Patentlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja

Forsendan er að gjaldþrotalög verði endurskoðuð og tæknileg gjaldþrot viðurkennd (lyklafrumvarpið)

Með vísan í ógildingarheimildir samningalaganna má rifta öllum fjármálasamningum sem liggja að baki lánum landsmanna. Ég legg til að þetta verði gert og mönnum gert að semja um allar skuldir við sína lánadrottna á grundvelli forsendubrestsins sem varð við hrunið. Samhliða fari fram eigna og tekjukönnun sem höfð verði til hliðsjónar hvort lántaki eigi rétt á afskriftum og þá hvað miklum.
Þeir sem af einhverjum ástæðum vilja ekki koma að svona samningum, t.d vegna þess að þeir vilja ekki upplýsa um tekjur eða eignir, þeir aðilar fá enga leiðréttingu hvorki nú né síðar

Ekki verði tekið tillit til ábyrgðaskuldbindinga við þessa vinnu og réttur lánveitenda til að krefjast ábyrgðar af hendi 3. aðila afnuminn með lögum.

Markmiðið er að fá niðurstöðu í þetta ágreiningsmál. Við það skal miðað að þeir sem í dag skulda yfir 110% af markaðsvirði eignar fái að skila lyklum og kröfuhafar eignist þessar eignir og geti annaðhvort selt eða leigt. Ákveði kröfuhafar að leigja, fái fyrrverandi eigendur forgangsleigurétt til 2 ára

Það sem vinnst við svona aðgerð er:

1. Nákvæm skráning eigna og skulda landsmanna sem nýtist í hagtölum við að ná betri tökum
    á hagstjórninni.
2. Betri upplýsingar fyrir skattayfirvöld um tekjur og gjöld
3. lántakendur fá að semja um sínar skuldir miðað við greiðslugetu
4. Kröfuhafar taka á sig afföllin, ekki ríkið (sem er réttlátt því þeir fengu kröfurnar með afslætt)

 

Það sem er öðruvísi við þessa tillögu:

1. Hún leysir menn undan skuldbindingum án þess þó að afskrifa skuldir
2. Hún færir ábyrgðina á forsendubrestinum yfir á lánveitandann að stærstum hluta
3. Öll lán eru núllstillt, miðað við greiðslugetu
4. Markaðsvirði eigna verður endurmetið og leiðrétt
5. Fjármálakerfið öðlast meiri stöðugleika þegar búið verður að hreinsa út ónýt lán


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Flöt niðurfelling kemur ekki til greina af mörgum ástæðum.  En ekkert mælir gegn einhliða uppsögn lánasamninga með lagasetningu.Og þegar mönnum gefst tækifæri til að endursemja þá gefst líka tækifæri til að semja til lengri tíma og á lægri vöxtum.

Þeir sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu eftir leiðréttingu á markaðsvirði er ekki hægt að hjálpa. Þeir áttu lítið sem ekkert hvort sem er og tapa því litlu eigin fé.

þeim sem eru ennþá með jákvæða eiginfjárstöðu en eru á leið í þrot munu þessar aðgerðir koma til góða. Þeir geta líka sett skilyrði, annaðhvort að semja eða hætta að borga og þá lendir tapið á kröfuhafa

Þeir sem eru ekki í vandræðum fá enga niðurfellingu. Það er engin pressa á kröfuhafann að fella neitt niður. Hann á veðið og getur bara tekið það. Það mun skuldarinn ekki vilja

Og auðvitað á að setja þak á verðtryggða vexti. Verðtryggingin er vörn gegn ónýtri krónu en vextirnir eru sjálftaka fjármagnseigenda. Vaxtaþakið ætti að taka mið af meðalvöxtum helstu viðskiptalanda

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.10.2010 kl. 17:00

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Jóhannes, það er nóg að leiðrétta verðtrygginguna miðað við 1.1.2008. Það er rugl að talað sé um einhverjar niðurfellingar á höfuðstól. Þeir lántakar sem gerðu raunhæf greiðsluplön miðað við lántökuna í upphafi geta haldið sínu striki án þess að verða gjaldþrota. Hinir falla, en hefðu gert það hvort sem er.

Yrði verðtryggingin leiðrétt, þyrfti engum verðugum að hjálpa nema þeim sem hafa misst vinnuna.

Kolbrún Hilmars, 13.10.2010 kl. 17:29

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Kolbrún ég skil hvað þú átt við varðandi þá sem gerðu raunhæf greiðsluplön. Þeir falla í hóp 2 hér að ofan. En það er eitt að taka vísitölu úr sambandi og annað að gera afturvirkar leiðréttingar um fleiri mánuði og ár. Hér hefur kaupmáttur ekki rýrnað jafn mikið og verðlag hefur hækkað.

Kolbrún, þessi flata niðurfelling er lækkun á höfuðstól í reynd. Og afhverju að miða við 1.1.2008?  Þeir sem tóku lán eftir þann tíma hljóta að hafa vitað um gengisáhættu og óstöðugleika. Það er fólgin svo mikil mismunun í þessum tillögum HH að það er ekki hægt að kalla þær almennar. Ekki nema von að Guðmundur Ólafs hagfræðingur kalli samtökin Hagsmunasamtök sumra heimila.  Og meðan ég man varðandi viðtal við Steinþór Pálsson bankastjóra Landsbankans, þá er hann með hræðsluáróður varðandi Íbúðalánasjóð, en það voru bankarnir sem veittu 90 til 100% lán ekki íbúðalánasjóður. Niðurfelling og afskriftir lenda því fyrst og fremst á bönkunum. En þeir eru kannski búnir með borðið fyrir bárunni, vegna afskrifta til útrásarvíkinga og kvótagreifa svo þeir munu ekki í stakk búnir til að taka á sig þessar óhjákvæmilegu afföll, óháð almennri skuldaniðurfellingu eða ekki.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.10.2010 kl. 18:53

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

p.s Kolbrún, tækifærið til að leiðrétta lánin er löngu farið. Það var hægt að breyta vísitölum og frysta við færslu úr gjaldþróta bönkunum yfir í þá nýju en það var meðvituð ákvörðun að gera það ekki. Hvort sem um skilyrði AGS var að ræða eða ekki þá bera stjórnvöld alla ábyrgð á klúðri vegna hrunsins og þessarar endurreisnar sem er engin endurreisn. Bara fálm óvita út í tómið

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.10.2010 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband