2.5.2011 | 17:58
Um stakkinn og vöxtinn
Íslandi hefur verið skorinn of stór stakkur miðað við stærð er niðurstaða mín eftir áralanga rannsókn. Upphafið er hægt að rekja til inngöngu okkar í EES og þeirra kvaða sem sá milliríkjasamningur lagði á okkar herðar. Og stjórnmálamenn sem áttu að sjá um að stytta og þrengja (aðlaga reglurnar eins og við átti) stóðu sig ekki í stykkinu. Sinnuleysi stjórnmálanna var algert enda lítið frumkvæði leyft innan flokkanna. Þess vegna bera Davíð og Halldór mesta ábyrgðina á því klúðri sem átti sér stað við inngönguna í EES, þótt sökin á sjálfum samningnum liggi hjá Jóni Baldvin.
Það sem menn áttuðu sig ekki á var að íslenska örríkið gat aldrei staðið undir þeim skuldbindingum sem þátttaka í EES samstarfinu leiddi af sér. Þessar reglur ESB sem við vorum neydd til að taka upp í okkar löggjöf voru sniðnar að milljónaþjóðunum á meginlandi Evrópu sem áttu alls ekki við hér og voru beinlínis skaðlegar okkar sjálfstæði og tilverurétti hér á skerinu. Nægir að nefna hrikalegar afleiðingar fjórfrelsisins sem hér tók gildi við undirritun EES samningsins 1994. Við hefðum betur haldið okkur við tvíhliða tollasamninga að hætti Sviss sem hafnaði aðild að EES í þjóðaratkvæðagreiðslu sem okkur var neitað um.
Vöxtur ríkisbáknsins er annað dæmi um óraunsæið í íslenskri pólitík. Hér rekum við stærra ríkisapparat en þekkist í nokkru landi í veröldinni ef miðað er við fólksfjölda. þetta hefur reynst okkur gríðarlega kostnaðarsamt. Nú er svo komið eftir áratuga óstjórn að margir sjá það sem eina mögulega kostinn í stöðunni að ganga í Evrópusambandið og velta vandanum yfir á skattborgara Þýskalands og Frakklands og Bretlands. Ekki er víst að það gangi eftir.Almenningur í þessum löndum er að vakna upp til vitundar um að kannski sé hag þeirra ekki best borgið í samruna ESB í eitt stórríki. Hvaðverður þá um okkur?
Til langs tíma litið held ég að okkar hag sé best borgið utan EES og þarafleiðandi ESB. Okkar vandi er vissulega stór en alls ekki óyfirstíganlegur. Eina sem þarf er að koma fjórflokknum frá völdum í eitt skipti fyrir öll og koma hér á ættbálkaráði. Við erum hvort sem er ekki nógu stór til að teljast þjóð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.