16.10.2013 | 15:40
Ekki næstu 20 árin
Skrítið hvað sumir þingmenn eru blindir á raunverulega fjárhagsstöðu ríkisins. Nú þarf ekki þjóðarátak til að eyða 100 milljörðum heldur þjóðarsátt um að lækka skuldir ríkissjóðs og þessa geigvænlegu vaxtabyrði. Heilbrigðiskerfið er í molum og það batnar ekki við að ráðast í byggingarframkvæmdir á stað sem rúmar ekki allar þessar byggingar sem "verktakavinir" vilja ráðast í. Ef snillingunum hefur tekist að eyðileggja gamla Landspítalahúsið þannig að það kosti 11 milljarða að gera við það þá þykir mér einsýnt að sameining spítalanna verði tekin til endurskoðunar ásamt kerfinu sjálfu og reynt að komast að skynsamlegri lausn. Eins og tildæmis að ákveða hvaða deildir við ætlum að hafa og reka vel og hvaða deildir hægt er að láta lækna sjálfa reka. Eins og tildæmis augndeildina á Landspítalanum. Hún er rekin í samkeppni við einkastofur og einkastofurnar standa sig mun betur en Landspítalinn. Og hvað um aðrar deildir? Háls- nef og eyrnadeildin þarf ekki að vera hluti af ríkisspítala. Og svo framvegis.
Einkarekstur er ekki glæpur. En einkavæðing þar sem gróðinn er bara einkavæddur er glæpur.
Ræðum þetta í þinginu en ekki frumvarp þessara 3 þingmanna sem virðast ekkert hafa lært af hruninu. Þessir nýju þingmenn okkar hljóta að hugsa öðruvísi en trénaðir flokkshestar sem aldrei hafa þurft að hugsa um eigin buddu. Gæslumenn almannafjár eiga að taka starf sitt alvarlega og láta ekki embættismenn leiða sig í ógöngur.
Borgarspítalinn stendur á góðum stað og hann hentar miklu betur undir Ríkisspítala heldur en gamli Landspítalinn. Lyflækningadeild, skurðdeildir, hjarta og krabbameinsdeildir rúmast vel í þeirri byggingu og þótt einhverju þurfi að bæta við þá verður það ekki nema brotabrot af þeim kostnaði sem menn ræða um að fara í, í sambandi við nýjan LSH. Með þessu móti mundi líka minnka umferðarálagið á Miklubrautina og í framhaldinu mætti tengja Kringlumýrarbraut við framtíðabyggð í Vatnsmýrinni með einhvers konar slaufum sem nýttust einnig sem aðkoma að Borgarspítalanum.
Það eru óendanlegir möguleikar sem munu opnast í skipulagsmálum strax og fyrirhugað byggingarslys á landspítalareitnum hefur verið blásið af fyrir fullt að allt.
Að starfsemin sé rekin á 17 stöðum er ekki rök fyrir því að byggja 280 þúsund rúmmetra á landspítalalóðinni. Miklu fremur ábending um að minnka báknið sem nýja spítalanum er ætlað að vera á kostnað allra annarra heilbrigðisstofnana í landinu. Töfraorðið hagræðing nær nefnilega sjaldan upp í efstu lög ríkisstofnana. Og sparnaður á einum stað þýðir oftast meiri kostnað annars staðar. Því allt hefur sitt verð. Bara spurning hvaða bókhald þarf að fegra hverju sinni.
![]() |
Vilja hraða spítalaframkvæmdum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)