Í kjölfar einkavæðingar Ríkisskipa lögðust strandsiglingar af að mestu hér við land. Í staðinn byggðust upp öflug fyrirtæki landflutninga, sem nú sjá um þá þungaflutninga sem áður fóru um hafnir landsins. Afleiðingar þessara breytinga eru margvíslegar og það eru bæði kostir og gallar. En verst er þó að stjórnvöld hafa enn ekki mótað neina sýn til framtíðar þrátt fyrir skipan starfshópa. Ein af afleiðingum kvótakerfisins eru stórauknir fiskflutningar landshluta á milli með tilheyrandi vegasliti og áhættu og slysakostnaði. Þetta varast menn að nefna þegar samgöngumál eru til dæmis rædd í fjölmiðlum. Alltaf skal krafan um betri vegi stjórna umræðunni. Aukinn túrismi hér á landi mun auka umferð stórra rúta og það sjá allir að okkar tvíbreiðu vegir eru ekki hannaðir fyrir þá umferð. Nú þegar hafa orðið alvarleg slys þegar rútur og flutningabílar mætast. Þess vegna sakna ég alvöru samgönguáætlunar þar sem allt er tekið saman og hagsmunir metnir útfrá þjóðarhag en stór fyrirtæki eins og Samskip ekki látin ráða. Strandflutningar hafa marga kosti og þótt ekki sé beinn hagnaður af slíkri flutningastarfsemi þá er samt svo mikill hulinn kostnaður sem hlýst af óbreyttu ástandi að hiklaust er hægt að réttlæta stofnun ríkisrekins strandflutningafyrirtækis. Endurreisn strandflutninga á að vera hluti af byggðaáætlun og hún mun efla hafnir út um allt land og hjálpa við að halda landinu í byggð. Flutningar á landi munu þó ekki leggjast af, en nauðsynlegt er að setja reglur um hámarksþunga og banna þessa fiskflutninga með trailerum alfarið. Eða að öðrum kosti skikka menn til að keyra á nóttunni. Það hlýtur að teljast mikil skammsýni að byggja upp vegakerfi þegar umferðin sem kemur í kjölfarið eyðileggur jafnharðan það sem byggt er. Hér er um brýnt hagsmunamál að ræða, mun stærra en að halda Landeyjarhöfn opinni.
Fyrrverandi áhugamaður um frjálst þjóðfélag. Núverandi áhugamaður um spillingu Og vegna þess að ég er öllum óháður, þá óska ég ekki eftir að komast í bloggvina sambönd. Öllum vinabeiðnum verður því hafnað. Vinsamlega ekki taka það persónulega. Þeim sem vilja hafa samband er bent á póstfangið, jlaxdal@internet.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.