6.12.2013 | 19:01
Hvað er búið að ráða marga til RÚV í vikunni?
Uppsagnir á RÚV eru hráskinnaleikur í pólitískri refskák. Sagt hefur verið að þegar einar dyr lokast þá opnist aðrar. Þetta virðist hafa verið gert á RÚV samkvæmt tölum um starfsmannaveltu síðustu tveggja ára. Og ekki dettur dagskrárstjórakvikindinu til hugar að hætta sýningum á Vertu viss þótt áhorf sé með minnsta móti. Erlendis eru yfirleitt gerðir pilot þættir og þeir fara í áhorfsmælingu áður en ráðist er í framleiðslu heillar seríu. Hér er nóg að Þórhallur hringi í Pál og segi honum að hann ætli að framleiða 8 þætti af froðu og hvort ekki sé í lagi að það verði bara sýnt næstu 2 mánuði. Og svo tala menn eins og RÚV sé óskabarn þjóðarinnar! Ég er hræddur um að það óskabarn sé löngu farið að heiman og sé orðið að útigangsbarni í Þingholtunum. Búið að gefast upp á heimilisfólkinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2013 | 16:36
Vandi Sigmundar Davíðs
Ég trúi því að Sigmundur Davíð hafi gerst stjórnmálamaður af því hann hafði þá hugsjón að láta gott af sér leiða. Þessi hugsjón hefur fleytt honum í stól forsætisráðherra en það hefur ekki gerst þrautalaust. Vegna þess að íslenzk pólitík byggir ekki á hugsjónum heldur hagsmunum þá situr nú Sigmundur Davíð í ríkisstjórn umkringdur hagsmunagæslumönnum sem hann getur ekki losað sig við því þeir eru margvaldaðir af mönnum sem hafa hin raunverulegu völd. Hvað ætlar Sigmundur að gera í stöðunni? Getur hann tekið áhættuna af því að skipta út Gunnari Braga og Sigurði Inga og bakað sér óvild flokkseigendaklíkunnar? Eða mun pólitíkin éta hann lifandi?
Eitt er víst að hann hefur almenning með sér ef hann rís gegn þessari spilltu hagsmunagæslu. Hans er valið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.12.2013 | 16:13
Hanna Birna í nauðvörn
Samkvæmt tilkynningu á vef Innanríkisráðuneytisins þá boðar nú Hanna Birna framlagningu frumvarps, sem bannar nauðungarsölur fram á mitt næsta ár. Stutt er síðan hún þvertók fyrir að beita sér fyrir slíkri lagasetningu og vísaði til eignaréttar kröfuhafa sem ástæðu. það var ekki í fyrsta skipti sem ráðherrann tók að sér hlutverk lögskýranda og dómara. Slíkt gerði hún einnig varðandi Gálgahraunsmálið og Teigsskógardeiluna þótt með öfugum formerkjum væri, sitt hvort deilumálið. Þetta er sú ímynd sem þjóðin hefur af núverandi Innanríkiráðherra og engum er rótt nema kannski Geir Haarde, sem sér fram á náðun og uppgjöf saka. En réttur kvenna er víst að vera óútreiknanlegur og tækifærissinnaður og um faglega stjórnsýslu er ekki spurt. Alla vega ekki hjá Hönnu Birnu eða teboðskellingunni í Iðnaðarráðuneytinu.
Og það sýnir bezt hversu Bjarni Benediktsson er veikur formaður að hann virðist ekki hafa burði til að skipta þessum óhæfa ráðherra út. En kannski hefur það samt komið til tals miðað við þetta nýjasta útspil. Það hlýtur að vera erfitt fyrir Hönnu Birnu að vera neydd til að leggja fram þetta frumvarp sem bannar nauðungarsölur, þvert á fyrri yfirlýsingar.
Kannski að ráðamenn í flokknum ættu að spyrja sig hvers vegna fylgi við flokkinn heldur áfram að dala. Gæti það verið vegna framgöngu ráðherranna og þess hve lítið traust þeir höfðu áður en ríkisstjórnin var mynduð? Bjarni Ben er sjálfur ekki búinn að bíta úr nálinni með Vafningslögbrotið og innherjasvikin varðandi söluna á hlutabréfunum í Glitni. Og Illugi sem fékk vini sína til að veita sér aflausn vegna Sjóðs 9, hefur ekkert traust útfyrir þessa fáu sem studdu hann í prófkjörinu. Og Hanna Birna sem hefur komist til áhrifa með mjög svo óheiðarlegum hætti. Fyrst með svikum gegn Vilhjálmi Vilhjálmssyni og svo tilraun hennar til að velta Bjarna Ben úr sessi. Ég lýsi fyrirlitningu á svona bolabrögðum og þótt tilgangurinn hafi verið góður þá voru meðulin það ekki og það er það sem vantar í pólitíkina. PRINSIP! það er fullt af minnipokamönnum með engin prinsip. Þessi ásýnd flokksins blasir við öllum nema flokkseigendafélaginu sem hamast nú við að endurskrifa söguna með nýjasta greinaflokki Hannesar Hólmsteins um þjóðsögur og bankahrun.
Mér er svo sem sama þótt Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að tapa fylgi. En það væri samt betra að fá nýtt fólk inn í ríkisstjórnina. Fólk sem hefði alla vegana óflekkað pólitískt mannorð. Það er til. Hinir óhæfu þurfa bara að víkja fyrst.
6.12.2013 | 14:35
Mitt síðasta orð um Kolgrafarfjörð
Fátt er meira þreytandi en þráhyggjuraus. Þess vegna verður þessi pistill mitt síðasta innlegg varðandi síldina og þverunina í Kolgrafarfirði. Ljóst er að ákveðið var að beita sýndaraðgerðum í Kolgrafarfirði nú í haust þrátt fyrir verulega hættu á stórfelldu umhverfisslysi. Þeir sem ábyrgðina bera sluppu fyrir horn en það er ekki þeim að þakka. Ljóst er að þverunin er vandamálið og þeir verkfræðiútreikningar sem lágu þar að baki. Það er alveg sama hvað menn reyna til að horfa fram hjá þessari staðreynd. Vandamálið verður til staðar meðan þverunin er óbreytt. Hvers vegna síldin hefur ítrekað valið þennan stað til vetrardvalar vita menn ekki. Samt hefði Hafrannsóknarstofnunin átt að beina fjármagni og mannskap til rannsókna á síldinni meðan hún var í Breiðafirði. Það var ekki gert. þeir hafa engan áhuga á atferlis eða umhverfisrannsóknum. Þeir álíta sjóinn eitt allsherjar fiskabúr þar sem þeir geti stjórnað framleiðslu á fiski til slátrunar. Við sem ekki trúum á fiskatalningarfræði álítum þetta dæmi um geðveikishugmyndir líkanasmiða sem á ekkert skylt við fiskifræði eða vísindalega vinnu.
Eftir stendur að búið er að breyta hegðunarmynstri síldarinnar með sprengihvellettum og háhyrningaóhljóðum þannig að alls óvíst er hvað verður nú um eftirlifandi stofn þennan vetur. Ef síldin lifir þetta af þá mun sagan endurtaka sig næsta haust. Og öll haust þar til einhver ráðamaður sýnir þann kjark að viðurkenna að þverun fjarðarins voru verkfræðileg mistök og það verði að standa öðruvísi að þessari þverun og öllum öðrum áformum um þveranir fjarða í framtíðinni. Það er sá eini lærdómur sem á að draga af þessum endurteknu umhverfisslysum.
![]() |
Háhyrningatóngjafi gæti nýst síðar til forvarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)