagi og það verði fundin lausn sem tryggi þeirra öryggi umfram allt?   En nei, þetta duglausa fólk er á fullu að bjarga eigin rassgati og enginn skeytir um líðan þeirra eldri borgara sem eru fórnarlömb kerfisvitleysunnar.

Þetta er einn stærsti blettur á íslensku samfélagi hvernig komið er fram við eldri borgara.


Innbyggð sóun í kvótakerfinu

Enn á ný ætla ég að nota þennan vettvang til að vekja athygli manna á skaðsemi kvótakerfisins. Nú er tilefnið fréttir af mikilli ýsugengd á grunnslóð og þeirrar staðreyndar að veiðiráðgjöf Hafró tekur ekkert tillit til raunverulegrar fiskgengdar.  Öll þeirra ráðgjöf byggir á 2 rannsóknarleiðöngrum á ári og ef ýsan er svo óheppin að vera ekki stödd á stefnumótastöðum Hafró þá er hún ekki til.  Hafró tekur ekkert tillit til náttúrulegra umhverfisþátta.  Þeirra vísindi snúast um að mata tölvulíkan á gögnum sem er aflað á 2 vikum af 52.  Og þegar líkanið segir að ekki megi veiða ýsu þá þýðir það ekki að ýsa veiðist ekki.  Það þýðir bara að ýsan er ekki lengur færð til bókar í fiskibókhaldi Fiskistofu.  Afleiðingin er tvennskonar.  Í fyrsta lagi þá grefur svona fiskveiðistjórnun undan trausti sjómanna á vísindalegri veiðiráðgjöf og í öðru lagi þá skekkir þetta grundvöll líkansins.  Sem aftur veldur því að þegar fiskur finnst sem ekki á að vera til þá neita Hafrómenn að auka kvótann sem aftur veldur því að sjómenn finna leiðir til að hunsa svona arfavitlausa veiðiráðgjöf.

En það er takmarkað hvað menn nenna að leggja á sig til að svindla á eftirlitskerfinu. Þess vegna blasir nú við að næstu 7 mánuði mun mest allri ýsu sem kemur sem meðafli hjá smábátunum verða hent aftur í sjóinn.

Ætlar Sigurður Ingi að láta það gerast á sinni vakt?  Það liggur í augum uppi að veiðiráðgjöfin var röng.  Ýsustofninn á grunnslóð fyrir vestan og norðan og austan er miklu sterkari en Hafró mældi.  Og þegar mæling er röng þá endurtaka flestir alvöru vísindamenn mælinguna en ekki Hafró!  

Þetta gengur náttúrulega ekki svona lengur.  Það verður að endurskoða mælingar Hafró og hætta að trúa á þetta reiknilíkan.  Veiðar eru ekki og hafa eiginlega aldrei verið afgerandi þáttur í stofnstærð fiska.  Þar spilar miklu stærri rullu, umhverfisþættir eins og hitastig, súrefnismettun og fæðuframboð en líka eigið afrán og afrán annarra sjávardýra.  Hvað áætla menn að Háhyrningarnir í Breiðafirði hafi étið mikið af síld á þessu ári?  Eru til einhverjar tölur um það?  Ég stórefast um að þar á bæ hafi menn nokkuð rannsakað ætisvenjur Háhyrninganna. Og RÚV er búið að taka af vef sínum hlekk sem lengi var þar um fróðleik í sambandi við hvali.  Þó er hægt að finna vefinn hér.   Afhverju ákveðið var að taka hann af heimasíðu RÚV, verða þeir að svar fyrir.  Hins vegar segir á Vísindavefnum: "Áætlað hefur verið að þær 83 tegundir hvala sem finnast í heiminum éti um 300 til 500 milljón tonn af sjávarfangi árlega. Það er um það bil 3 til 5 sinnum meira en fiskveiðifloti allra landa aflar".   Þetta er ekki lítið magn og þótt ekki sé nema kannski þriðjungurinn af þessu magni fiskur, þá er fæðukeðjan bara ein í hafinu og það sem er étið úr henni neðst hefur áhrif upp alla keðjuna.

En auðvitað er ég enginn fiskifræðingur, ég reyni bara að beita heilbrigðri skynsemi í bland við áratugareynslu af veiðum og það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að menn viðurkenni að

heildaráhrif kvótastýringar á veiðum eru þjóðhagslega skaðleg!

Það getur ekki verið réttlætanlegt að halda í stjórnkerfi sem lætur sjómenn henda afla sem þegar er dauður í sjóinn aftur.  Og það getur ekki verið réttlætanlegt að láta hvali éta meira en helming af síldarstofni sem hefur tekið áratugi að byggja upp.

Við þurfum vitundarvakningu hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum svo þeir átti sig á hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni.  Þetta er miklu stærra en svo að Sigurði Inga og LÍÚ sé treystandi fyrir að stýra ferðinni.

 


Þegar orð fá á sig óorð

Þegar orð fá á sig óorð þá eru þau flest tengd pólitík. Dæmi: Framsóknarmaður og hrossakaup

Saklaus orð í sjálfu sér en neikvæð merking þeirra yfirtekið upprunalega merkingu.  Ætli þetta verði skoðað í Orðbragði?


Þegar lög og réttlæti fara saman

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi vegna aðildar sinnar að Al Thani-málinu. Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður bankans hlaut fimm ára dóm, Ólafur Ólafsson hlaut þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, þriggja ára dóm. Enginn sakborninga mætti við dómsuppsögu í málinu. Verjendur allra voru þar nema Karl Axelsson, verjandi Magnúsar. Fulltrúi mætti í hans stað.

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sektaðir um eina milljón króna hvor um sig í réttarfarssekt. Gestur var verjandi Sigurðar Einarssonar í Al Thani-málinu í vor en Ragnar H. Hall lögmaður Ólafs Ólafssonar. Þeir báðust báðir lausnar frá málinu á þeim forsendum að brotið hafi verið á hagsmunum og mannréttindum skjólstæðinga sinna  í málsmeðferðinni.

Vonandi að Hæstiréttur fari ekki gegn réttlætiskennd þjóðarinnar sem fagnar í dag


Sjálfshjálparhópur Alþingismanna

Ekki er hægt að túlka ræðu Óttars öðruvísi en ákall til samþingsmanna um að fara að haga sér almennilega.  Ef vinnumórallinn á Alþingi er svona slæmur þá er það alvarlegt.  Hingað til hefur því verið haldið fram að ágreiningurinn sem kemur fram í þingsal sé að mestu látalæti og uppgerð.  En kannski er bara meira núna um þingmenn með persónuleikaraskanir en áður.  Þeir þurfa náttúrulega á sínum sjálfshjálparhópi að halda.  Það er ekki hægt að leggja á samþingmenn að verða vitni að grátköstum eins og þeim sem berast úr þingflokksherbergi Framsóknarmanna.   Vonandi bjóða Óttar og Þórunn, Elsu Láru að vera með
mbl.is Minntu á hóp jákvæðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband