13.1.2011 | 14:15
Bandaríkin og Vikileaks
Umræðan um Vikileaks hér á íslandi einkennist af tilfinningavellu eins og flest. Því miður þá hafa íslendingar látið nota sig sem verkfæri aktivista til að koma höggi á bandarísk stjórnvöld. Alveg burtséð frá því hvað mér finnst um stríðsrekstur Bandaríkjanna þá finnst mér ekki rétt að birta hernaðarlegar upplýsingar á vef Vikileaks. Þeir sem það gera eru þar með orðnir sekir um njósnir og verða að taka afleiðingunum af því. Allt öðru máli gegnir um fjármálalegar upplýsingar og upplýsingar sem varða almannahagsmuni. Birgitta Jónsdóttir er einn af aktivistunum hérna á Íslandi og hún ber hatur í brjósti til Bandaríkjanna sem hún sér sem tákngerving hernaðarbrölts og heimsyfirráða. Þetta væri allt í lagi ef hún væri ekki jafnframt þingmaður á íslenska löggjafarþinginu. Sem slíkur hefur hún skyldum að gegna við íslenska þjóð og má ekki gerast brotleg við lög landsins. Það sem hún er að gera í nafni Vikileaks hlýtur að vera á mörkum hins löglega ef ekki ólöglegt. Því er það óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli sjá ástæðu til þess að ganga lengra en stætt er í að verja þessa persónu. Birgitta á að segja af sér þingmennsku ef hún hefur ekki lengur tíma til að sinna starfinu sem hún var kjörin til. Með því að skýla sér bakvið friðhelgi Alþingis þá er hún að ögra Bandaríkjunum. Við Íslendingar höfum hingað til treyst á varnir Bandaríkjanna og gerum það enn þrátt fyrir Össur Skarphéðinsson í stóli utanríkisráðherra og hans fjandsamlegu framkomu gagnvart sendiráðsmönnunum á Laufásveginum. En Össur mun vonandi víkja en Bandaríkin munu halda áfram að vernda vestrænt lýðræði þrátt fyrir fólk eins og Kristinn Hrafnsson og Birgittu Jónsdóttur
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ekki ertu mjög áhugasamur um frjálst þjóðfélag ef þér finnst í lagi að grislingar með byssur og öflugri vopn gangi um fretandi á hvern sem þeir vilja, og að í þokkabót að því verði haldið leyndu.
Það eru ekki hernaðarlegar upplýsingar sem ætti að halda leyndum. Það er grófasta brot á mannréttindum sem til er. Frjálst þjóðfélag getur aðeins verið frjálst ef mannréttindi eru tryggð.
Jóhannes Birgir Jensson, 13.1.2011 kl. 14:33
Takk fyrir innlitið nafni, ef þú ert að vísa til áróðursmyndbandsins sem Birgitta klippti saman og RUV birti sællar minningar þá finnst mér ósanngjarnt að fordæma Bandaríkin sem slík á því sem þar sést. Ég held að við höfum engar forsendur til að dæma og hvað þá fordæma baráttu við borgarskæruliða. Þetta er ekkert venjulegt stríð sem háð er í Írak, Afganistan eða á Gaza. Og það er hæpið að saka bara annan aðilann um stríðsglæpi. Hvað myndirðu kalla árásina á tvíburaturnana í New York? Saklausir borgarar falla vegna þess að þeir eru notaðir sem skildir af eigin landsmönnum. Þegar við háðum okkar stríð þótti okkur gott að eiga Bandaríkin að og notuðum okkur það óspart. Það er kannski það sem, ég er að vekja athygli á.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.1.2011 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.