11.3.2014 | 21:16
Um kostnaðarvitund og fégræðgi
Okkur er sagt að kostnaður Alþingis vegna skýrslu um fall sparisjóðanna muni fara yfir 600 milljónir. Þetta er ótrúlega há upphæð hvernig sem menn reyna að réttlæta hana og full ástæða til að láta fara fram rannsókn á gerð skýrslunnar! Þá þarf að tímamæla vinnuna og ganga úr skugga um að sérfræðingar hafi ekki margskráð tímann sem fór í þetta. Það er ekki nóg að tala um kostnað og ráðdeild ef kostnaðarvitund ráðamanna er jafn léleg og dæmin sanna. Því hvernig í ósköpunum getur lögfræðingur í ósköp ómerkilegu launakröfumáli sent umbjóðanda sínum reikning upp á, á sjöundu milljón eins og gerðist í máli Más seðlabankastjóra? Þessi upphæð er hróplega úr samræmi við allt sem tíðkast hjá venjulegu fólki og skemmst að minnast þegar héraðsdómur dæmdi lögmanni málskostnað upp á 400 þúsund sem Hæstiréttur svo staðfesti! Skyldi vera, að einhver gæðingurinn hafi fengið málinu úthlutað vegna þess að vitað var fyrirfram að Seðlabankinn yrði látinn borga?
Hvað finnst Guðlaugi Þór og Vigdísi Hauks um þetta? Mun einhver fjölmiðlamaður spyrja?
11.3.2014 | 16:23
Gunnar Nelson
Eftir að hafa horft á óklippt myndband af þessum bardaga Gunnars Nelson í London s.l föstudagskvöld, þá get ég ekki annað en tekið undir með þeim sem fordæma þessa tegund "íþróttar". Að horfa á hvernig Gunnar beitti olnboganum ítrekað sem sleggju á andlit mótherjans, er ekkert annað en árás með banvænu vopni. Og hengingartakið í restina hefði auðveldlega getað hálsbrotið mótherjann. Að svona bardagi fari fram í búri er táknrænt. því bardagamennirnir eru eins og dýr. Að hampa Gunnari Nelson sem þjóðhetju og keppnisgreininni sem íþrótt eru mikil öfugmæli. Miklu nær væri að sameinast um að fordæma þessa bardagagrein og helst banna alfarið að hún sé iðkuð hér á landi , hvað þá að leyft verði að keppa í henni. Gunnar sjálfur veit hversu hættulegt þetta getur verið. Nýfarinn að keppa eftir 12 mánaða hlé vegna alvarlegra meiðsla sem hann varð fyrir.
Við erum flest sammála um að draga úr slæmum áhrifum sem ofbeldistölvuleikir geta valdið. Að eitthvað annað eigi að gilda um Gunnar Nelson er hræsni.