21.2.2016 | 16:23
Bændasósialismi
Fulltrúi sérhagsmunanna no.1 á Alþingi Íslendinga, Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti fyrir nokkru að hann væri að vinna að nýjum búvörusamningi þar sem ætlunin væri að afnema kvótastýringu í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Ef þetta hefði náð fram að ganga þá hefði verið hægt að kalla nýjan búvörusamning tímamótasamning. En nei, auðvitað gat þetta aldrei orðið. Það gleymdist nefnilega að bera málið undir Þórólf Gíslason og fá stuðning hans við stefnubreytingunni. Afleiðingin er vondur samningur fyrir ríkið. Vondur samningur fyrir bændur og áframhaldandi einokun afurðastöðvanna. Ennfremur er búið að setja varnagla við afnámi kvóta því tryggt er í samningnum að ríkið mun greiða fullt verð fyrir innlausn kvóta eftir 2020. Þetta þýðir að eigendur framleiðslukvóta í mjólk og kjöti fá tvöfaldar beingreiðslur fyrir að leyfa ríkisvaldinu að auka frelsi í greininni! Það er ekki eins og það sé verið að borga einhvern út. Nei menn munu hafa fullt frelsi til að auka tekjur sínar af bújörðunum en vera jafnframt á fullum listamannalaunum á kostnað skattgreiðenda. Þetta er ríkissósialismi af verstu gerð og grímulaus sóun á almannafé.
En það er áreiðanlega ekki á vitorði allra hvernig beingreiðslum er háttað, alla vega ekki í sauðfjárrækt. En þar hefur mönnum verið borgað fyrir ærgildi en ekki þurft að eiga nema 0.7 vetrarfóðraðar ær á móti. Þetta er sambærilegt og að Sjúkratryggingar greiddu Ásdísi Höllu fyrir 100 legurými en hún þyrfti ekki að leggja til nema 70! Fyndist mönnum það í lagi?
3.6 Til að fá fullar beingreiðslur þarf framleiðandi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Þetta skilyrði fellur niður frá og með 1. janúar 2021.
3.8 Handhafar greiðslumarks geta óskað eftir innlausn á greiðslumarki sínu frá gildistöku samningsins til 31. desember 2020. Ríkissjóður skuldbindur sig til að kaupa greiðslumarkið á núvirtu andvirði beingreiðslna tveggja næstu almanaksára eftir að innlausnar er óskað samkvæmt ákvæðum samningsins. Matvælastofnun annast innlausn greiðslumarks. Þeim fjármunum sem þannig losna síðar á samningstímanum skal ráðstafað á aðra liði samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2016 | 02:19
Ég skal vera Björn
Framsóknarmenn með forsætisráðherrann í fylkingarbrjósti eru greinilega komnir í kosningaham þótt enn séu full 2 ár eftir af kjörtímabilinu. Einn ráðherrann er búinn að ráða sér kosningastjóra og Hallur Magnússon farinn að skrifa athugasemdir. Þetta eru eins áreiðanleg merki um að Framsókn sé komin í kosningaham eins og koma lóunnar að vori. Gott og vel. Það er þeirra mál. Þeir verða dæmdir af verkum sínum eins og allir.
En það pirrar mig að forsætisráðherrann skuli vera svona pirraður út í Kára Stefánsson að hann hafi ráðið almannatengil flokksins í að dreifa skít um Kára Stefánsson!Þetta segir Kári og ég trúi honum. Hann hefur enga ástæðu til að ljúga um samskipti sín við Inga Frey Vilhjálmsson á Stundinni. En sá piltur var höfundur flökkusögu sem gengur nú um netheima og er ætlað að sá efasemdum um heilindi og framgöngu Kára Stefánssonar í sambandi við gjöf Íslenskrar Erfðagreiningar á jáeindaskannanum til LSH. Og það var meira að segja gengið svo langt að blanda bróður Kára inní málið til að láta gerninginn lykta af frændhygli og spillingu og draga þannig úr trúverðugleika Kára Stefánssonar. Þessi skrif Inga Vilhjálmssonar eru forkastanleg og á skjön við góða blaðamennsku og hann verður að skýra þau nánar. Ef Framsóknarflokkurinn telur að gagnrýni Kára á of lágt framlag til heilbrigðismála komi til með að skaða flokkinn í næstu kosningum þá er þeim í lófa lagið að hækka framlag ríkisins verulega í stað þess að styrkja bændur um 140 milljarða samkvæmt nýjasta velgjörðargjörningi landbúnaðarráðherrans sem er jú varaformaður flokksins.
Flokkur með góða samvisku þarf ekki þjónustu PR ráðgjafa. Og forsætisráðherra með sjálfsvirðingu og sæmilega góða geðheilsu er ekki að munnhöggvast við fólk út í bæ og alls ekki í gegnum samfélagsmiðla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2016 | 00:24
Er Stjórnarskráin jaðarmál?
Annað hvort eru menn enn að melta þessar 3 breytingar sem hugmyndir eru uppi um að gera á stjórnarskránni eða að það er bara enginn áhugi fyrir þessu máli! En það er víst lögmál að þeim mun ómerkilegri sem mál eru, þeim mun meiri umræðu fá þau. Og þetta er í réttu hlutfalli við gáfnafar landmanna eða öllu heldur hjarðhugsunina sem lætur stjórnast af trendum á samfélagsmiðlunum.
Þessu verðum við að breyta. Við megum ekki láta fámenna hópa stjórnmálamanna, embættismanna og fræðimanna standa í vegi fyrir þeim lýðræðisumbótum sem kallað var eftir árið 2009 og sem leiddi af sér skipan á fulltrúum í stjórnlagaráðið alræmda, eftir tilræði Hæstaréttar til að ónýta kosninguna til stjórnlagaþings.
Öllum sem hafa velt fyrir sér stjórnskipuninni hér á landi, óháð stjórnmálahagsmunum, er ljóst, að henni þarf að breyta í grundvallaratriðum. Það er ekki hægt að sætta sig við að vilji meirihluta kjósenda, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána, sé hunsaður af stjórnarherrum sem njóta í raun aðeins rúmlega 30% trausts kjósenda samkvæmt síendurteknum könnunum.
Í þessu ljósi er svo sem ekki margt sem þarf að segja um þessar 3 breytingatillögur sem litu dagsins ljós í fyrradag eftir rúmlega 2 ára yfirlegu tuga manna úr þingflokkum, ráðuneytum og frá fræðasamfélaginu. Þessar tillögur breyta í raun litlu og engin þörf á að bæta þeim við núverandi stjórnarskrá. Stjórnarskrána á ekki að skrifa á lagatæknimáli sem enginn skilur. Sú frumhugsun var greinilega sniðgengin við samsuðuna á þessum 3 frumvörpum. Að það þurfi til dæmis að lesa í gegnum nokkrar blaðsíður af fylgiskjölum til að sjá að merkingin þjóðareign þýðir alls ekki endilega að þjóðin eigi fiskinn heldur eins og segir í skýringagrein 3.1.2 :
Í 2. málsl. 2. mgr. hinnar nýju greinar er áréttað að enginn geti fengið þau gæði sem teljast til þjóðareignar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þau eða veðsetja. Tekið skal fram að ákvæðið mun ekki sjálfkrafa raska þeim óbeinu eignarréttindum sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti sem þegar kann að hafa verið stofnað til gagnvart landsréttindum og auðlindum sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast í þjóðareign, sbr. það sem segir um réttarvernd slíkra heimilda í köflum 4.5 og 4.6.
Er boðlegt að leggja svona fram við þjóðina? Og ég er líka á móti þessari útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðsluréttinum. Hvernig geta menn litið fram hjá icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni og sett inn fyrirvara eins og þennan?:
Fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að fram-fylgja þjóðréttarskuldbindingum verða ekki borin undir þjóðina samkvæmt þessari máls-grein.
Samkvæmt þessu verður ekki hægt að hafna næstu nauðasamningum eða aflátssamningum sem einhverjum brjálæðingum í ríkisstjórn Íslands, dettur í hug að binda þjóðina með í framtíðinni Svona er náttúrulega ekki boðlegt. Þjóðinni er vel treystandi fyrir öllum sínum ákvörðunum hvers eðlis sem þær eru og því eru allir fyrirvarar óþarfir.
Og til að jarða allt jafn snyrtilega þá sé ég ekki hvar þessi almenna viljayfirlýsing um náttúru og umhverfi á heima í Stjórnarskránni. Fyrst Stjórnarskráin er grundvöllur að allri annarri löggjöf þá þarf hún ekki að innihalda svona marklausa frasa:
Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.
Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.
Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.
Hverjir voru að biðja um svona ákvæði í Stjórnarskrána? Ef hér hefði verið lagt til bann við mengun og bann við sölu á landi eða landsréttindum til útlendinga þá hefði það verið eitthvað til að ræða í alvöru en þessa marklausu viðbót getum við slegið útaf borðinu án frekari umræðu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)