28.12.2010 | 08:59
Fjörbrot fjórflokksins
Íslenskt samfélag einkennist af átökum og flokkadráttum öðru fremur. Þetta er arfur víkinganna og ofstopamannanna sem hingað hröktust vegna þess að þeir gátu ekki lifað í siðaðra manna samfélögum. Enn í dag er alið á sundrung og ófriði og alls staðar þar sem tveir menn koma saman, þar er þráttað. Þar sem 2 prestar koma saman þar er rifist um afstöðu Siðmenntar, þar sem 2 trúleysingjar koma saman þar er rifist um þjóðkirkjuna og þar sem 2 vinstri grænir koma saman er rifist um Lilju Mósesdóttur. Margt má segja um stjórnarandstöðu Vinstri grænu villikattanna en samt held ég að allir geti verið sammála um að málefnin hafi þar ráðið en ekki einstaklingarnir öfugt við það sem áður hefur einkennt pólitískan klofning á Alþingi. Má þar nefna nýlegan klofning Borgarahreyfingarinnar þegar Þráinn klauf sig út úr þeim þingflokki vegna persónulegs ágreinings. Margir telja þetta uppgjör VG marka endalok þessara ríkisstjórnar sem vill kenna sig við norræna velferð. Farið hefur fé betra segi ég bara. Þessi ríkisstjórn hafði öll tækifæri til að marka hér nýtt upphaf á nýjum grunni en kaus að fara allt aðrar og ógæfulegri leiðir. Fljótfærni og flaumbrugangur auk óvandaðra vinnubragða hefur verið akkilesarhæll þessarar stjórnar. Leyndarhyggjan og foringjaræðið var svo það sem endanlega varð henni að falli. Umsóknin um aðild að ESB voru mistök og mistök Steingríms sem fjármálaráðherra eru stærri en svo að hægt sé að sætta sig við hann sem ráðherra áfram. Þjóðin er klofin í afstöðunni til Icesave og ESB og stjórnarmeirihlutinn er of veikur með tilliti til þeirra verkefna sem ennþá hefur ekki verið tekist á við nú 2 árum eftir hrun. Fjórflokkurinn er lamaður ef ekki lemstraður og nauðsynlegt er að þessi stjórn segi af sér og boði til kosninga. Þjóðin þarf að kjósa um helstu baráttumál. Við viljum hafa um það að segja hvort sótt verði um aðild að ESB. Við viljum hafa um það að segja hvort hér verði stefnt að upptöku evru og við viljum hafa um það að segja hvort við borgum Icesave. Ríkisstjórn sem þorir ekki að leggja verk sín i dóm þjóðarinnar þarf að fara frá. Bandalag um völd er ekki það sem íslenskt þjóðfélag þarf. Hér þarf að skerpa línur. En umfram allt þarf að leggja nýjar línur. Á meðan alltaf vofir yfir von um eitthvað annað þá gerist ekkert. Á meðan fólk lifir í von um afskriftir skulda þá er enginn hvati til að endurskipuleggja fjármál, meðan álversframkvæmdir eru ekki slegnar af þá kemur enginn annar orkukaupandi og meðan allur krafturinn fer í aðildarumsókn að ESB þá eru engir aðrir möguleikar skoðaðir. Til dæmis hefur viðskiptahagsmunum í Ameríku verið fórnað vegna EES. Látum ekki stjórnvöld hræða okkur til undirgefni. Við erum búin að fá nóg. Gatan hans Steingríms er ekki sú gata sem þjóðin vill ganga og skiptir þá engu hverjir dunda sér við að velta steinum í þá götu. Við köllum eftir skýrri framtíðarsýn byggðri á islenskum lausnum. Íslenskur iðnaður byggður á íslenskri orku mannafla og hugviti er leiðin til framtíðar. Fiskveiðar eru leiðin til að halda landinu í byggð og standa undir lífskjörunum.
Uppstokkun flokkakerfisins er þegar hafin. Hún þarf að byggjast á hugmyndafræði en ekki óánægðu fólki. Þeir sem vilja ekki ganga í ESB þurfa að sameinast núna gegn ríkisstjórninni. Strax og þing kemur saman þarf að bera upp vantraust á þessa ríkisstjórn og þar verður að brjóta á afstöðunni til aðildarinnar til ESB umsóknarferlisins. Til vara legg ég til að þjóðin fái núna strax að segja hug sinn til innlimunarinnar og framgöngu Össurar sem utanríkisráðherra. Ef þjóðin samþykkir stefnu Samfylkingarinnar varðandi ESB þá hefur stjórnin treyst sig í sessi. Ef ekki, ber henni að víkja. Enginn vill sjá hér stjórnvöld sem vinna gegn vilja þjóðarinnar eins og þessi stjórn er að gera með aðstoð ónýtrar stjórnarandstöðu
Uppstokkun flokkakerfisins er þegar hafin. Hún þarf að byggjast á hugmyndafræði en ekki óánægðu fólki. Þeir sem vilja ekki ganga í ESB þurfa að sameinast núna gegn ríkisstjórninni. Strax og þing kemur saman þarf að bera upp vantraust á þessa ríkisstjórn og þar verður að brjóta á afstöðunni til aðildarinnar til ESB umsóknarferlisins. Til vara legg ég til að þjóðin fái núna strax að segja hug sinn til innlimunarinnar og framgöngu Össurar sem utanríkisráðherra. Ef þjóðin samþykkir stefnu Samfylkingarinnar varðandi ESB þá hefur stjórnin treyst sig í sessi. Ef ekki, ber henni að víkja. Enginn vill sjá hér stjórnvöld sem vinna gegn vilja þjóðarinnar eins og þessi stjórn er að gera með aðstoð ónýtrar stjórnarandstöðu
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.