8.10.2010 | 12:21
Stjórnin verður að víkja
Skrítin er sú staða sem nú er komin upp varðandi skuldavanda heimilanna. Nú allt í einu fyrir atbeina mótmælenda er ríkisstjórnin tilbúin að gera eitthvað fyrir skuldarana sem urðu fórnarlömb forsendubrestsins við efnahagshrunið og afleiðingar þess. Þótt fyrr hefði verið segja margir og tek ég undir það. En menn skulu líka gera sér grein fyrir að aðgerðarleysið hingað til var meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar. Allt sem ekki hefur verið gert er ekki neinum um að kenna nema ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ráðgjöfum hennar. Þess vegna er fáránlegt að þessi sömu stjórnvöld ætli sér nú að leiðrétta allt ranglætið, sama hvað það kostar. Nú allt í einu á að stoppa öll nauðungaruppboð og fara að beita stjórnvaldsaðgerðum til lausnar vandanum. Þetta er slæm stjórnsýsla. Margt ungt fólk mun missa sitt húsnæði og verða gjaldþrota vegna þess að það tók allt að láni og átti lítið eigið fé. þetta fólk þarf nú að byrja uppá nýtt og ekkert við því að segja. En hérna geta frumvörp Lilju Mósesardóttur komið þessu fólki til bjargar. Skila lyklunum og geta svo byrjað aftur að eignast hluti eftir 4 ár er ekki slæmt. Að skrúfa ofan af öllum skuldum eins og talað er um núna mun bara lengja í snörunni varðandi þá sem eru tæknilega gjaldþrota í dag. Höfuðstólslækkun mun fyrst og fremst gagnast þeim sem betur eru stæðir. Þetta hefur til dæmis ráðið afstöðu Steingríms J og réð afstöðu Gylfa Magnússonar og Árna Páls. Þetta var pólitískt steitment og grunnurinn í efnahagsstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðar. 200 milljarða niðurfærsla gengur ekki. Fyrst fjármálakerfið réð ekki við 70 milljarða leiðréttingu gengislánanna, hvernig á þá að vera hægt að leiðrétta höfuðstól lána um 200 milljarða? Getur einhver svarað því? Trúir einhver því að við komumst frá svona hruni jafn sett og fyrir hrun? Auðvitað ekki. Hér sprungu bólur sem höfðu verið blásnar út og þegar þær sprungu þá varð þessi samdráttur sem er einkenni kreppunnar. Ekkert flókið og auðskilið nema fyrir þá sem ennþá eru i afneitun og halda að góðærið hafi verið á góðum grunni reist. Það sem er þó hægt að gera fyrir utan að gera frumvörpin hennar Lilju að lögum er í fyrsta lagi, að leiðrétta hér fasteignamat til samræmis við verðrýrnun fasteigna, Í öðru lagi að setja lög um hámark húsaleigu og í þriðja lagi að beita húseigendur, sem eiga íbúðarhúsnæði sem ekki er leigt út, viðurlögum. Bankar, fjármálastofnanir og Íbúðarlánasjóður eru bullandi sek um samráð til að halda hér uppi of háu leiguverði með því að takmarka framboð. Hér standa hundruð fasteigna auð af þessum sökum og glæpamönnum er gert kleyft að stunda okurleigustarfsemi. Þetta geta stjórnvöld stoppað. Eins verður að láta framboð og eftirspurn á fasteignamarkaði, leiðrétta strax þetta allt of háa fasteignaverð sem bankar og íbúðalánasjóður bera ábyrgð á. Þessu geta stjórnvöld breytt. Og auðvitað geta stjórnvöld komið böndum á bankana, rofið þessa bankaleynd, gert bönkum að skilja á milli fjárfestingarstarfsemi og almennrar bankastarfsemi, þau geta líka afnumið falskar vísitölur og sett þak á verðtryggða vexti. Þetta allt geta stjórnvöld gert með almennum lagasetningum. Stjórnvöld eiga ekki að ógilda dóma hæstaréttar eða reyna yfir höfuð að hafa áhrif á frjálsa samninga. Það verður bara að hafa sinn gang. Við eigum að treysta réttarríkið, ekki grafa undan því með hvatvíslegum aðgerðum stjórnvalda. Við viljum ábyrg stjórnvöld með sýn á vandamálin og umfram allt lausnir. Á það hefur skort. Þessi ríkisstjórn var tekin í bólinu. Hún er hrædd og huglaus og hún er að framkalla aðra bankakreppu undir ógnunum reiðs almennings. Ef stjórnvöld hafa hlustað þá mega þau vita að krafan er að stjórnin fari frá. Krafan er ekki um annað hrun
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.