14.10.2010 | 09:05
Margar þjóðir í landinu
Í landinu búa 6 þjóðir í það minnsta. Ríkir og fátækir,íslendingar og útlendingar, höfuðborgarbúar og landsbyggðarfólk. Kreppan í dag hefur leitt í ljós vaxandi misskiptingu hér á landi sem er áhyggjuefni. Nú er ekki lengur talað um fólk heldur hópa. Ríkisstjórnin endurspeglar vel þessa stéttaskiptingu með stefnu sinni í fjárlagafrumvarpinu. Á næsta ári verður erfiðast að vera fátækur nýbúi og búa á Suðurnesjum. Nánar tiltekið í Reykjanesbæ. Þökk sé bæjarstjórn Reykjanesbæjar og sérstaklega Árna Sigfússyni að þeim hefur tekist að búa til fyrsta slömmið á Íslandi. Til hamingju með það íbúar Reykjanesbæjar!
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er ríkisstjórn hvítra miðaldra Íslendinga sem búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu, eiga hús og bíla, hafa miðlungstekjur og starfa helst á vegum ríkisins.
Það er alltaf erfitt að búa í landi þar sem stjórnvöld taka afstöðu með einum þjóðfélagshóp framar öðrum. Þetta þekkja íbúar dreifbýlisins á eigin skinni. Hér hafa stjórnvöld aldrei haft skilning á mikilvægi hinnar dreifðu byggðar. Stefna stjórnvalda hefur alltaf verið sameining sveitarfélag og minni þjónusta. Atvinnustefna stjórnvalda hefur alltaf verið í formi byggðastefnu á kostnað lítilla sjávarþorpa. Eyðing byggða með því að ræna frá fólki lífsbjörginni, að veiða fisk, þótti sjálfsögð á sínum tíma og þykir enn. Og þegar fólk hefur gefist upp og flutt burt þá er farið af stað og boruð göng! Sennilega svo höfuðborgarbúar geti á auðveldan hátt komist á "hornstrandir" dreifbýlisins og notið náttúrunnar og kyrrðarinnar í friði fyrir innbyggjum.
Af hverju kjósum við þetta óhæfa fólk alltaf yfir okkur trekk í trekk? Við eigum betra skilið
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.