Enn einn útvarpsþátturinn í sjónvarpi RÚV

Ég hlustaði á nýja skemmtiþáttinn, Orðbragð,  í tölvunni áðan. Það eru miklar ýkjur að kalla þetta skemmtiþátt en sem fræðsla á hann fullan rétt á sér í útvarpinu eða jafnvel bara á netinu. Sarah Silverman gerði fyrir nokkru þátt sem nefnist Susan 313.  Þessi uppistandsþáttur fékkst ekki sýndur á kapalstöðinni, en hún fékk leyfi til að setja hann á netið.  Það finnst mér vel til fundið.  Því margt er einfaldlega svo lélegt að það á ekkert erindi í sjónvarp þótt lágmenningar skemmtigildið sé ótvírætt.

Nú veit ég ekki hvernig dagskrárstjóri RÚV velur sitt efni en greinilegt er að hann sækist frekar eftir lélegu efni þótt gott efni sé í boði.  Við því er ekkert að segja.  Sumir eru bara metnaðarlausir og finnst meira gaman að lágmenningu.  En af hverju þarf ég að borga?


Sigmundur í Bunkernum

Ég verð nú að segja að trú mín á leiðtogahæfileika Sigmundar Davíðs hefur beðið mikinn hnekki á þessum 6 mánuðum, sem liðnir eru frá því að hann settist í forsætisráðherrastólinn.  Veldur þar mestu vaxandi ofsóknaræði drengsins, sem lýsir sér í endurteknu kvarti yfir því hversu allir séu vondir og núna er hann farinn að vara við, að menn sem eru andsnúnir Framsóknarflokknum sitji á svikráðum til að koma þeim frá völdum!! Og allt sem þessir ósvífnu föðurlandssvikarar munu segja á næstu dögum verði tóm lygi og útúrsnúningar! Halló Sigmundur, leitaðu þér hjálpar áður en fer fyrir þér eins og öðrum kunnum leiðtoga, sem hélt sig einstakan og ómissandi og óskeikulan.

Sorglegt

Allt þetta ferli, síðan í desember á síðasta ári, þegar 25 þúsund tonn af síld drápust úr súrefnisskorti í Kolgrafarfirði, ber stjórnvöldum dapurt vitni. Fyrir það fyrsta þá var eins og enginn áttaði sig á alvöru málsins eða nauðsyn þess að bregðast við.  Ekki Umhverfisráðuneytið, ekki Sjávarútvegsráðuneytið , ekki náttúruverndarsamtök, ekki sveitastjórnir á Snæfellsnesi, enginn!  það var eins og allir væru að bíða eftir að einhver annar tæki af skarið og lýsti yfir ábyrgð.  Með því að hafa hægt um sig héldu menn að þeir gætu varpað allri ábyrgð af þessu umhverfisslysi af herðum sínum.  Það var ekki fyrr en seinna slysið varð, sem menn sáu að ekki var undan því vikist að grípa til aðgerða.  En jafnvel þá voru allar aðgerðir fálmkenndar og sú neyðarráðstöfun að grafa dauða síld í fjörunni var bara frestun á vandanum og um leið voru vistskilyrði fjarðarins gerð verri til framtíðar.  Þá strax átti að gera ráðstafanir til að loka þessari gildru.  Annaðhvort með því að rjúfa vegfyllinguna á stórum parti eða með því að loka fyrir streymið undir brúna.

Það þurfti ekkert að gera neinar frekari rannsóknir.  Það kom í ljós 2011 að þverunin hafði þau áhrif að eðlileg sjávarföll tepptust í firðinum.  Munurinn var talsverður í millimetrum og umreiknað í lítra sjálfsagt einhverjar milljónir lítra sem ekki náðu að endurnýjast við hver fallaskipti. Vegagerðin vissi semsagt upp á sig skömmina en þagði þunnu hljóði meðan allir voru að ásaka alla hina fyrir aðgerðaleysi.

Og þessi vöktun sem stjórnvöld komu á var sýndarmennskan ein enda of seint að bjarga nokkru þegar síldin væri gengin inn í fjörðinn.  Og þessar veiðar sem Sigurður Ingi heimilaði í 4 daga skipta engu máli.  Þessir fáu bátar geta kannski veitt 200 tonn en það er brot miðað við þau 100 þúsund tonn sem talið er að séu föst í þessari síldargildru. 

Að hafa svona gersamlega óhæfa embættis og stjórnmálamenn er sorglegt.  Það var hægt að loka rennunni undir brúnni með síldarnót í síðustu viku eins og ég benti á en ekkert var gert. Er ekki hægt að draga ráðamenn til ábyrgðar fyrir tómlæti?  Ég mæli með að þingið rannsaki þetta og dragi þá til ábyrgðar sem gerðu ekkert til að koma í veg fyrir að síldin gengi inní þessa manngerðu síldargildru.


mbl.is „Látum ekki tvo milljarða drepast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband