Kvótakettlingarnir og 5. herdeildin

Erfingjar kvótaauðsins, eru réttnefndir kvótakettlingar. Þeir vinna ekki við greinina, heldur bíða eftir að næsti ættliður á undan þeim deyi svo þeir geti innleyst þennan gífurlega auð, sem nemur 10 milljörðum að meðaltali á hverja af þeim 50 fjölskyldum sem eiga hér 83.90% af kvótanum. Um þetta snýst deilan um fiskinn í sjónum. Kvótakerfið er til þess eins að tryggja eins og kostur er yfirráðarétt þessara kvótagreifa (550 samtals) Uppbygging eða vernd skiptir þá engu.

50 fjölskyldur á Íslandi eiga 83.90% af aflamarki í bolfiski, sem úthlutað er árlega.
16.10% er í eigu allra hinna.  2011 var úthlutað aflamarki til 644 skipa. Ekki er fjarri lagi að álykta að einyrkjar í hópi 16.10% séu um 500 talsins. Allir aðrir sem róa til fiskjar eru því leiguliðar 83.90% hópsins. Nú skulum við reikna,  Heildaraflamark í bolfiski umreiknað í þorskígildi var 1. sept 2010 272.406.000 kíló. Segjum að verð á varanlegu þorskígildistonni sé 2.500 krónur kílóið þá er verðmæti alls aflamarks í bolfiski á Íslandsmiðum fyrir árið 2011,  681 milljarður og þar af leiðir þá eiga 50 fjölskyldur kvóta að verðmæti 571 milljarð eða 11.4 milljarðar á hverja fjölskyldu.

Þetta eru hinar nöktu staðreyndir um kvótakerfið og hvers vegna andstaðan er svona mikil við hverri einustu tilraun til að brjóta það niður. Það er hægt að halda uppi gífurlega sterkri andstöðu fyrir brot af þessu verðmæti sem um er að tefla. Og þótt skuldir útgerðarinnar séu kannski 400 milljarðar þá eru þessir menn að verja 281 milljarð sem búið er að færa til eignar eða er framtíðarvirði erfingjanna.

Það eru þessir erfingjar sem ég uppnefni hér sem kvótakettlinga. Þeir dúkka allstaðar upp í umræðum á netinu og halda uppi öflugum hræðsluáróðri gegn öllum hugmyndum um innköllun kvóta. Til aðstoðar hafa svo þessir kvótakettlingar, her launaðra aðstoðarmanna, svokallaða 5. herdeild, til að tala sínu máli á síðum blaða , í útvarpi og á ráðstefnum innanlands og utan. 5. herdeildin er sundurleitur hópur. Þar er að finna hagfræðinga, lögfræðinga, stjórnmálamenn sveitarstjóra, bæjarstjóra, verkalýðsrekendur, sjómenn og húsmæður. Flestir á launum en alls ekki allir. En hættulegastir eru fiskifræðingarnir sem keyptir voru til að verja þjófnaðinn á fiskveiðiauðlindinni á sínum tíma. Þeir voru flæktir í net blekkinga svo núna snýst þeirra afstaða um að verja heiður sinn sem vísindamanna sem vilja láta taka sig alvarlega..  Það er sennilega mest þeim að þakka að þessi lögverndaði þjófnaður gat átt sér stað og staðist allar atlögur í svona langan tíma.  Á 20 árum er búið að heilaþvo stærstan hluta þjóðarinnar. Síendurtekinn áróður virkar þótt rangur sé.  það er bara staðreynd. 

Nú skal segja þessum ræningjum stríð á hendur. Rangt er rangt og löngu kominn tími til að hætta þessu rugli. Afnemum kvótakerfið og komum á skynsamlegri og sjálfbærri sóknarstýringu. Hættum að falsa bókhald útgerðanna með ímynduðum verðmætum. Veiðum fyrst og vinnum aflann áður en við færum andvirðið til bókar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Ég fagna skoðun þinni Jóhannes. Sannleikurinn er sá að búið er að nota Hafró til að leika sér með verð á kvótanum og passað er uppá að auka ekki við kvótann svo kvóti einstakra tegunda lækki ekki. Þetta er gert svo veðin í bönkunum standi undir lánunum sem tryggð eru í kvóta "eign" fyrirtækjanna. Með þessu hefur þjóðin horft á bak stórra árganga í þorski hverfa óveidda af miðuunum.

Þetta er óþolandi framkoma og sýnir lítilsviðingu þessa fólks fyrir íslensku þjóðinni. Það er ekkert sameiginlegt með kvótastýringu og uppbyggingu fiskstofnanna. Kvótakerfi er aðeins haldið við líði hér til að hægt sé að búa til úr þessu "eign" sem hægt er að nota í auðgunarskyni og tryggja hér í sessi einokun í sjávarútvegi og heppa starfsmenn í greininni í leiguliða ánauð. Engin rök hafa heyrst sem réttlæta þetta kerfi. ENGIN

Ólafur Örn Jónsson, 12.2.2011 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband