18.2.2011 | 09:34
Aumkunarverð ríkisstjórn og ESB dindlarnir
Ríkisstjórn sem er hrædd við þjóðina grípur oft til óyndisúrræða. Afgreiðsla þingsins á icesave frumvarpinu var hlægileg og óskiljanleg miðað við hve málið er viðamikið og afleiðingar þess alvarlegar ef efnahagslegar forsendur breytast. Eina skýringin á hraðferð málsins í gegnum þingið er söfnun undirskrifta á kjósum.is, sem hleypt var af stokkunum um síðustu helgi. Upphaflega var gert ráð fyrir að lögin yrðu samþykkt fyrir áramót en þegar það dróst og samningar náðust við Sjálfstæðismenn þá taldi ríkisstjórnin greinilega sigurinn vísan. Þess vegna kom undirskriftasöfnunin þeim á óvart og þau panikkeruðu. Í fyrsta lagi með því að kippa frumvarpinu út úr fjárlaganefnd í trássi við nefndarmenn, í öðru lagi með því að flýta atkvæðagreiðslunni í ósamkomulagi við þingflokka Hreyfingar og Framsóknar og í þriðja lagi með því að senda lögin með hraði til Bessastaða. Þessi viðbrögð lýsa ríkisstjórn sem er í mikilli tilvistarkreppu.
En enn og aftur skynjar ríkisstjórnin ekki þjóðarviljann. Það gengur ekki. Ríkisstjórnin situr í umboði lítils hluta þjóðarinnar og hún vill neyða upp á okkur aðild að ESB og hún er tilbúin að skrifa upp á skuldabréf að fjárhæð 600 milljarða, til að af aðild geti orðið. Þetta er glórulaust. Og það er ómögulegt annað en að forsetinn vísi þessum lögum til þjóðarinnar eins og hinum fyrri. Steingrímur og Jóhanna eru umboðslaus í þessu mál. Og ef hér hefði ríkt venjulegt ástand með heilbrigðri stjórnarandstöðu og sjálfstæðu Alþingi, þá hefði þessi stjórn sagt af sér strax og ljóst var að þjóðin hafnaði icesave II. En þetta er ekkert venjulegt stjórnmála ástand. Hér ríkir stjórnmálakreppa og dómstólar útdeila hér því litla réttlæti sem enn nær fram að ganga. Ekki kjörnir fulltrúar sem flestir þvælast bara fyrir. Við eigum betra skilið. Og við eigum það inni hjá útrásarforsetanum að hann standi með þjóðinni og vísi þessum hneykslanlegu lögum icesave-ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá geta vitleysingar eins og Teitur Atlason og ESB dindlarnir í Samfylkingunni fengið að kjósa , en þá munu þeir bara hafa eitt atkvæði eins og allir aðrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svo nákvæmlega rétt hjá þér. Að neita þjóðinni um þjóðaratkvæðagreiðslu í svo mikilvægu máli er gróf valdníðsla. Lýðræði er greinilega eitur í beinum ESB sinna.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.