Vond hugmynd að vegskatti.

Allt frá því að Kristján Möller kom fyrstur fram með hugmyndina að vegsköttun út frá Reykjavík,  hefur hugmyndin ekkert breytzt. Hugmyndin er, að allir borgi jafnt óháð því álagi eða sliti sem mismunandi ökutæki valda.  Þessari hugmynd Kristjáns Möllers var snarlega hafnað en er nú orðin að pólitískum uppvakningi vegna áráttuþráhyggju eins manns. Jóns Gunnarssonar.

Þrátt fyrir að þungaflutningar á vörum og fólki eigi stærstan þátt í eyðileggingunni á burðarþoli veganna eru ekki uppi neinar áætlanir um að láta þá aðila borga hlutfallslega fyrir þann skaða og slit sem þeir valda. Ástæðan er pólitík.  En almenningur á sér engan málsvara og því er honum ætlað að bera byrðarnar enn og aftur í þessum ósvífnu hugmyndum Jóns Gunnarssonar og samherja hans á þingi. Til marks um valdníðsluna þurfti að beita hrossakaupum á Alþingi til að fresta þessu máli fram yfir áramót.  

En nú er lag fyrir almenning til að mótmæla þessari gjaldtöku í eitt skipti fyrir öll. Því það gengur einfaldlega ekki að almenningur sem keyrir út og inn um höfuðborgarsvæðið við Faxaflóa borgi fyrir fiskflutninga um Súðavíkurhlíð eða farþegaflutninga Kynnisferða um Gullna þríhyrninginn. Ekki nota tilfinningarök eins og öryggi og slysahættu til að afla þessari hugmynd fylgis. Ef vegirnir eru svona hættulegir þá þarf að lækka hraðann og minnka öxulþungann.  En það kemur ekki til greina vegna þess að hagsmunir flutningafyrirtækja vega þyngra heldur en hagsmunir og öryggi almennings, í afstöðu þingmanna sem öllu ráða.

Ég bý í Þorlákshöfn og það kemur mér spánskt fyrir sjónir að vegurinn um Þrengslin falli undir hugmyndina um vegtoll eins og haft er eftir Elliða bæjarstjóra á mbl.is.  Hins vegar hefur þungaumferð aukist gríðarlega og sjálfsagt að skattleggja hana með framtíðarviðhald veganna í huga.

Vegskattur er vond hugmynd sem verður bara verri eftir því sem Jón Gunnarsson hamast meir. Álagning þungaskatts er eina rétta leiðin til að bæta fyrir notkun.


Hver stjórnar Reykjavík?

Sannleikurinn um stjórnleysið í borginni opinberast nú alþjóð í svartri skýrslu Innri Endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna braggamálsins alræmda.  Niðurstaðan ætti undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera núverandi meirihluta hvatning, að taka á þeirri borgarstjórakrísu, sem hrjáð hefur borgina síðan Ingibjörg Sólrún lét af því starfi fyrir bráðum 16 árum. Á þessum tíma hafa 8 mismunandi óhæfir einstaklingar gegnt þessu ábyrgðarmikla starfi af mismiklu vanhæfi!  Flestir héldu að botninum hefði verið náð þegar  Ólafur F. var gerður að borgarstjóra, en síðan þá hefur krísan bara dýpkað. Fyrst með Jóni Gnarr og núna með Degi Bergþórusyni,  sem þrátt fyrir heilsuleysi neitar að stíga til hliðar.  Hversu alvarleg getur forystukrísa eins stjórnmálaflokks verið svo hún sé stærri en hagur 100 þúsund manna bæjarfélags?

Ég legg til að Dagur stígi til hliðar eða honum verði ýtt til hliðar og hæfur einstaklingur ráðinn til að koma skikki á hlutina í ráðhúsinu. Samfara hætti borgarfulltrúar beinum afskiptum af rekstri og sinni eingöngu stefnumótun.Dagur getur þá áfram sinnt fjölmiðlasamskiptunum eins og undanfarin ár. Það virðist henta honum best.


mbl.is Áttu að kalla eftir upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband