10.4.2011 | 04:23
Krafa um breytt vinnubrögð
Nú er réttur mánuður síðan ég bloggaði síðast. Ég vissi að átökin um icesave lögin yrðu hatrömm og mörg orð látin falla sem ekki er svo auðvelt að draga til baka. Þetta reyndist rétt og í því ljósi verður athyglisvert að fylgjast með málflutningi já manna núna næstu daga og vikur. Að menn læri eitthvað af þessu er borin von. Þeir sem háværastir eru í umræðunni eru flestir forhertir flokksdindlar sem eru fastir í skotgröfum gamla flokkakerfisins. Þeirra pólitíski metnaður snýst bara um að halda með sínu liði sama hversu röng stefnan er. Í kjölfar hrunsins gafst gullið tækifæri til raunverulegra breytinga en það tækifæri var ekki nýtt. Aðalástæðan fyrir því var sú litla endurnýjun í forystuliði Vinstri grænna og Samfylkingar. Þeir sem enn ráða för eru jafn ábyrgir fyrir því kerfishruni sem hér varð og þeir einstaklingar sem stóðu í brúnni haustið 2008. Þetta fólk vill engar breytingar. Þetta fólk hefur ekki siðferðilega burði til að axla ábyrgð. Endurreisnin var falin Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og Geir Haarde kennt um hrunið. Að draga Geir Haarde einan manna fyrir Landsdóm en ætla samt að fara eftir því sem hann lagði upp með í kjölfar hrunsins er mikill tvískinnungur. Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn eru ábyrgir fyrir icesave. Geir Haarde lagði drög að því að ríkið ábyrgðist icesave kröfuna. Ríkisstjórn VG og SF voru ekki bundin af þeim ákvörðunum. Geir Haarde og Seðlabankamafían gerðu samninginn við AGS. VG og SF voru ekki bundin af þeim ákvörðunum. Neyðarlögin voru kannski nauðsynleg á sínum tíma en nýrri stjórn og nýju þingi var í lófa lagið að endurskoða þau lög strax vorið 2009. Það var aldrei gert. Þessvegna hefur svona lítið áunnist. Að sækja um aðild að ríkjabandalagi eins og ESB er ekki ábyrg pólitík í kjölfar hruns. Vandamálin hverfa ekki við það eins og nú er að renna upp fyrir þessu vanhæfa fólki. Verkin eru ennþá að mestu leyti óunnin. Og það sem verra er að margt af því sem gert hefur verið þarf að vinna aftur með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Steingrímur J. Sigfússon og hans fúsk í starfi fjármálaráðherra hefur reynst þjóðinni dýrkeypt. En til allrar hamingju var þó mesta tjóninu forðað með því að þjóðin sagði NEI við icesave nauðungarklafa ESB og AG. Því það sjá það allir að AG setti það skilyrði fyrir sínum lánum að þetta gengi eftir. Icesave snýst nefnilega ekki um krónur og aura. Icesave snýst um að tryggja kerfi auðmagnsins. Steingrímur og Jóhanna voru bara peð í skák G8 eða G20 ríkjanna og þeirra peningaafla sem stjórna öllum ríkisstjórnum. Núna hefur íslenska þjóðin sagt þessu kerfi stríð á hendur. Það eru heimsfréttir. þessvegna skiptir svo miklu hvernig úr þessari stöðu teflist. Núverandi stjórnvöld eru vanhæf til þess verks sem nú bíður ríkisstjórnarinnar. Það eina rétta í stöðunni er að efna til alþingiskosninga hið fyrsta. Þingið er jafn rúið trausti og ríkisstjórnin svo það er engin lausn að mynda hér þjóðstjórn þótt það væri í boði sem það er ekki. Ég deili ekki þeim ótta sem reynt er að koma inn hjá mönnum að falli þessi stjórn þá taki hér við völdum óbreyttur Sjálfstæðisflokkur. Hafa menn enga trú á þjóðinni? Hefur ekki þjóðin sýnt í tveim síðustu kosningum að henni er treystandi? Spuninn í fjölmiðlum varðandi skoðanakannanir er einfaldlega vísvitandi blekkingar. 40% þeirra sem ansa skoðanakönnunum hafna fjórflokknum. En spuninn tekur ekki tillit til þess. Spuninn miðar sínar tölur við þá sem taka afstöðu. Þannig fæst út að Sjálfstæðisflokkur fengi 40% atkvæða þegar það rétta er að hann fengi kannski 25%. Í næstu kosningum verður fjórflokknum hafnað á afgerandi hátt. Þetta vita Steingrímur og Jóhanna og neita því að víkja. En dagar þeirra eru samt á enda. Þjóðin hefur talað. Og þjóðin vill endurskoðun á vinnubrögðum stjórnmálamanna. Þjóðin lætur ekki mata sig á bulli lengur. Gjaldþrota þjóð hefur ekki efni á meiri lánum. Nú þarf að vinna sig út úr vandanum, ekki veðsetja sig. Fyrsta skref sem bíður nýrrar ríkisstjórnar er að afnema kvótakerfið og stórefla atvinnu í landinu. Breytingar á utanríkisstefnu eru líka nauðsynlegar. Lítil þjóð hefur ekki efni á að setja öll egg í eina körfu. Undir stjórn Össurar hefur Ísland fjarlægst vini okkar í vestri. Það er slæm pólitík. Samfylkingin og VG hafa afhjúpað sig. Þau eru nakin og spunaliðinu hefur mistekist. Það eru góðar fréttir. Vonandi fáum við frið fyrir þeim næstu mánuði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:32 | Facebook
Athugasemdir
Við fáum ekki frið fyrr en ríkisstjórnin hefur farið frá og við fáum ekki frið fyrr en þjóðin hefur valið sér nýja fulltrúa á alþingi. Tveir þriðju hluti þingmanna hefur misst trú kjósenda og því verður að kjósa nýtt þing strax. Þing sem hefur traust þjóðarinnar, þing sem er tilbúið að standa vörð þjóðarinnar og þing sem er tilbúið að vinna fyrir þjóðina!
Gunnar Heiðarsson, 10.4.2011 kl. 08:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.