17.9.2010 | 21:36
Stofnun Samfylkingar jafnaðarmanna var mistök
Þegar sannir jafnaðarmenn flýja flokkinn sinn í hundraðatali og afneyta honum opinberlega í ræðu og riti þá er eitthvað að. Þegar við horfum yfir hið pólitíska svið og reynum að átta okkur á hvað fór aflaga í landsmálunum á undanförnum árum, hljótum við að líta til frammistöðu pólitískt kjörinna fulltrúa okkar og bera saman orð og gerðir. það er krystaltært að hugsjónum jafnaðarmennskunnar var varpað fyrir róða þegar Samfylkingin var stofnuð. Þá völdust strax til forustu menn og konur sem höfðu það eitt að markmiði að auka sín eigin völd. Og til að ná þessu markmiði þurfti þetta fólk að eyða milljónum ef ekki milljónatugum króna sem það átti ekki handbært í prófkjör og kosningar. Þetta nýttu braskarar sér og sáu sér leik á borði að fjármagna kosningabaráttu valinna manna og kvenna sem þóttu líkleg til áhrifa. Afleiðingin er kunn. Útrásarvíkingar og bankamenn tóku yfir hið pólitíska vald og gerðust hinir raunverulegu stjórnendur. Þetta er draugur fortíðarinnar sem nú stígur fram og ásækir Samfylkingarþingmennina. Sama hvað þeir semja margar Marðar-langlokur þá geta þeir ekki svarið af sér tengslin við hrunkvöðlana (og þess vegna er þeim það svo þungbært að setja fyrrverandi ráðherra á sakamannabekk). Afleiðingin getur ekki orðið önnur en að Samfylkingin liðist í sundur og hinn sturlaði lýður reyni að ná áttum. Hægri kratarnir geta þá gengið til liðs við nýjan hægriflokk klofningsmanna úr Sjálfstæðisflokknum og kellingarnar geta stofnað sína eigin Kvennahreyfingu þar sem aðeins eitt mál verður sett á oddinn, þ.e forræðishyggja. Ögmundararmur VG gæti svo gengið til liðs við þær í fyllingu tímans. Þessi umbrot munu svo gera endurreisn Alþýðuflokksins að raunhæfum möguleika. Þannig leitar allt til uppruna síns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.