23.11.2014 | 17:31
Víkingaheimar í Reykjanesbæ
Slóð spillingar Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er vörðuð góðum ásetningi eða hvað? Nú er upplýst að Víkingaheimar, sem er fyrirtæki sem Árni Sigfússon kom á laggirnar með fjármunum úr sjóðum Reykjanesbæjar til að bjarga vini sínum úr Eyjum undan persónulegu gjaldþroti, hefur alltaf verið rekið með tapi í þau 5 ár sem það hefur verið rekið. Og tapreksturinn er fjármagnaður með lánum! Er þetta ekki lýsandi dæmi um fjármálasnilli sjálfstæðismanna? það skiptir ekki máli í þessu sambandi að Gunnar Marel er hinn vænsti maður og framdi stórvirki á íslenzkan mælikvarða, með smíði víkingaskipsins og siglingunni til Ameríku. Það var ekki Árna að hlaupa undir bagga með skattfé Reykjanesbæjar. Það var íslenzka ríkið sem átti að leysa fjárhagsvanda Gunnars Marels í þakklætisskyni fyrir ómetanlega landkynningu.
Munu stjórnmálamenn draga lærdóm af þessu eða verður þetta enn eitt spillingarmálið sem fellur í gleymskunnar dá.....
Og hvenær er að vænta ákæru á hendur stjórnendum SPKEF?
23.11.2014 | 14:27
Allir vilja nú Lilju trúað hafa
Stærstu hagstjórnarmistök Steingríms J voru að taka ekki mark á Lilju Mósesdóttur og því sem hún lagði til að gert yrði varðandi snjóhengjuna og hrægammasjóðina sem keyptu kröfur á föllnu bankana.
Nú virðist loksins vera að kvikna skilningur á nauðsyn þess að gera upp þrotabú föllnu bankanna með tilliti til þess virðis sem kröfurnar voru keyptar á en ekki bókfærðu virði. Að það hafi þurft "skattasérfræðing" til að benda á raunverulega og löglega leið segir allt um hæfi þeirra hagfræðinga og lögfræðinga sem hingað til hafa verið kallaðir til ráðgjafar.
Næsta skref ríkisstjórnarinnar hlýtur nú að vera að ráða Lilju Mósesdóttur til ráðgjafar varðandi útfærslu á uppgjöri við kröfuhafa þrotabúa föllnu bankanna svo hægt verði að afnema hér gjaldeyrishöft sem fyrst. En mikilvægast er að þetta verði gert með aðkomu allra þingmanna eins og gert var þegar neyðarlögin voru sett.
Ef það verður gert þyrfti að gefa sumum þingmönnum tækifæri til að segja af sér þingmennsku og kalla inn varamenn. Þar er ég að tala um ráðherra VG og SF í síðustu ríkisstjórn.