Vantraustið er gagnkvæmt

Ríkisstjórnin og meirihluti alþingis börðust gegn því að þjóðin greiddi atkvæði um icesave lögin. Þau treysta ekki þjóðinni.  Þjóðin hafnaði síðan forsjá ríkisstjórnarinnar í þessu aðalbaráttumáli hennar með afgerandi hætti í gær. Þjóðin treystir ekki þessari ríkisstjórn sem fer gegn hagsmunum þjóðarinnar í stóru sem smáu. Samt ætlar ríkisstjórnin að sitja áfram eins og ekkert sé. Umboðslaus og rúin trausti getur þessi ríkisstjórn ekki setið. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að halda á málum gagnvart ESA dómstólnum svo trúverðugt sé?  Það er almannahagur að Icesave málið fari fyrir dómstóla og verði rannsakað ofan í kjölinn. Samfylkingin óttast slíka rannsókn. Þá mun verða flett ofan af þeirra aðkomu að þessum svikagerningi. Þar eru margir hákarlar sem héldu að þeir væru sloppnir þegar ákærur gegn ráðherrum voru felldar af vanhæfum samþingmönnum og fyrrverandi félögum á síðasta ári. Hræðsluáróðurinn sem nú heyrist um að rannsókn á hruninu verði hætt ef þessi stjórn fellur, heldur ekki vatni. Þessi stjórn vill enga rannsókn. Hún hefur dregið lappirnar í öllu sem viðkemur ítarlegri rannsókn á þeirri stjórnmála og embættismanna spillingu sem leiddi til kerfishrunsins í október 2008.

Við þurfum nýja vendi í ríkistjórn, sem eru óhræddir við að láta fara fram óháða rannsókn á öllu fjármálakerfinu. Kvótasetningu í landbúnaði og sjávarútvegi og einkavæðingunni. Peningamálastefnu seðlabankans og hvernig forsvarsmenn lífeyrissjóðanna brugðust því hlutverki sem þeim var falið. Hér hefur engin rannsókn farið fram. Og hér hefur enginn verið látinn sæta ábyrgð!  Trúa menn því virkilega að þessi ríkistjórn ætli að gera upp hrunið?  Og hvað með löngu tímabæra endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni?  Þar ríkir þögnin ein enda hafa menn engan skilning á þeim skaða sem þetta kerfi hefur valdið þjóðarbúskapnum undanfarin 20 ár. Sjávarútvegur er ekki lengur meginatvinnuvegur þjóðarinnar samkvæmt sóknaráætlun 2020. Eins sorglegt og það nú er, þá hefur LÍÚ tekist að slá eign sinni á fiskstofnana og það eru fáir ef nokkrir stjórnmálamenn tilbúnir að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Hér þarf að efna til kosninga og freista þess að fá valda einstaklinga til að bjóða sig fram til setu í ríkisstjórn. Fjórflokknum þarf að halda frá landsstjórninni um langa framtíð.

Steingrímur lagði sjálfan sig að veði og tapaði. Hann má ekki koma að málarekstrinum fyrir EFTA dómstólnum (ef af verður). Það verður ávísun á því að málið tapist.

Hér eru bara tveir kostir í boði. Annaðhvort víkur stjórnin eða þjóðin. 20 þúsund Íslendingar á besta aldri og með bestu menntunina eru þegar farin. Hve margir þurfa að fara til viðbótar áður en þessi vanhæfa ríkisstjórn hrökklast frá völdum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband