7.2.2011 | 21:23
Bjarni Ben og kvótakerfið
Mjög athyglisvert viðtal birtist á visir.is í kvöld. Þar er Bjarni Benediktsson, hinn nýi bandamaður Steingríms og Jóhönnu í icesave málinu, spurður spjörunum úr. Það er ekki að sjá að hann hafi valið réttar gallabuxur fyrir þetta viðtal, því hann afhjúpar gríðarlega hagsmunavörslu fyrir LÍÚ. Spurður um álit á fyrirhuguðum breytingum fiskveiðistjórnunarlaganna og viðbrögðum SA, segir hann:
Það er mikilvægt að hafa í huga að við erum með ríkisstjórn sem nú hefur setið í tvö ár. Allan þann tíma hefur hún valdið óróa og óvissu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins. Hún tefldi fram stjórnarsáttmála fyrir bráðum tveimur árum þar sem sagt var að innkalla ætti allar aflaheimildir og fullkomin óvissa var um það hvað ætti að taka við. Við þetta hefur sjávarútvegurinn búið í allan þennan tíma. Með tilliti til þessa þá er það fráleitt að skella skuldinni á sjávarútveginn þegar hann óskar núna, í tengslum við kjaraviðræður, eftir því að fá skýrar línur um framtíðina.
Það hefur átt sér stað samráð þar sem allir hagsmunaaðilar sem máli skipta komu sér saman um lausn. Mér finnst að það sé skylda ríkisstjórnarinnar að taka af skarið um að sú leið verði farin og þá er málið leyst. Ég tel að þegar vel er að gáð þá sé í raun og veru enginn sá grundvallarágreiningur um þetta mál sem forsætisráðherrann vill halda á lofti og þess vegna læðist að manni sá grunur að hún sé eingöngu að reyna að búa sér til óvild til þess að reyna að þétta raðirnar um stjórnarmeirihlutann."
Og þegar fréttamaðurinn spyr, "Gæti lausnin falist í því að taka fyrir framsal á kvóta?" þá er þetta svarið:
Þegar vinstri stjórnin gaf framsalið frjálst á sínum tíma þá vissu menn að af því myndu hljótast erfiðleikar en hagræðið sem því fylgdi var hins vegar talið nauðsynlegt. Það hefur ekki verið án fórna og við þeim hefur verið reynt að bregðast en sú grundvallarhugsun að hámarka hagkvæmni verður áfram að vera við lýði. Við megum ekki fara aftur að líta á fiskveiðistjórnunarkerfið sem félagslegt úrræði eins og svo víða gildir í Evrópusambandinu."
Í þessum svörum sínum afhjúpar Bjarni áframhaldandi þjónkun við málstað stórútgerðarinnar á kostnað fólksins í landinu. Það getur verið að hann sé laus undan oki Davíðs, en hann er þræll fjármagnseigendanna eins og allir fyrirrennarar hans. Bjarna finnst allt í lagi að hér sé á vegum stjórnvalda haldið uppi byggða og atvinnustefnu í formi félagslegra úrræða en alls ekki megi hrófla við hagsmunum þessara fáu sem eiga nýtingaréttinn á lífsbjörg byggðanna. 1 stórútgerðarmaður á Ísafirði á að njóta meiri réttar en 3000 íbúar. Það er stefna Bjarna Ben, sem stendur nú frammi fyrir þjóðinni, íklæddur keisaraskrúða eftir velheppnað uppistand í Valhöll í gær. Bjarni Ben mun ekki leiða hér neina endurreisn ef menn hafa haldið það. Stórskuldugur flokkur er háður fjárframlögum úr hendi útgerðarinnar. Soltinn rakki bítur ekki hendina sem elur hann. Og það gildir fyrir allan fjórflokkinn. Hann mun engu breyta þótt vandalistinn Jón Bjarnason sé að kveikja smáelda hér og þar. Steingrímur eltir hann með slökkvitækið og kemur í veg fyrir skaða.
Hér þarf að verða alvöru bylting. Við þurfum engan Jóel litla Færseth. Við þurfum íslenskan Nelson Mandela!
Flokkur: Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 21:27 | Facebook
Athugasemdir
Flottur ertu Jóhannes!
Aðalsteinn Agnarsson, 7.2.2011 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.