15.1.2011 | 13:39
Kvótakerfið gerir marga ríka
Í fréttum fyrir jól var sagt frá glæsilegri nýsmíði útgerðarmannsins Sigurjóns Óskarssonar úr Vestmannaeyjum. Þessi fregn vakti athygli margra vegna þess að hún var þannig unnin að skilja mátti að fjárfestingin væri mikið afrek á krepputímum. Þannig skyldi ég málið í það minnsta. En nú hefur annað komið í ljós. Þrátt fyrir kveinstafi útgerðarmanna þá er kvótakerfið enn að búa til gríðarleg verðmæti fyrir kvótakóngana, sérstaklega ef þeir þurfa ekkert að veiða! Þegar útgerðarfélagið Ós ákvað að endurnýja skipakostinn árið 2007 þá var gamla Þórunn seld í kjölfarið og kvótinn leigður út. Um var að ræða 2000 þorskígildi sem hafa gefið eigendunum um það bil 2 milljarða í aðra hönd á tveggja ára tímabili. Þess má geta að nýsmíðin kostaði 1.5 milljarð svo þarna hefur kerfið búið til verulegan fjárhagslegan ávinning. Ég er ekki að segja þessa sögu hér til að varpa rýrð á Sigurjón Óskarsson. Hann er af gamla skólanum og alls góðs maklegur. Landsfrægur aflamaður sem hefur aldrei gert annað en að fiska og vera í útgerð. Hins vegar hefur hann nýtt sér kerfið og keypt miklar aflaheimildir sem nýttust honum á þennan ábatasama hátt í þessu viðbjóðslega kerfi sem kvótakerfið er. Kvótakerfið hefur í 20 ár aukið hér þenslu og samsvarandi verðbólgu vegna þess að það býr til peninga án nokkurra verðmæta að baki. Þess vegna þarf að leggja það niður
Flokkur: Sjávarútvegsmál | Breytt 16.1.2011 kl. 18:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.