20.5.2011 | 19:46
Kostnaðarvitund Árna Múla
Bæjarstjóranum á Akranesi finnst ekki mikið að punga út á annað hundrað milljónum fyrir 4 bindi af Sögu bæjarins. Ekki veit ég hver taxtinn er hjá sagnfræðingum almennt en augljóst er að bærinn hefur samið all svakalega af sér. Og ekki síst þegar haft er í huga að Saga Akraness hefur nú þegar verið rituð nokkrum sinnum svo ekki hefur þurft að gera kostnaðarsamar frumrannsóknir. Einnig eru til mjög góðar heimildir um sögu kaupstaðarins í ævisögu Haraldar Böðvarssonar sem ég eignaðist fyrir mörgum árum og las mér til fróðleiks og ánægju. Ekki er ég viss um að ég hafi geð í mér til að lesa þessa nýju sögu sem kostað hefur bæjarfélagið sem samsvarar árslaunum 20 verkamanna! En ég óska bæjarfélagi sem hefur efni á þessu og efni á að hafa bæjarstjóra sem finnst þessi upphæð sanngjörn, til hamingju með fjárfestinguna. En betra hefði mér þótt ef hún hefði verið rituð á skinn fyrir þetta verð!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Facebook
Athugasemdir
Árni Múli er náttúrlega alinn upp á rétttrúnaðarheimili og besti vinur og flokksbróðir sagnaritarans á gullöldinni (Alþýðubandalagsins) er einmitt mágur Árna Múla. Við afhendingu handritanna tveggja, þann 18. janúar síðastliðinn, líkti Árni Múli verkinu við Njálu. Í gær, á húllumhæinu, líkti forseti bæjarstjórnar, fyrrum Alþýðubandalagsfélagi sagnaritans, Sveinn Kristinsson, Gunnlaugi sagnaritara við Snorra Sturluson. Það sorglega við þessar líkingar er að Árni Múli er menntaður í íslenskum fræðum og jafnvel líklegt að hann hafi lesið Njálu.
Kann að vera að bæjarstjóra þyki þetta ódýrt og sé kokhraustur og góður með sig. Ég reikna með að bróðurpartur bæjarbúa sé honum hjartanlega ósammála. Samkvæmt Hagstofunni er 4.781 íbúi á Akranesi 18 ára eða eldri. Ritun þessara tveggja binda hefur því kostað hvern útsvarsgreiðanda u.þ.b. 22.000 krónur að núvirði. (Jón Böðvarsson var svo ódýr að það er beinlínis fyndið, eftir á séð. Allur kostnaður við hans verk, sem kom út 1992, var 15 milljónir og 223 þúsund á núvirði. Jón vann alltaf í hlutastarfi og fékk líklega ekkert greitt eftir 1991 en Ritnefndinni tókst samt að pína út úr honum meiri vinnu og uppskar handrit að öðru bindi, sem þáverandi bæjarstjóri afhenti Gunnlaugi Haraldssyni og hann lúrir enn þá.)
Í baksýn í fréttinni sáust einungis bæjarfulltrúar. Veit ekki hver þessi gamli maður sem fenginn var til fletta bókinni er. Ég veit að fjölda fólks var boðið, kannski til að koma í veg fyrir að tómleikinn blasti við. Fyrir að dúkka upp fengu boðsgestir eintök af bókunum, enda hefur bærinn keypt meir en fjórðung af upplaginu fyrirfram.
Fyrir sagnaritarann er ánægjulegt að hafa eignast nýjan velgjörðamann og verndara. Og ég vek athygli á að söngkonan, sem bregður aðeins fyrir, er frábær söngkona! ;)
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 23:08
Sæl Harpa, ég hef einmitt verið að fylgjast með framvindu þessa undarlega máls í færslunum þínum. Þess vegna vakti fréttin athygli mína. Þótt ekki sé við Árna Múla að sakast þá voru orð hans óviðeigandi á allan máta. En því miður þá virðist virðing manna fyrir almannafé ekki hafa batnað eftir hrun. Kannski er það brengluð kostnaðarvitund mín en ekki Árna Múla eða Árna Sigfússonar eða Lúðvíks Geirssonar svo nefndir séu 2 bæjarstjórar sem keyrt hafa bæi sína í þrot með glæpsamlegri meðferð á almannafé. En fyrir mér er 1 milljón ennþá mikið fé sérstaklega ef þess er aflað með súrum svita.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.5.2011 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.