21.1.2011 | 16:00
Sjálfstæðissinnar sameinist!
Með hverjum deginum sem líður kemur betur í ljós að ríkistjórnin hefur enga stefnu í grundvallar viðfangsefnum hverrar ríkisstjórnar. Og þessi grundvallar mál tengjast óhjákvæmilega og hanga saman.
Eina pólitíska markmið Samfylkingarinnar er að innlima landið í ESB. Það er þeirra efnahagsstefna, atvinnustefna, byggðastefna, menntastefna, auðlindastefna og utanríkisstefna. VG ráðherrarnir seldu sína stefnu fyrir völd. Valdapólitík einkennir stefnu Steingríms J.
Og hvað hafa aðrir til málanna að leggja? Það virðist harla fátt. Sjálfstæðissinnar þegja þunnu hljóði og híma með hendur í skauti. Sennilega að bíða eftir að AGS fari eða að samingaviðræðum ljúki og þjóðin taki afstöðu til aðildarinnar að ESB. En þetta er ekki sú ábyrga afstaða sem þjóðin á heimtingu á. Við eigum fleiri kosti í stöðunni en að ganga í ESB. Það þarf bara að sýna fram á það!
Grundvallar atriðið sem allt veltur á er gjaldmiðillinn og peningastefnan. Eigum við að byggja á krónu og redda okkur áfram með fastgengisstefnu eða eigum við að taka einhliða upp US dollar? Á meðan allt stjórnkerfið og Seðlabankinn er undirlagt samningaviðræðum vegna aðildaumsókarinnar þá fer engin raunhæf skoðun á öðrum úrræðum fram. Seðlabankinn er hlutdrægur og löngu tímabært að minnka vald hans. Hér þarf að koma á fót nýrri þjóðhagsstofnun til mótvægis við greiningardeildir bankanna sem nú þegar eru komnar á fullt í að tala upp fasteignamarkaðinn. Menn hafa ekkert lært.
Stjórnmálamenn verða að fara að taka ákvörðun og móta stefnu til framtíðar. það gengur ekki að skýla sér bakvið ónýtar flokksgirðingar. Aðildarsinnarnir hafa stefnu, sjálfstæðissinnarnir enga. Það er ekki stefna að segja NEI!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.