4.10.2010 | 22:22
Skilaboðin voru skýr
Það var magnað að standa niðri á Austurvelli í kvöld og taka þátt í þeim þöglu mótmælum sem þar fóru fram. Þöglu í þeim skilningi að ekki voru höfð í frammi öskur eða ókvæðisorð eða slagorð kölluð. Og þessi mótmæli voru ólík fyrri mótmælum að því leyti að trumbuslátturinn var ótaktviss, rísandi og hnigandi til skiptis vegna þess að hér voru ekki atvinnumótmælendur VG í fyrirrúmi. Mótmælendur voru sannkallaður þverskurður þjóðarinnar þar sem flestir létu nægja að horfa þögulir en ógnandi í átt að Alþingishúsinu. Og það verða stjórnvöld og þingmenn að skilja að fólkið var ekki samankomið til að lýsa yfir stuðningi við stjórnvöld. Fólkið er búið að fá nóg. Fólkið vill kosningar og nýja stjórn. Og það er mikill misskilningur hjá Sjálfstæðismönnum á þingi að túlka mótmælin sem stuðning við þeirra málatilbúnað. Ólöf Nordal var ekki að ná þessu í sinni ræðu í kvöld. Sjálfstæðismenn bera mestu ábyrgð á hruninu á meðan Samfylkingin og Vinstri Grænir bera ábyrgð á að bregðast þeim vonum sem til þeirra voru bornar. Og þann trúnað er ekki hægt að endurvinna líkt og Jóhanna og Steingrímur og aðrir ráðherrar virðast halda. Þau fengu sitt tækifæri og þau brugðust. Þau verða að skila sínu umboði annars verða þau borin út. Þetta virtust þingmenn Hreyfingarinnar einir alþingismanna skynja í kvöld. Og þótt þau hafi öll staðið sig vel þá held ég að allir geti verið sammála um að Þór Saari bara stækkar og stækkar við hverja ræðu. Á meðan Steingrímur smækkar og smækkar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:16 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála, það var ótrúleg upplifun að finna samkenndina á Austurvelli í gær, loksins er landinn búinn að fá nóg.
Ég sé að þú ert sammála mér að mörgu leyti, hvað finnst þér um síðustu bloggfærslu mína?
Ísdrottningin, 5.10.2010 kl. 12:02
Sæl Ísdrottning, og takk fyrir innlitið. jú ég las færsluna þína í kjölfarið á athugasemdinni hjá Páli. það sem skilur kannski á milli er að þú virðist ennþá bera smá traust til stjórnmálaflokkanna og núverandi þingmanna fjórflokksins. Ég aftur á móti vil algera uppstokkun og leggja gömlu flokkana niður. Ég vil kosningar strax og þeir sem lýsa yfir tafarlausum lýðræðisumbótum munu fá mitt atkvæði.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.10.2010 kl. 18:14
Nei, ég get ekki sagt að ég beri traust til þeirra, hugsunin var að með því að það kæmu tveir úr hverjum flokki (Myndi samt ekki vilja neinn úr forystu flokkanna *hryllir sig*) þá væri verið að fullnægja einhverju fyrir þá sem enn einhverra hluta vegna bera traust til þeirra ;)
Nýjar kosningar myndu þýða algjöran sigur sjálfstæðisflokksins, við erum búin að prófa þann pakka og sjáðu hvert það kom okkur.
Ég skil ekki fyrir mitt litla líf af hverju fólk í alvörunni styður sjálfstæðisflokkinn, samfylkinguna, framsókn eða vinstri græna eftir það sem á undan er gengið, nema að þar séu einhverskonar masókistar á ferð.
Það er þetta fólk sem gerir ríkisstjórninni kleyft að slá skjaldborg um bankana í stað heimilanna með staðfastri blindu sinni.
Ísdrottningin, 5.10.2010 kl. 18:35
hehe ef kjósendur eru svo heilabilaðir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn yfir sig þá verðum við að una því. En ég ber meira traust til almennings en það. Held að 50% kjósenda sé búin að missa traust á fjórflokknum eða á mörkunum. það er ekkert að marka þetta skoðanakönnunarfylgi. Fólki er styllt upp við vegg og það svarar kannski af gömlum vana. Ef Hreyfingunni vex fylgi og þau fá til liðs við sig gott fólk þá kvíði ég engu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.10.2010 kl. 20:09
Það sem ég hef verið að skoða af spjalli á netinu þá virðist fólk sem kaus núverandi ríkisstjórn svo ósátt að það ætlar unnvörpum að kjósa sjálfstæðisflokkinn núna. Þegar búið er að bæta þeim við alla þá sem skildu heilann eftir í dyragættinni þegar þeir létu slá sig blindu við inngöngu í sjálfstæðisflokkinn þá eru þetta orðið helvíti margir.
Það virðist vera nóg af einfeldningum á landinu, því miður.
Ef þú trúir mér ekki mæli ég með að þú leggist í rannsóknir, gleggsta dæmið um þetta er t.d. að finna á stöðum eins og hugi.is og er.is
Ísdrottningin, 5.10.2010 kl. 22:32
Ég fann eftirfarandi niðurstöður á síðu Gallup
Litlar breytingar á fylgi flokka
07.10.2010Helstu breytingar á fylgi flokka á landsvísu milli ágúst og september eru þær að þeim sem segjast ætla að kjósa Samfylkinguna fækkar um tvö prósentustig milli mánaða, en liðlega 23% segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag. Fylgi annarra flokka er nær óbreytt milli mánaða. Ríflega 35% segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, nálægt 21% segjast ætla að kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, nálægt 12% Framsóknarflokkinn og um 9% segjast ætla að kjósa aðra flokka. Þar af ætla nálægt 4% að kjósa Hreyfinguna og tæplega 2% að kjósa annars vegar Borgarahreyfinguna og hins vegar Besta flokkinn.
Nálægt 13% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og nær 17% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosningar færu fram í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina breytist ekki milli mánaða en um 40% styðja stjórnina.
Ísdrottningin, 7.10.2010 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.