14.4.2011 | 07:10
Af Guðbergi, Halldóri Laxness og Sjálfstæðu fólki
Guðbergur Bergsson gerir lítið úr Íslendingum þegar hann hæðist að einangrun landsins. Guðbergur er heimsborgari og dvelur langdvölum erlendis. Hann má gjarnan hafa þessa skoðun fyrir sig. Halldór Laxness var líka heimsborgari en hann skildi þó þjóðarsálina betur en flestir aðrir. Á meðan Guðbergur Bergsson telur það eftirsóknarverðast fyrir Íslendinga að sitja á spænskum eða frönskum kaffihúsum og teiga að sér evrópska heimsmenningu þá vissi Halldór Laxness að fyrir Íslendinginn er meiri fullnægja fólgin í að sitja á sinni eigin þúfu og erja sína eigin jörð. Það eru margir sem gera lítið úr þúfnakollahugsunarhætti Íslendinga og vísa gjarnan til Bjarts í Sumarhúsum máli sínu til stuðnings. En þeir hinu sömu skilja ekki þjóðareðlið á sama hátt og Halldór Laxness þegar hann skrifaði meistaraverkið Sjálfstætt fólk. Íslandsklukkan vakti marga til umhugsunar um þjóðleg gildi. Sjálfstætt fólk er miklu magnaðra verk og hefur aldrei átt betra erindi við þjóðarsálina en einmitt núna. Ég hélt ég hefði lesið að til stæði að setja þetta verk aftur á fjalir Þjóðleikhússins næsta haust en finn engar upplýsingar um það á netinu. Vonandi verður það samt gert því boðskapurinn mun hafa meiri áhrif en 1000 spunaræður. Sérstaklega fyrir þá sem á annað borð láta sig varða þau gildi sem þjóðin byggir tilveru sína á. Því öfugt við það sem Evróputrúboðar predika, þá er ekki ánægja og vellíðun mæld með hagvexti eða lágum vöxtum og lágu matarverði. Ánægjan er miklu frekar fólgin í að rækta það sem íslenskt er. Standa á eigin fótum í friði við náttúruna. Evróputrúboðana skortir þessa reynslu. Vinstri - Elítan fyrirlítur brauðstritið. Þeir hafa aldrei upplifað að leggjast þreyttir til svefns að loknu góðu dagsverki. Fyrir þeim er hver dagur öðrum líkur. Grá tilvera tilgangsleysis. Og þeirra lífslygi felst í blekkingunni um eitthvað annað og betra handan sjóndeildarhringsins. Kíkjum frekar í eigin barm og leitum. Því innra með öllum Íslendingum er lítill Bjartur í Sumarhúsum og bíður eftir að koma fram
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:15 | Facebook
Athugasemdir
Þessi lífsgildi sem þú dásamar Jóhannes kallast heimska.
Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 14:49
Betra þó en að vera bæði heimskur OG HROKAFULLUR.
Alfreð K, 18.4.2011 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.