24.12.2014 | 20:09
Vesturfarinn Bjarni Lyngholt
Vinsamleg tilmæli
Ég veit - er ég dey - svo að verði ég grátinn.
þar verðurðu eflaust til taks.
En ætlirðu blómsveig að leggj´ á mig látinn
- þá láttu mig fá hann strax.
Og mig eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja,
en - segðu það heldur nú.
En vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það efalaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína,
en - mér kæmi hann betur nú.
Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
En ætlirð´ að breiða yfir brestina mína,
þá breidd´ yfir þá í dag.
Höf. Bjarni Lyngholt 1912
Bjarni Sigurðsson Lyngholt fæddist árið 1871, í Hjálmholti í Rangárvallasýslu, sonur Sigurðar Björnssonar og Rannveigar Bjarnadóttur. Bjarni flutti til Kanada árið 1903 og settist fyrst að í Winnipeg, en flutti síðar til Blaine í Washingtonfylki. Bjarni gerðist templari árið 1907 og starfaði með "Hekla Good Templars" í Winnipeg, Vancouver 1907-1929. Bjarni var bæði járnsmiður og skósmiður að iðn, vel lesinn, og tók þátt í menntalífinu. Bjarni var oft fenginn til að troða upp á samkomum með upplestri, söng og leik. Bjarni var trúmaður og aðhylltist kenningar Unitarianista. En þeir skilgreina Guð sem aðeins einn Guð en ekki þríeinan. (eins og til dæmis íslenzka þjóðkirkjan í dag) Þegar Bjarni komst á efri ár gerðist hann spíritisti. Hann gaf út ljóðabókina "Fölvar rósir" árið 1913. Ljóðið Tilmæli hér að ofan er frá árinu 1912. Bjarni var merkismaður og nokkuð vel metinn sem skáld. Til marks um það þá kostar nú eintak af ljóðabókinni $175 á netinu. Ekki kemur fram hvort það er ensk útgáfa en eitt eintak á frummálinu mun vera til á bókasafni í Toronto. Bjarni lézt árið 1942.
Heimild: af bókarkápu "Fölvra rósa"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)