17.10.2010 | 15:45
Það verður að stofna Sannleiks og sáttanefnd
Afgreiðslur Alþingis á ákæruliðum Atlanefndarinnar sýna svo ekki verður um það deilt, að Alþingi og stjórnmálamenn eru ekki fær um að skapa sátt hjá þjóðinni. En sáttin er grundvöllur þess að menn séu tilbúnir að horfa til framtíðar.
Hlutverk Sannleiks og sáttanefndarinnar yrði að rannsaka hverjir bera höfuðábyrgð á því allsherjar hruni sem íslenskt samfélag varð fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Nefndinni verði falið að fara nákvæmlega ofan í þá pólitísku spillingu sem setti hér allt þjóðfélagskerfið í hættu.Sérstaklega verði farið í þátt Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í þeim ákvörðunum sem ollu mestum straumhvörfum. En þetta á ekki bara að snúast um Davíð og Halldór, heldur þarf þjóðin að gera upp við alla þá stjórnmálamenn sem annaðhvort tóku þátt eða leyfðu málum að þróast á ákveðinn veg aðgerðarlaust. Gleymum ekki að á þessu tímabili fóru fram þrennar kosningar til alþingis.
Þessa Sannleiks og sáttanefnd verður að skipa strax en samt ekki af þessu fólki sem nú situr á þingi. Þingið nýtur einskis trausts lengur og þarf að víkja. Helst strax í gær. Þessi ríkisstjórn er vanhæf og óhæf vegna þess að í henni sitja leifarnar af hrunstjórnarfólkinu og í stjórnarandstöðu er enn fullt af sama fólkinu og hefur setið á þingi síðan 2003 og þar áður kom að sveitarstjórnarmálum eða innra strafi flokkanna. Allt þetta fólk er rúið trausti. Nýjar kosningar eru forgangsmál. Nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar bíða bráð úrlausnarverkefni. En engu skiptir hvað ríkisstjórnir gera eða gera ekki ef áfram kraumar þessi reiði, tortryggni og vantraust hjá þjóðinni.
Sannleiks og sáttanefnd getur lægt reiðina og skapað traust. Ef ekki þá verður hér alvöru upplausn þegar menn skapa sér sitt eigið réttlæti. Því ég túlka niðurstöður Capacent á gildum þjóðarinnar, þegar hún skipar ábyrgð og ábyrgðarkennd mun neðar en áður sem vantraust á gildi réttlætis og minnkandi löghlýðni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir hvert orð í þessum pistli.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 17.10.2010 kl. 17:27
Takk Arinbjörn og kveðjur norður
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.10.2010 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.