Svo koma 4 mögur ár.....

Er lægðin yfir landinu
lyfti sér um millibör
Þeir sem stóðu að strandinu
stýra vilja okkar för

Meðal þeirra megum sjá
minni spámenn standa
þurfalinginn Þorstein Má
og þann sem stjórnar Granda 

Sigmundur með maðkað mél
munstrað áhöfn getur
Ásmund setur oní vél
á útkíkkið hann Pétur

Með Bjarna aðeins eiga sess
Illugi og Stjáni
Og vara Hanna vegna þess
að varla er hann bjáni

Ekki fleiri nefna nöfn
nenni ég að sinni
enda fleyið enn í höfn
útaf áhöfninni

 

 


Egils saknað

Egill greyið bitlaus, ber
bókum yfir hengur.
Spegill þjóðar ekki er
Efstaleitis lengur

Glöggir menn sjá að þetta eru sléttubönd því snúið við hljómar vísan:

Lengur Efstaleitis er
ekki þjóðar spegill
Hengur yfir bókum ber
bitlaus greyið Egill


Bloggfærslur 15. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband