30.1.2011 | 14:56
Palladómur um Silfrið
Silfur Egils hefur tekið greinanlegum breytingum sem felast í breyttu vali á viðmælendum og miklu hófstilltari gagnrýni en áður tíðkaðist. Mig grunar að áhrifamikil öfl hafi samið um þessar áherzlubreytingar og sett Agli stólinn fyrir dyrnar. Enginn ber á móti að þáttur Egils og umfjöllun hans um þjóðfélagsmál hafa skipt sköpum á margan hátt og komið róttækum breytingum í gegn meðan kerfið var í lamasessi og stjórnmálamenn í sárum. Nú eru þeir óðum að eflast og koma til baka og nú skal gagnrýnin beizluð það er augljóst. Við munum líka ákall Kristrúnar Heimis um að Agli bæri skylda til að hjálpa stjórnvöldum og hætta þessari háværu gagnrýni. Þarna birtist fyrsti vísirinn að þögguninni sem er að bera árangur. Einnig hefur gagnrýni hræmiganna borið þann árangur að meira jafnvægis er nú gætt en áður að rödd íhaldsins heyrist þótt enginn skilji í raun hvaða erindi sumir sjálfstæðismenn hrunsins eigi í þjóðfélagsumræðu sem snýst um endurreisn. Mörgum finnst það ósvífni af þeim að draga sig ekki í hlé og alla vega afþakka að taka þátt í borgaralegri umræðu. En að Silfri dagsins. Umræða dagsins var bitlaust stagl sem skildi ekkert eftir sig. Jóhann Hauksson varð sér enn og aftur til skammar og ekkert nýtt kom frá Þorgerði, hún talar alltaf í hringi blessuð konan. Eygló var prúð og málefnaleg að venju en skrýtið fannst mér af henni og Agli að eigna Framsókn heiðurinn af stjórnlagaþingsfrumvarpinu. Sú umræða var farin af stað löngu áður, að hér þyrfti að stofna nýtt lýðveldi. Var það ekki öðlingurinn Njörður P Njarðvík sem fyrstur stakk upp á því ? Kristinn Pétursson fjallaði af yfirburða þekkingu um kvótakerfið. Það var gott að hluta á hann og sýndi að róleg og yfirveguð umræða skilar meiru en æsingur, skammir og upphrópanir. Að lokum var svo útlendingahornið. Útlendingahornið í Silfrinu er svona eins og Rykkornið í Kiljunni. Maður lætur sig hafa að fylgjast með þættinum til að missa ekki af þessum hornum þáttanna. þessir útlendingar sem Egill er alltaf að draga í þættina eru oftar en ekki frægir fyrirlesarar og það er ómetanlegt að fá innsýn í þeirra heim svona ókeypis. Vonandi er að Egill hressist og bjóði ritstýringaröflunum byrginn. Endurreisnin er í raun ekki hafin og það er full þörf á áframhaldandi beittri gagnrýni án aðkomu stjórnmálamanna. Þeir hafa sinn hálfvita hálftíma á þingi. Látum þeim það nægja
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.