2.3.2014 | 19:24
Orð skulu standa
Fátt er nú í dagskrá RÚV sem vekur áhuga. því var það með talsverðri eftirvæntingu sem ég settist niður í gærkveldi til að horfa á Orð skulu standa. En við lá að undirritaður skipti strax yfir á DR1 þegar stjórnandinn hóf þáttinn með söng! Ég geri kannski of miklar kröfur en í guðanna bænum Karl Th. ekki syngja í sjónvarpi aftur! Og ekki bara þú heldur líka Pálmi Sigurhjartarson. Þið eruð báðir álíka litlir söngmenn og ættuð að fá hæfileikafólk til að sjá um þann hluta. Það var beinlínis pínlegt að hlusta á Pálma enda greinilegt að Þórunn Lárusdóttir ætlaði varla að trúa sínum eigin eyrum þegar Pálmi raulaði hvert stefið af fætur öðru. Og Guðmundur Pálsson! Af hverju sagðir þú að hann kynni að syngja? Varstu að gera grín að honum? Guðmundur er ekki einu sinni góður útvarpsmaður. Til þess vantar hann raddstyrkinn. Menn sem hljóma eins og Árni Finnson ættu að finna sér annan starfsvettvang en útvarp.
Að þessu frátöldu þá fannst mér þátturinn renna nokkuð liðlega en það var þó meira liðunum að þakka en þinni stjórn Karl. Þú virkaðir óöruggur en það er galli sem slípast af, ef framhald verður á þessum þáttum. Vonandi verður það því það er full þörf fyrir svona þátt í ríkissjónvarpinu og þrátt fyrir hið pólitíska útvarpsráð þá vona ég að þeir noti ekki þína pólitísku fortíð gegn þér. En þú mættir svo sem að meina lausu skipta út Guðmundi Steingrímssyni. Davíð Þór stóð sig vel í útvarpsþáttunum og ég myndi vilja sjá hann aftur ef framhald verður á þessu hjá þér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2014 | 18:19
Á bókamarkaðinum
Á hinum árlega markaði bókaútgefenda, sem í ár er staðsettur undir stúkunni í Laugardal, kennir ýmissa grasa. Ég kaupi allar mínar bækur á svona mörkuðum af því ég neita að versla bækur á uppsprengdu verði bókavertíðarinnar fyrir jólin. Enda held ég því fram að hin eðlilega verðlagning komi ekki í ljós fyrr en eftir jólagjafaflóðið. En með eðlilegri verðlagningu á ég ekki við flata lækkun yfir línuna, heldur hvernig bóksalar verðleggja lagerinn, sem þeir sitja uppi með eftir vertíðina og hina fölsku eftirspurn, sem þeir búa sjálfir til með auglýsingum og "verðlaunaveitingu"
Sem dæmi þá geta þeir sem ekki tímdu að kaupa bók Steingríms J á 6-7 þúsund fyrir jól fengið hana á 2000 krónur núna meðan Ár Drekans hefur miklu betur haldið verðgildi sínu og er verðlögð á 3.200 krónur sem er mjög lítill afsláttur. Ég fylgist vel með svona vísitölu því fólk lætur ekki plata sig. Lygaþvælan í Steingrími J er ekki meira en 2000 króna virði. Það segja bókasafnarar og bóksalar verðleggja eftir því. Fleiri pólitíkusar eru líka lágt metnir á bókamarkaði. Styrmir fæst fyrir minna en helming og Þráinn Bertelsson er þar á hrakvirði eða 290 krónur. Hins vegar er Jón Kalmann tiltölulega dýr eða að meðaltali 1490 krónur allar eldri bækurnar. Líka kiljurnar sem mér finnst órökrétt.
Þetta árið fór ég með lista yfir bækur sem mig vantaði en það kom ekki í veg fyrir að ég þurfti að skipta aftur nokkrum bókum sem ég hafði keypt í fyrra líka. Og ekki má gleyma fornbókabásnum. Þar er hægt að fá marga perluna fyrir 400 krónur.
Almennt þá mæli ég með að fólk kíki inní Laugardal. Því góð bók göfgar andann og maður þarf ekki að hlusta á ömurlega stjórnmálaumræðuna meðan lesið er.
2.3.2014 | 17:34
Haustlaukar
Síðasta sumar tíndi ég saman lauka sem lágu ofan á, í beðinu, þar sem túlípanarnir höfðu blómgast í fyrravor. Ætlunin var að planta þeim síðastliðið haust eins og fræðin segja að gera eigi. Einhvern veginn fórst það fyrir og ég gleymdi þeim í ísskápshurðinni. Í gær tók ég þá og þar sem þeir voru þegar farnir að spíra þá stakk ég þeim niður í nokkra potta og ker úti í garði.
Ef þeir blómstra á réttum tíma í vor má ég þá draga þá ályktun að haust sé teygjanlegt hugtak?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)