Gunnar Bragi lætur Össur spila með sig

Össur atyrðir Gunnar Braga fyrir að láta Norðmenn plata okkur í makrílviðræðunum og Gunnar stenzt ekki frýjunaryrðin heldur hleypur upp til handa og fóta og kallar sendiherra Norðmanna og ESB á sinn fund og heimtar svör fyrir Össur! Ef þetta er ekki hrekkur ársins hjá Össuri þá allavega verður erfitt að toppa þetta asnastrik utanríkiráðherrans.

Nú sitja örugglega allir ráðamenn í Evrópu og klóra sér í hausnum yfir þessum utanríkisráðherra uppi á Íslandi sem heldur að hann geti beitt embætti sínu til að krefjast upplýsinga um milliríkjasamninga sem Ísland er ekki aðili að.  Nú vantar bara lýsingar sjónarvotta á því, hvort hann hafi rifið af sér skóinn og barið honum í borðið í vanmáttugri reiði! 

En Össur mun skrifa annað bindi Árs Drekans og tileinka það ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Það verður örugglega ekki síðri lesning en fyrra bindið.  Nú loksins eru orð Þorgerðar Katrínar vel við hæfi því þetta eru spennandi tímar þótt þeir hafi ekki verið það þegar þorgerður missti þau útúr sér í miðju hruni!


Makríl málin skýrast

Sigurgeir Þorgeirsson staðfesti í viðtali við Spegilinn kenningu mína, sem ég setti fram í gær um, að fyrirhugaðar  veiðar Brims, Samherja og Síldarvinnslunnar í grænlenskri lögsögu hefðu lagst illa í viðsemjendur okkar.  Enda voru uppi áætlanir um stjórnlausar gúanó veiðar til að afla veiðireynslu.  Nokkuð sem Norðmenn og ESB kannast við af hálfu Íslenzkra útgerðamanna þegar makrílveiðar voru fyrst leyfðar hér á landi.  þannig að hér sannast enn og aftur að græðgin verður okkur að falli.

Nú þarf að taka ráðin af Sigurði Inga.  reka LÍÚ úr ráðuneytinu og setja þangað fagfólk.  Fólk sem útlendingar geta haft samskipti við á faglegum nótum. 


Fanga fetish

Undanfarið hafa birst í fjölmiðlum frásagnir af íslenzkum konum höldnum fangablæti.  það skrýtna við það er, að þær vita það ekki sjálfar.  Halda að þær stjórnist af hjartahlýju og góðmennsku sem er alger misskilningur.

Önnur þessara kvenna ferðaðist til Afríku til að styðja fótalausan morðingja en hin fór til Amríku að heimsækja ofbeldisfullan ungling í fangelsi. Og  tók með sér unglingsdóttur sem hún hefur smitað af þessu blæti sínu.

Hvað okkur varðar um þetta er mér hulið en þessu er troðið ofan í okkur í ítarlegri umfjöllun slúðurfréttadálka og viðtökurnar láta ekki standa á sér. Enda er Íslendingum tamara að velta sér upp úr slúðri en veita stjórnmálamönnum aðhald.  Í þannig þjóðfélagi komast ráðamenn upp með nánast hvað sem er.


RÚV er hlutdrægt í ESB áróðrinum

Þrátt fyrir keypta úttekt á hlutlægum fréttaflutningi ríkismiðilsins, blandast engum sem fylgist með fréttum hugur um, að RÚV er bullandi hlutdrægt þegar kemur að áhugamáli fréttastjórans.

Í gær var til dæmis ítarleg umfjöllun í Speglinum um einhverja skoðanakönnun sem er mjög óvenjulegt.  Vanalega er látið nægja að segja frá helztu niðurstöðum en þarna var berlega verið að nýta sér aðstöðuna til að koma því ítrekað á framfæri að stuðningur við aðild að ESB færi vaxandi.  Það skiptir engu hvað eitthvað fyrirtæki eins og Capacent segir,  við sem fylgjumst með fréttum höfum það svo sterklega á tilfinningunni að um hlutdrægan fréttaflutning sé að ræða að það er ekki hægt að hunza það sem einhvern áróður minniháttar spámanna eins og hrokagikkurinn Óðinn Jónsson lét hafa eftir sér.


Davíð er Eyland

sky_2_david_oddsson_1230189.jpgSíðan kjaftasagan um meinta vináttu Davíðs Oddssonar og Sigmundar Davíðs, fór á flug hefur ekki linnt allskonar spuna. En allt er þetta bull og vitleysa. Því menn eins og Davíð eignast ekki mannlega vini. Þeir bindast aðeins hagsmunaböndum en ekki vinaböndum. Þess vegna er Davíð eyland þvert á viðtekna trú.

Gerum eins og Heiðar Már segir.

Ráðaleysi íslenskra stjórnmálamanna er algert.  Nú á að fleygja stefnunni um bráðabirgðaaðild að evrópska myntsamstarfinu, sem undirbúin hefur verið í Seðlabankanum undanfarin 4 ár og alls óljóst er hvað við tekur.

Án gjaldeyrishafta er krónan ónothæf.  Og kostnaðurinn við höftin er álíka mikill og við verðtryggingu krónunnar.  Hvorugt er hægt að búa við.

Þess vegna á að skoða í alvöru tilboð Kanadamanna um upptöku dollars eða að taka hér upp Bandaríkjadal einhliða.  Auðvelt er að beina útflutningi vestur um haf og við þurfum ekki að stóla eins mikið á EES markaðinn og gert hefur verið.  Eins mun Kína opnast í lok árs svo það er líf án ESB.  Þótt margir haldi öðru framTounge

Það eru mörg rök sem styðja þá kenningu að okkur sé betur borgið í samstarfi við Kanada og Bandaríkin heldur en ESB. Ekki bara að það sé friðvænlegra heldur er menningarheimur okkar og Vesturheimsmanna miklu líkari.  Við eigum fátt sameiginlegt með keisaraslektinu og kónga og aðalsmanna hyskinu í Evrópu.  Og síðast en ekki sízt eigum við vini og skyldfólk í Kanada sem myndu fagna nánara samstarfi og viðskiptatengslum.

Kanada gæti þá verið okkar Akranes.  En þekkt er að fólk utan af landi velur frekar að flytja fyrst til Akraness áður en það flytur alveg á höfuðborgarsvæðið.

Hlustum á Heiðar.


Sjúkir í tilfinningaklám

ESB aðallinn hefur eignað sér málefni hælisleitenda, flóttamanna, mansalsfórnarlamba og útlendra businessmanna.  Og nú síðast er grátið yfir örlögum rússneskrar konu sem flúði hingað undan ofbeldisfullum eiginmanni! Og það er ekki að ástæðulausu að þetta fólk eignar sér þessi baráttumál.  Því fátt hentar betur lýðskrumurum en höfða til tilfinninga. Og pólitískt séð eru svona mál óspart notuð til að búa til strámenn.

Ekki ætla ég að taka til varna fyrir yfirvöld sem bera hina pólitísku ábyrgð en menn ættu að beina spjótum sínum að kerfinu og lagasetningunni en ekki embættismönnum eða pólitíkusum sem eru að framfylgja lögum og reglum!  Ræðum aðildina að Schengen og það fullveldisframsal sem sú pólitíska ákvörðun hafði í för með sér. 

Schengen aðildin veldur því að hver sem er kemst inní landið eða svo til.  Í stað þess að ef við framfylgdum okkar eigin landamæraeftirlit þá hefðum við í flest öllum tilfellum, sem upp hafa komið á undanförnum árum, getað afstýrt því að þetta fólk hafi fengið landvistarleyfi. Og þar með komið í veg fyrir þá ómannúðlegu meðferð, að vísa fólki fyrirvaralaust úr landi.

Því þetta er ekki mannúðlegt kerfi. En það er ekki vegna mannvonsku Útlendingastofnunar eða embættismann eða lögreglu. Þetta er bara það kerfi sem meðal annars ESB aðallinn ber ábyrgð á!

Þess vegna fordæmi ég tilfinningaklámið og pólitíska upphlaupið og segi við þetta fólk, talið við Alþingismennina og breytið lögunum.  En þegið ella.


Sigurður Ingi klúðraði makrílsamningum

Samkvæmt norskum miðlum þá hafa Evrópusambandið, Norðmenn og Danir/Færeyingar náð gagnkvæmum fiskveiðisamningum í Norðursjó og Skagerak. Samningurinn er til 5 ára og hlutfallsleg skipting makrílkvótans mun haldast hin sama yfir samningstímann.  Löndin hafa ákveðið heildarkvóta í makríl fyrir 2014 upp á 1088 þúsund tonn sem skiptist þannig:

Noregur  .....................  279.000 tonn
Evrópusambandið ........  611.000 tonn
Færeyjar  ....................  156.000 tonn
óráðstafað  .................    42.000 tonn

Ljóst er að Norðmenn hafa gefið mest eftir svo Sigurður Ingi skuldar okkur skýringu á því sem hann gaf sem ástæðu samningsslita fyrir stuttu. Og íslendingar eru ekki í góðum málum.  Við getum varla sett okkur kvóta einhliða í ljósi þess að allir hinir hafa náð samningum.  Ef engir samningar hefðu náðst þá væri ekkert því til fyrirstöðu að ríkin settu sér einhliða kvóta en það skilyrði er ekki lengur fyrir hendi og gagnaðilarnir hafa öll ráð okkar í hendi sér vegna viðskiptahagsmuna sem við munum beygja okkur fyrir.

Sést hér enn og aftur hversu hættulegt er þegar bjánar komast til valda í lýðræðisríki.


Um kostnaðarvitund og fégræðgi

Okkur er sagt að kostnaður Alþingis vegna skýrslu um fall sparisjóðanna muni fara yfir 600 milljónir.  Þetta er ótrúlega há upphæð hvernig sem menn reyna að réttlæta hana og full ástæða til að láta fara fram rannsókn á gerð skýrslunnar!  Þá þarf að tímamæla vinnuna og ganga úr skugga um að sérfræðingar hafi ekki margskráð tímann sem fór í þetta.  Það er ekki nóg að tala um kostnað og ráðdeild ef kostnaðarvitund ráðamanna er jafn léleg og dæmin sanna.  Því hvernig í ósköpunum getur lögfræðingur í ósköp ómerkilegu launakröfumáli sent umbjóðanda sínum reikning upp á, á sjöundu milljón eins og gerðist í máli Más seðlabankastjóra?  Þessi upphæð er hróplega úr samræmi við allt sem tíðkast hjá venjulegu fólki og skemmst að minnast þegar héraðsdómur dæmdi lögmanni málskostnað upp á 400 þúsund sem Hæstiréttur svo staðfesti!  Skyldi vera, að einhver gæðingurinn hafi fengið málinu úthlutað vegna þess að vitað var fyrirfram að Seðlabankinn yrði látinn borga?

Hvað finnst Guðlaugi Þór og Vigdísi Hauks um þetta?   Mun einhver fjölmiðlamaður spyrja?


Gunnar Nelson

Eftir að hafa horft á óklippt myndband af þessum bardaga Gunnars Nelson í London s.l föstudagskvöld, þá get ég ekki annað en tekið undir með þeim sem fordæma þessa tegund "íþróttar".  Að horfa á hvernig Gunnar beitti olnboganum ítrekað sem sleggju á andlit mótherjans, er ekkert annað en árás með banvænu vopni.  Og hengingartakið í restina hefði auðveldlega getað hálsbrotið mótherjann. Að svona bardagi fari fram í búri er táknrænt.  því bardagamennirnir eru eins og dýr.  Að hampa Gunnari Nelson sem þjóðhetju og keppnisgreininni sem íþrótt eru mikil öfugmæli.  Miklu nær væri að sameinast um að fordæma þessa bardagagrein og helst banna alfarið að hún sé iðkuð hér á landi , hvað þá að leyft verði að keppa í henni. Gunnar sjálfur veit hversu hættulegt þetta getur verið.  Nýfarinn að keppa eftir 12 mánaða hlé vegna alvarlegra meiðsla sem hann varð fyrir.

Við erum flest sammála um að draga úr slæmum áhrifum sem ofbeldistölvuleikir geta valdið.  Að eitthvað annað eigi að gilda um Gunnar Nelson er hræsni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband