27.12.2010 | 23:00
Róbert Marshall rífur kjaft
Skortur á pólitískri forystu
Langlundargeð mitt og margra annarra er á þrotum gagnvart ástandinu í Landeyjahöfn, segir Robert Marshall, alþingismaður.
Ekki hugnaðist mér sá valdhroki sem lýsti sér í ummælum Samfylkingar þingmannsins Róberts Marshalls í kvöldfréttum RÚV. Kannski er þetta liður í að koma höggi á óánægða arm VG, en eins og kunnugt er þá stýrir Ögmundur Jónasson nú samgöngumálum landsmanna og í forsvari fyrir hafnasviði Siglingastofnunar fer nú Sigurður Áss Grétarsson, bróðir Lilju Grétars, sem líka tilheyrir uppreisnarliði VG. Hvað svo sem Róberti gengur til þá ætti hann að þegja og láta sérfræðingana um að taka ákvarðanir um siglingar til Landeyjarhafnar í vetur. Eins og allir vita þá var það vegna þrýstings frá pólitíkusum að ráðist var í gerð þessarar hafnar á þessum tíma þrátt fyrir ófullnægjandi mælingar og rannsóknir. Danskir undirverktakar vildu gera frekari rannsóknir á staðsetningu hafnarinnar en Kristján Möller tók hina pólitísku ákvörðun um að hefjast handa og ber því aðal ábyrgð á klúðrinu sem þarna átti sér stað. Eldgosið í Eyjafjallajökli kom ekkert á óvart, það var vitað að gjósa mundi á þessu svæði og það var líka vitað að askan mundi renna til sjávar með Markarfljóti,en ósar þess fljóts eru rétt fyrir austan innsiglinguna í Landeyjarhöfn. Ekki veit ég hve margar milljónir rúmmetra af gosefnum vegna Eyjafjallajökuls eiga eftir að renna ofan í innsiglinguna til Landeyjarhafnar en verkfræðingarnir eru örugglega búnir að slá á þá tölu. Kostnaður við dælingu er einnig þekktur svo það er einfalt að reikna út hvort ódýrara sé að halda áfram dælingunni og reyna að halda höfninni opinni eða viðurkenna sigur náttúruaflanna og bíða með allar aðgerðir til dýpkunar þar til framburður vegna gossins hefur skilað sér í sjó fram. Að tala um að siglingar til Þorlákshafnar séu skref afturábak lýsir bara ábyrgðarleysi og heimsku Eyjamannanna Róberts Marshalls og Elliða Vignissonar bæjarstjóra. Ábyrgðarleysi bæjarstjórans snýr að öryggisþætti samganganna en ábyrgðarleysi þingmannsins snýr að því hvernig honum finnst sjálfsagt að misfara með skattfé almennings og henda hundruðum milljóna í tilgangslausar dýpkanir í Landeyjarhöfn.Mig grunar að embættismenn Siglingarstofnunar sem Róbert talar svo niðrandi um, hafi kannski tekið fram fyrir hendur fíflanna sem fara með fjárveitingavaldið og sýnt þá djörfung sem þurfti að slá af frekari siglingar til Landeyjarhafnar í vetur, hvað sem síðar verður
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.