3.10.2010 | 22:04
Óendanleg eiginhagsmunapólitík
Það er segin saga að í hvert einasta skipti og ríkið dregur úr þjónustu eða hækkar skatta þá reka eiginhagsmunaöflin upp vein eins og stunginn grís og þá eru fjölmiðlar fljótir að reka mækinn upp í nefið á viðkomandi. Nýjasta uppákoman er vælið í nýkjörnum formanni ungra jafnaðarmanna. En hún vælir sárt undan fyrirhugaðri skerðingu á fæðingarorlofi. Kannski meinar hún ekkert með þessu væli og heldur bara að þetta sé hennar hlutverk. En hvernig væri að hagsmunaaðilar hvar í hópi sem þeir standa, axli nú smá ábyrgð á þeim niðurskurði sem framundan er og hætti að mótmæla en komi þess í stað með tillögur að auknum tekjustofnum eða augljósum sparnaði sem allir gætu fellt sig við. Við þessi fámenna þjóð þurfum að gera þjóðarsátt um forgangsröðun hjá ríkinu. Við eigum ekki að eftirláta stjórnmálamönnunum að deila og drottna. Nýleg könnun sýnir að meirihluti landsmanna vill aðskilnað ríkis og kirkju. Þar er hægt að spara 1 milljarð. Meirihluti landsmanna vill uppskurð á búvörusamningi, þar væri hægt að spara einhverja milljarða. Meirihluti landsmanna vill hætta að borga fyrir RUV, þar er sparnaður upp á 3-4 milljarða. Svo má sameina háskóla. Katrín hefur ekkert vit á mennta eða skólamálum samkvæmt nýjustu fréttum, svo þar þarf hún leiðsögn frá þjóðinni. Svo má leggja niður mörg sendiráð og nýta þess í stað funda og samskiptatækni á netinu. Sjálftöku stjórnmálamanna á fé þarf að banna með lögum t.d fjárframlög til flokka og fjárframlög til aðstoðarmanna þingmanna. Eins má spara í ferða og risnukostnaði ráðuneyta. Og síðast en ekki síst þarf að endurskoða atvinnuleysistryggingakerfið og bótakerfi Tryggingarstofnunar. Hætta þarf allri tekjutengingu og í stað bóta þarf að útvega vinnu. Það eru fjölmörg störf í samfélagsþjónustu sem þarf að vinna t.d við umönnun og félagsþjónustu við aldraða, heimahjúkrun, í leikskólum og í skólum o.s.frv. Kjarninn í því er að við verðum að hætta að framleiða öryrkja. Eins þarf að endurskoða fangelsismálastefnuna frá grunni. Við eigum ekki að búa jafn vel og við gerum að þessum lögbrjótum. það á ekki að gera afplánun eftirsóknarverða. Miða á við lágmarksþægindi og láta fanga vinna við lagningu járnbrautateina. Það gæti komið í stað líkamsræktarinnar sem þeir stunda nú innan veggja til að vera klárir í handrukkun og annan ofbeldisverknað þegar þeir losna út. Og ekkert hvítflibbafangelsi takk! Ef hvítflibbarnir vilja borga fyrir aukin þægindi þá er það í lagi en að bjóða upp á 4 stjörnu hótel fyrir þá er hneyksli. Eins og sést þá hef ég nefnt margt sem mætti skera niður en þjóðarsáttin þarf að snúast um hvernig þjóðfélag við viljum hafa og hvaða samfélagsþjónustu eðlilegt er að krefjast af ríkinu. Er til dæmis almennur vilji til að samfélagið standi straum af ættleiðingum frá útlöndum? Ég held ekki. Og er eðlilegt að samfélagið borgi fyrir barneignir? Ég held ekki. Ef við hefðum ekki svona handónýta verkalýðshreyfingu þá væri löngu búið að senda reikninginn vegna fæðingarorlofa til atvinnurekanda en ekki ríkisins. Er ekki eðlilegra að orlofssjóður launamanna borgi fæðingarorlof í stað ríkissjóðs? Ég hefði nú haldið það. Og ég hefði viljað sjá stærri hluta af lífeyrissparnaði renna í svona greiðslur heldur en að láta lífeyrissjóðina gambla með það. Það eru nefnilega fáir sem njóta ávaxtanna af lífeyrissparnaðinum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.