7.11.2010 | 17:22
Sameining HR og Bifrastar
Allt þetta tal um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst hljómar eins og pilsfaldakapitalismi í mínum eyrum. Hér er verið að takast á um hvernig skuldum viðkomandi stofnana verði velt yfir á ríkið án þess að gera viðkomandi sjálfseignarstofnanir gjaldþrota. Þess vegna er brýnt að Katrín Jakobsdóttir haldi að sér höndum og skuldbindi ekki ríkið á neinn hátt. Þessar milljarðaskuldir Háskólans í Reykjavík koma ríkissjóði ekkert við og það er með ólíkindum að forráðamenn þess skóla skuli hafa kosið að fjárfesta svona umfram getu í steypu en ekki menntuninni sjálfri. Borið saman við varfærnar byggingaframkvæmdir Háskóla Íslands er ljóst að engin þörf var á að haga málum með þessum hætti og því ber rekstraraðilum HR að axla alla ábyrgð á þessu rugli og forsvarsmönnum Fasteignar að hafa lánað til þeirra. Varðandi Bifröst var sama upp á teningnum. Ráðist var í alltof miklar fjárfestingar eins og enginn væri morgundagurinn og aldrei þyrfti að borga lánin til baka. Allt er þetta nú að hrynja í hausinn á þeim og það sem verra er, þeir munu draga sveitarfélagið með sér í fallinu. Þetta er miður en galtómur ríkissjóður getur ekki hjálpað og á ekki að hjálpa. Háskólamenntun hér á landi er glórulaus, stefnulaus og stjórnlaus. 310 þúsund manna þjóð að reka alla þessa háskóla er bara bilun. Við eigum að skilgreina þörfina á menntun og gera vel á sviðum sem gagnast okkur en senda aðra nemendur til náms í útlöndum. Það er hið eina rétta. Nú er verið að kenna einhverjar húmanískar námsbrautir sem er ekki einu til starfsheiti yfir! Lágmark er að háskólafólk viti hvað það er að læra og geti sótt um störf í samræmi við það eftir próf.
Nú er tími til að draga úr, forgangsraða og gera betur, ekki gera öllum til hæfis!
Leggja áherslu á að viðræður séu á jafnræðisgrundvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Jóhannes
Gaman þætti mér að vita hvaðan þú hefur vitneskju þína varðandi Háskólann á Bifröst. Sá skóli er mjög vel rekinn í dag og var hann eitt af örugglega fáum fyrirtækjum sem rekin voru með hagnaði árið 2009. Ég skil ekki heldur hvernig þú færð það út að fari Bifröst á hausinn fari sveitarfélagið með. Sveitarfélagið er vissulega í mjög vondri stöðu, en það er miklu frekar offjárfestingum hjá þeim sjálfum að kenna (t.d. byggingin undir Menntaborg).
Hitt er annað mál að ég er hjartanlega sammála þér með að það þarf ærlega tiltekt í íslensku háskólasamfélagi, þó án þess að leggja endilega niður heilu Háskólana því þeir gegna nefnilega mjög mikilvægu byggðalegu sjónarmiði. Sbr. Háskólinn á Akureyri fyrir Akureyri sjálfa og Bifröst og Landbúnaðarháskólinn fyrir Borgarbyggð.
kv. Biggi
Birgir Óli (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 18:14
Væri líka gaman að vita hvaðan þú hefur upplýsingar um milljarðaskuldir HR, ég veit ekki til þess að sá skóli skuldi nokkurn skapaðan hlut.
Það er Fasteign sem á húsið í Nauthólsvikinni. Reyndar er HR samningsbundinn til að leigja húsið og greiða leigu þar, en rekstur HR er í ákaflega ábyrgum skorðum enda skuldlaus.
Hvað varðar varfærnar húsbyggingar HÍ mætti benda á bullhúsið Öskju, sem fór rækilega fram úr kostnaðaráætlun.
Aðeins að skoða staðreyndir Jóhannes !
HR-ingur (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 18:32
Takk fyrir innleggið Birgir Óli. Ég vísa bara til ekki ómerkari manns en fyrrverandi rektors, Ágústs Einarssonar varðandi rekstrarvanda háskólans á Bifröst. Þótt reynt hafi verið með fjármálabrellum að aðskilja skólann og skólabyggingarnar þ.m.t. heimavistarhúsnæðið, þá er þetta allt einn pakki. Þegar búið er að færa skuldir í sér félag er auðvelt að sýna fram á hagnað. Hagsmunir sveitarfélagsins fara auðvitað saman við velgengni þeirra tekjustofna sem það byggir á. Ef þessum tekjustofni er kippt burt þá hlýtur eitthvað undan að láta. Varðandi Háskólann á Akureyri þá hef ég skrifað um hann heilu færslu þar sem ég legg til að við breytum honum í Hafrannsóknar háskóla. (ekki sjávarútvegs háskóla) Um mikilvægi menntunar erum við örugglega sammála það verður bara að byggja á getu þjóðfélagsins. Uppbygging háskólasetra útum allt er byggðastefna ekki menntastefna
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 18:33
HR ingur, ég nefndi skuldbindingar HR vegna samningsins við Fasteign sérstaklega. Lesa betur!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 18:35
Já Jóhannes, þú nefnir Fasteign sem lánveitanda, ekki leigusala sem er hið raunverulega hlutverk.
Það er Fasteign sem skuldar peninga vegna hússins góða í Nauthólsvík, ekki HR, sem er skuldlaus í dag.
Hins vegar er húsið svolítið 2007, en þó má nefna að það var snarlega skorið niður og minnkað eftir að kreppan skall á, ekki allar álmurnar voru byggðar.
Niðurstaðan er að starfsfólk HR situr töluvert þrengra en til stóð í upphafi, til að húsaleigan sé ekki um of íþyngjandi.
HR-ingur (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 18:47
HR-ingur, bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki að gagnrýna starfsemi eða starfsfólk þessara skóla. Ég er bara að vara við að fjárhagsskuldbindingum þeirra sé velt yfir á ríkið.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 19:17
Skiljanlegt, þar sem helsta áhyggjuefni starfsmanna HR vegna þessara sameiningaráformum allra saman er að HR sé ætlað að taka á sig skuldbindingar Bifrastar.
Það eru þó margir furðulega hatrammir í garð Háskólans í Reykjavík. Hugsanlega er það vegna þess að ímynd skólans er í hugum margra tengd útrásarbullinu öllu saman.
Fæstir virðast átta sig á því að meira en helmingur af nemendum skólans eru að læra tæknigreinar eða tölvunarfræði. Nemendur sem vita semsagt hvað þeir geta starfað við þegar þeir útskrifast ;-)
HR-ingur (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 19:36
Dóttir mín er í námi við HA að læra eitthvað í samfélags og hagþróunarfræðum á meðan sonur minn er í HR að læra tölvunarfræði. Sonurinn er nú þegar í vinnu við sitt fag en dóttirin þarf að fara í framhaldsnám áður en hún fær sína diplómu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 20:08
p.s svo er líka námsbraut í HA sem heitir Nútímafræði!!! Ég held að HA sé skýrt dæmi um háskóla í tilvistarkreppu. Væri það ekki gustukaverk að leysa hann úr þeirri krísu með því að breyta honum í Hafrannsóknarskóla?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.