Ólína, hvernig væri að umorða spurninguna?

Ólína spyr á bloggi sínu í morgun; "Hvað er að vera landsbyggðarkona?"

Ég leyfi mér að umorða spurninguna og svara henni svona LoL

Hvað er að starfa sem stjórnmálakona
styðja ekki þá sem í einfeldni vona
að réttlæti eigum við öllum til handa
en ekki eingöngu Samherja og Granda

Aðstoða engan á erfiðum stundum
aðeins með lýðskrum á mótmælafundum
útdeila dúsu upp í "erfiða" munna
alþingismennirnir einir það kunna

Aðeins um eiginn hag fyrst og fremst hugsa
fresta öllum málum og tefja og slugsa
þekkja hvern samherja í þinginu og svona
- það er að vera stjórnmálakona

Hvað er að vera landsbyggðarkona?
Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 | 11:05 | 18 ummæli

Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu hefur kallað fram enn eina umræðuna um stöðu

landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborginni. Sú umræða getur tekið á sig ýmsar myndir, m.a. þá

sem Mörður Árnason samflokksmaður minn dró upp í bloggfærslu í fyrradag. Vart þarf að taka

fram að við Mörður lítum málið ólíkum augum – en þessi pistill hans varð þó til þess að ég

fór að hugleiða hvað það væri að vera landsbyggðarkona. Við þær hugleiðingar losnaði um

ljóðateppuna sem ég hef haft síðan ég byrjaði í pólitíkinni (því ég hef nánast ekkert getað

ort í þessu argaþrasi). Útkoman varð þessi:

Hvað er að lifa sem landsbyggðarkona?
Líða og njóta, dreyma og vona.
Óttast um sína ástvini á sjónum.
Ýmislegt starfa og hafa á prjónum.

Aðstoða nágranna á erfiðum stundum,
ala upp börnin, mæta á fundum.
Fjörðinn sinn þekkja, fjallinu unna,
finnast þú átthagasöguna kunna.

Vera til staðar að gleðjast og gráta
með glöðum og hryggum. Vináttu láta.
Þekkja hvert mannsbarn í þorpinu og svona
- það er að vera landsbyggðarkona.

    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 14:47

      Hvað er að starfa sem stjórnmálakona
      styðja ekki þá sem í einfeldni vona
      að réttlæti eigum við öllum til handa
      en ekki eingöngu Samherja og Granda

      Aðstoða engan á erfiðum stundum
      aðeins með lýðskrum á mótmælafundum
      útdeila dúsu upp í „erfiða“ munna
      alþingismennirnir einir það kunna

      Aðeins um eiginn hag fyrst og fremst hugsa
      fresta öllum málum og tefja og slugsa
      þekkja hvern samherja í þinginu og svona
      - það er að vera stjórnmálakona
    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 15:06

      Vel ort Jóhannes, en boðskapurinn bæði ómaklegur og illa inrættur – því miður.

Óskandi væri að þú gætir notað skáldgáfu þína betur og til uppbyggilegri hluta.
    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 15:28

      Þetta var nú ekkert sérstaklega meint til þín Ólína. Það eru fleiri konur á þingi sem

ættu frekar að taka þetta til sín þó ég nefni engin nöfn. En þú kveiktir innblásturinn með

þínum kveðskap….takk fyrir það :)
    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 15:30

      Áfram þá með innblásturinn:

      Hvað er að lifa sem lýðskrumari?
      Láta helst aldrei standa á svari
      en hirða þó ekki um sannleikann sjálfan
      segja hann aldrei meiri en hálfan.

      Vega að mönnum með ómerkum orðum,
      ala á fordómum rétt eins og forðum,
      þegja um dyggðir þótt leynt ei fari,
      - það er að vera lýðskrumari.

    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 15:47

      Á vef Árnastofnunar má lesa þessa útlistun á orðinu lýðskrumari:
      „Orðið lýðskrumari er til í málinu að minnsta kosti frá því snemma á 20. öld. Það er

oft notað um stjórnmálamann sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn

blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum

kjósenda.“
      Höldum því til haga!

      Fyndist mér þú froðusnakkur
      frekjuskass og lýðskrumari
      umræðunni enginn akkur
      yrði ger með mínu svari
      :)
    *

        Trausti Þórðarson // 15.10 2010 kl. 16:05

      Hvað með að kveða þann kvótadraug niður?
      kannski þá yrði í landinu friður
      og þeir sem að sviku í sáttanefndinni
      sakbitnir tækju við réttlátri hefndinni.
    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 16:35

      Stundir þú klæki sem kennt er við refinn
      kvenleika glatar sem konu er gefinn
      til dyggða þú vísar sem enginn hér veit um
      - með verðleikafólki við Íslandi breytum

    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 17:53

      Og smá viðbót til Jóhannesar:

      Víst er að þörf er á velferðar gjörðum,
      velvild og réttsýni mjög þurfum við.
      Ranglæti, lýðskrum og rógburð nú jörðum,
      ég rétti þér höndina – semjum nú frið.

    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 18:35

      Áhyggjurnar eru að dvína
      oki þungu af mér létti
      og hugann hressti hún Ólína
      er hendi sína að mér rétti

---------------------------------------------------------------------------------------
Eða landsbyggðarmaður? Rímuð ritdeila
15.10 2010 | 17:59 | 19 ummæli

Upp er risin rímuð ritdeila hér á blogginu mínu í framhaldi af  fyrri færslu dagsins þar

sem ég velti því fyrir mér hvað það væri að vera landsbyggðarkona. Ekki vil ég gera

kynjamun, og hér kemur eitt sýnidæmi af því sem ég sé fyrir mér þegar ég hugsa um karla á

landsbyggðinni. Kannski svolítið rómantísk sýn, en ég þekki allmarga sem þessi lýsing á við

um, svo hún er ekki fjarri lagi:

Hvað er að lifa sem landsbyggðarmaður?
Landstímið taka sáttur og glaður,
aflanum landa uppi við bryggju,
athuga netin af fyrirhyggju.

Eiga með konunni unað í næði,
umfaðma börnin, sýna þeim gæði.
Yngsta syninum hampa svo hreykinn
og horfa með stráknum á fótboltaleikinn.

Á höfninni kaffið með körlunum súpa,
karpið og þrefið í glettnina hjúpa.
Nýta sitt þrek til þreyjunnar glaður
- það er að vera landsbyggðarmaður.

    *

        Elís Rúnarsson // 15.10 2010 kl. 18:43

      Já ljúfast er lífið á landsbyggðinni,
      ljómandi arðbært í sveitinni minni.
      Byggðastefnan sem nú er að brenna,
      skatt-tekjum reykvískra karla og kvenna
    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 19:23

      Erfitt er sumum að elska og njóta
      einkum ef eiga ekki bát eða kvóta
      En berja í borðið og þola ekki þvaður
      - það er að vera landsbyggðarmaður.
    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 19:43

      Um þetta getum við verið sammála Jóhannes :-)
    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 19:45

      Yrki ljóð á lyklaborði
      latur rúinn öllum krafti
      rímsins vegna raða orði
      réttast væri að halda kjafti
    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 20:01

      Elís, nokkur orð til þín.

      Hvar myndast verðmætin? Gáðu að því góði.
      Gætu þau komið úr Reykvískum sjóði,
      eða frá grundvallar atvinnuvegum
      úti á landi – giftusamlegum?

      Fiskveiðar, búrækt og ferðamennska
      færa okkur útflutningstekjur og fleirra.
      Því er nú miður að það er lenska
      að þakka þeim síst sem afla þeirra.
    *

        ABC // 15.10 2010 kl. 20:19

      Að berja ekki í borð og þola þvaður
      Borgarbúum er tamara maður
      Landsbyggðinn nýtur náinna tengsla
      nefni þar helst þingmannavensla
    *

        Kristín Sævarsd // 15.10 2010 kl. 20:48

      Ég er jákvæð Evrópukona
      á jöfnuð ég trúi og vona.
      Okkar framtíð er fín
      ef, Ólína mín
      við hættum að kíta og svona.

      Þetta er soddan smákóngaþjóð
      sem situr hér hnýpin og góð
      Að sínu otar
      og kjördæmispotar
      í andskotans djöfulmóð.

      …að lokum legg ég til að landið verði gert að einu kjördæmi!
    *

        Elís // 15.10 2010 kl. 21:14

      Leitumst nú landsmenn til sjós og til lands,
      að losna úr skotgröfum andskotans.
      Í koti eða höll,
      nú lofum við öll.
      Að líta til langtíma Evrópu sambands.

    *

        Jóhannes Laxdal // 15.10 2010 kl. 22:32

      Ein limra að lokum

      Ólína á Alþingi situr
      ekki mörg frumvörp hún flytur
      Á blogginu óð
      yrkir hún ljóð
      ekki er að sjá hún sé bitur
    *

        Ólína Þorvarðardóttir // 15.10 2010 kl. 22:40

      Ekki eru frumvörpin alltof mörg
      þótt ákaft sé hugarflæði,
      hvorki í muna er þó meinill né örg
      því magn er annað en gæði
    *

        Kristín Sævarsd // 15.10 2010 kl. 22:41

      Þessi er góð, Ólína. Laxmaðurinn var kveðinn í kútinn.
    *

        Anna María Sverrisdóttir // 15.10 2010 kl. 23:04

      Rýr og lítill reykvíkingur ungur
      rótum unnir sinna æskuslóða (einsog aðrir)
      treginn leitar á er sumar tungur
      tala um hann sem algeran amlóða.

    *

        Jóhannes Laxdal // 16.10 2010 kl. 01:05

      Krístín Sævars kvað upp dóm
      í kútinn vær´ég kveðinn
      Undir tæki einum róm
      ef ég væri beðinn

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Ég fæ ekki lengur að setja athugasemdir þessa efnis" Ólína, stattu við loforð þitt við þjóðina,

frjálsar handfæraveiðar" á blogg Ólínu.

Aðalsteinn Agnarsson, 15.10.2010 kl. 18:27

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Aðalsteinn þú verður bara að skipta um spólu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 15.10.2010 kl. 20:10

3 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Jóhannes, aldrei að gefast upp!!

Fái þjóðinn frjálsar handfæraveiðar, leysir það allan atvinnuvanda Íslendinga!!!

þú gætir þá róið út á litlum bát, með sjóstöng, fiskir þú 100.kg. af þorski 5 daga vikunar,

=2 tonn X 350 kr. kílóið = 700.000. krónur mánaðarkaupið, fyrir að vinna mjög lítið.

Aðalsteinn Agnarsson, 15.10.2010 kl. 21:17

4 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

fiskir þú 100. kg af þorski á dag, 5 daga vikunar, svona átti þetta að vera.

Aðalsteinn Agnarsson, 15.10.2010 kl. 21:43

5 identicon

Heill Jóhannes.

Virkilega gaman að sjá menn sem kunna að ríma. En það ætti að tilheyra að kunna líka að fara rétt með stuðla og höfuðstafi. Kvæðið er efnislega flott, en nokkuð "ofstuðlað" á köflum. Pabbi gamli talaði gjarnan um "brageyra" sem hann líkti við "tóneyra". "Hafi maður brageyra, þarf maður ekki að læra neina bragfræði", sagði pabbi.

Eftir talsverða umhugsun, kemst ég að þeirri niðurstöðu að sá gamli hafi haft rétt fyrir sér.

En sem sé samt fallegt kvæði. Takk.

Mbk - Jón Dan

Jón Daníelsson (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 05:39

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk Jón,  þetta var nú aðallega til gamans gert. Ólína henti á loft bolta sem ég greip og sendi til baka. þess vegna var ég bundinn af hennar bragliðum. Hefði hugsanlega ort öðruvísi sjálfur. En þetta var gaman. Tækifærisvísur sem ekki gafst tími til að snurfusa

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.10.2010 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband